23.3.2020

Viðbragðsteymi Alþingis greindi frá því í gærkvöld að sex starfsmenn skrifstofunnar (sem allir vinna í sama húsi) og einn þingmaður hafa smitast af kórónaveirunni. Að minnsta kosti fjórir einstaklingar eru í fyrirskipaðri sóttkví eftir því sem best er vitað, bæði þingmenn og starfsfólk. Því til viðbótar eru nokkrir þingmenn og starfsmenn í sjálfskipaðri sóttkví vegna persónulegra heilsufarsástæðna eða einhvers nákomins.

Til að tryggja að Alþingi geti sinnt brýnustu löggjafarverkefnum er nauðsynlegt að auka enn frekar smitvarnir á starfssvæði þingsins.

Takmarka verður fjölda þingmanna og starfsfólks í þingsal hverju sinni. Mælt er með því að aðeins þeir þingmenn sem þurfa að taka þátt í umræðum á þingfundum í vikunni séu í Alþingishúsinu. Þá er mikið öryggi í því fyrir þingmenn að taka þátt í nefndafundum að heiman frá sér með fjarfundabúnaði. Nefndafundir með fjarfundabúnaði hafa gefið góða raun síðustu daga.

Ákveðið hefur verið að eingöngu það starfsfólk Alþingis sem þarf að sinna verkefnum á þingsvæðinu mæti til vinnu í vikunni; aðrir sem þess eiga kost vinni að heiman.

Það kemur æ betur í ljós hversu smitandi kórónaveiran er og því mikilvægt að bæði þingmenn og starfsfólk fylgi umgengnisreglum sóttvarnayfirvalda til hins ítrasta. Viðbragðsteymið hefur leitað til sóttvarnalæknis og fengið hjá honum ráð. Vert er þó að muna að ákvarðanir um einangrun og sóttkví eru í höndum smitrakningarteymis Almannavarna. Viðbragðsteymið er þó ávallt reiðubúið til að veita upplýsingar og aðstoða á alla lund.

Mikilvægt að allir, þingmenn og starfsmenn, sem finna fyrir einhverjum flensueinkennum haldi sig heima. Ef fólk er í vafa er það eindregið hvatt til að vera heima á meðan mál skýrast.