17.12.2019

„Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé, síðasta þingfundar á árinu 2019.

Það er ánægjulegt að á þessu haustþingi hefur okkur í meginatriðum tekist að halda okkur innan starfsáætlunar þingsins, skeikar þar aðeins um tvo þingfundadaga. Þetta hefur verið starfsamt þing og mikill fjöldi mála verið lagður fram og ræddur. Framlögð stjórnarfrumvörp eru 64 og stjórnartillögur eru 19. Þá hefur mikill fjöldi þingmannamála verið lagður fram, bæði frumvörp og þingsályktunarttillögur; frumvörpin eru 93 og tillögurnar 99. Til viðbótar hafa nefndir lagt fram 9 mál. Af þessum fjölda hafa 30 stjórnarfrumvörp orðið að lögum og 15 stjórnartillögur samþykktar. Þá urðu að lögum 2 þingmannafrumvörp og 9 nefndafrumvörp. Samþykktar þingmannatillögur voru 5. Þetta er mesti fjöldi mála sem afgreiddur hefur verið fyrir áramót frá 120. þingi, árið 1995.

Það er sérstakt ánægjuefni og er til fyrirmyndar hversu tímanlega Alþingi tókst að afgreiða fjárlög og var afgreiðsla þeirra að fullu í samræmi við starfsáætlun. Sama gildir um flest fjárlagatengd mál. Samþykkt fjárlaga 27. nóvember sl. var í reynd tímamótaviðburður því fjárlög komandi árs hafa ekki áður verið samþykkt svo snemma. Á síðustu áratugum samþykkt fjárlaga oftast lokið eftir miðjan desember.
Öll mikilvægustu þingmálin sem bundin voru gildistöku um áramót hafa hlotið afgreiðslu og sama gildir um mál sem tengjast fyrirheitum sem gefin voru í tengslum við kjarasamninga á vinnumarkaði, svonefndra lífskjarasamninga. Þessi árangur er að þakka því samkomulagi sem tókst milli þingflokka undir lok síðustu viku.

Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka formönnum þingflokkanna sérstaklega fyrir þeirra góða hlut við lokaafgreiðslu mála. Samtölin um þinglokin fyrir jólahlé voru alfarið í þeirra höndum, auðvitað í samráði við forseta, formenn flokka og ráðherra eftir atvikum, en niðurstöðunni lönduðu þingflokksformenn sjálfir. Bein aðild ráðherra að samningum um lok þinghalds hefur sjaldan verið jafn lítil og tel ég að Alþingi hafi haft sóma af því að leysa þau mál sjálft.

Sumt annað á þessu haustþingi gekk ekki eins vel og hlýt ég þar að nefna að það voru nokkur vonbrigði hvað mörg frumvörp frá ríkisstjórn komu seint fram og öllu seinna en þingmálaskrá gerði ráð fyrir. Þetta gerðist þrátt fyrir mikil og góð samtöl um málið milli Alþingis og Stjórnarráðsins undanfarin misseri og vinnu sem forseta er vel kunnugt um að lögð hefur verið í það, ekki síst af hálfu forsætisráðherra. Frammistaða ríkisstjórnar í þessum efnum var því undir væntingum.

Þessi staða sýnir að seint ætlar ráðherrum og ráðuneytum að lærast hversu mikilvægt það er upp á vandaða vinnu og framgang mála á Alþingi að þau berist tímanlega, svo ekki sé nú talað um hversu mikla betra andrúmsloft er í kringum alla vinnu að málum þegar svo er.

Hér á Alþingi er með réttu nokkuð kvartað undan því að dráttur sé á að fyrirspurnum þingmanna til ráðherra sé svarað. Forseti áréttar mikilvægi þess að í þeim tilvikum sem ekki reynist unnt að svara innan tilskilinna tímamarka sé ætíð sótt um lengri frest. Þó að óskað sé lengri frests réttlætir það hins vegar ekki óhóflegan drátt á svari.

Það verður þó ekki horft fram hjá því að Alþingi þarf einnig sjálft að huga að sínum hlut þegar kemur að flutningi fyrirspurna til ráðherra. Það er mjög mikilvægt að fyrirspurnir sé skýrar, vel afmarkað hvaða upplýsingar er verið að biðja um og að ekki sé verið að nýta fyrirspurnarformið til að spyrja um hluti sem þegar liggja opinberlega fyrir og lítil fyrirhöfn er að afla með öðrum hætti, t.d. í gegn um upplýsingaþjónustu Alþingis sjálfs.

Það má hafa svipuð orð um skýrslubeiðnir eins og fyrirspurnir. Það er umhugsunarefni að þær sæta engri sambærilegri þinglegri meðferð, hvorki umræðu né skoðun og yfirleitt á við um allar aðrar ákvarðanir Alþingis áður en þær eru bornar upp til samþykkis eða synjunar. Gagnlegt væri að fara yfir þessi mál hér innan þings, á vettvangi forsætisnefndar og með formönnum þingflokka, sem og í þeirri vinnu sem vonandi kemst skriður á og lýtur að yfirferð og endurskoðun þingskapalaga.

Það sem ég hef nefnt hér um fyrirspurnir og skýrslubeiðnir til ráðherra er með engum hætti beint gegn ótvíræðum rétti þingmanna til að beita þessum mikilvægu aðhalds- og eftirlitstækjum. Réttur þingmanna er óumdeildur, vel varinn af stjórnarskrá og þingskapalögum og verður ekki burtu tekinn. En hugleiðingar mínar eru settar fram í þeirri trú að þannig sé best með tólin farið að þau bíti þegar til þeirra þarf að grípa.

Margt fleira mætti hér við lok haustþings tína til af vettvangi Alþingis, en forseti lætur nægja að nefna að margþættar aðgerðir kjörtímabilsins til eflingar Alþingis ganga samkvæmt áætlun. Vil ég þar nefna atriði eins og aukna aðstoð við þingmenn og þingflokka, eflingu nefndasviðs og skrifstofu Alþingis almennt. Síðast en ekki síst nefni ég nýbyggingu þingsins. Nú hefur verið samið, að undangengnum útboðum, um tvo verkþætti og framkvæmdir á byggingarstað hefjast innan fárra vikna.

Í lok þessa síðasta þingfundar ársins 2019 ítreka ég þakkir mínar til þingmanna, ráðherra og ekki síst starfsfólks Alþingis fyrir þess góðu störf og óska öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar og farsæls nýs árs.

Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.

Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýárskveðjur.“