Connect with us

Félag atvinnurekenda

Borgin gengur of skammt í lækkun fasteignaskatts

Birt

on

19. nóvember 2020

Frá fjarfundi borgarráðs með fulltrúum atvinnulífsins.

Reykjavíkurborg gengur of skammt í lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði með áformum um lækkun upp á 0,05 prósentustig um áramótin. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á fjarfundi borgarráðs í morgun en ýmsum fulltrúum atvinnulífsins var boðið til fundar við borgarráð.

Ólafur benti á að há fasteignagjöld væru eitt þeirra mála, sem helst brynnu á félagsmönnum FA, miðað við niðurstöður kannana félagsins. FA hefur sent borgaryfirvöldum í Reykjavík fjölda erinda og áskorana undanfarin ár um að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Borgin hefur árum saman innheimt hæsta fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði sem lög leyfa, eða 1,65% af fasteignamati. Öll önnur sveitarfélög á suðvesturhorni landsins hafa lækkað álagningarprósentuna undanfarin ár til að koma til móts við atvinnulífið vegna mikilla hækkana fasteignamats. Boðuð lækkun borgaryfirvalda á skattinum niður í 1,6% um áramót hefur staðið til frá upphafi kjörtímabilsins en átti reyndar ekki að koma öll til framkvæmda fyrr en árið 2022.

„Okkur þykir ekki mikið til þessarar lækkunar koma og teljum að borgin þurfi að gera meira,“ sagði Ólafur og benti á að þrátt fyrir boðaða lækkun yrði Reykjavíkurborg að óbreyttu áfram með hæsta skattinn á atvinnuhúsnæði af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Fasteignaskattar fyrirtækja hafa hækkað í takt við hækkanir á fasteignamati atvinnuhúsnæðis undanfarin ár. Þannig hafa skattgreiðslur fyrirtækja í Reykjavík vegna húsnæðis hækkað um 73,3% frá árinu 2014. Á árinu 2020, sem er eitt erfiðasta rekstrarár fjölda fyrirtækja, nemur hækkunin 4,7%. Líklegt er að fasteignamat atvinnuhúsnæðis lækki á næsta ári, en það hjálpar engum fyrr en á þarnæsta ári, þar sem skattar eru greiddir af fasteignamati sem reiknað er út árið á undan.

Ólafur sagði að mat FA væri að fasteignaskatturinn væri afskaplega óheppilegur og ósanngjarn skattur sem legðist á eigið fé fyrirtækja óháð afkomu. „Núna leggst hann á af fullum þunga, á sama tíma og meirihluti fyrirtækja gengur á eigið fé. Þetta er flestum fyrirtækjum alveg gríðarlega þungbært og varla hægt að gera of mikið úr því,“ sagði Ólafur.

Hann ítrekaði áskoranir FA til sveitarfélaga um að fella niður fasteignaskatta tímabundið eða lækka þá, svo og áskorun til sveitarfélaganna og ríkisins að setjast að samningaborði og finna nýja og sanngjarnari umgjörð gjaldtöku af atvinnuhúsnæði.

Félag atvinnurekenda

Neytendur njóta góðs af tollasamningi og breyttri útboðsaðferð tollkvóta

Birt

on

By

4. desember 2020

Neytendur hafa notið góðs af tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins og þeirri breyttu aðferð við útboð á tollkvótum, sem tekin var upp á árinu. Það kemur skýrt fram í  nýrri skýrslu verðlagseftirlits Alþýðusambandsins sem gerð var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR). Verð á innfluttum kjötvörum og ostum, þar sem tollkvótar hafa stækkað í samræmi við tollasamninginn, hækkaði mun minna en við mátti búast vegna veikingar krónunnar á tímabilinu desember 2019 til september 2020 og lækkaði í sumum tilvikum. Úrval af búvörum, bæði innfluttum og innlendum, hefur aukist og sýnir það vel kosti þess að innlendur landbúnaður hafi samkeppni frá innflutningi, að mati Félags atvinnurekenda.

Í skýrslu ASÍ er rifjað upp að ANR hafi samið við verðlagseftirlitið í lok árs 2019 um gerð verðkannana á innlendum og innfluttum búvörum. „Markmiðið með samningnum var að safna gögnum og fylgja þannig eftir þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um tollkvóta í desember 2019. Væntingar standa til að breytingarnar muni skila sér í lægri kostnaði fyrir innflytjendur og lægra verði til neytenda,“ segir í skýrslunni.

Aukið úrval af innfluttri og innlendri vöru
Í niðurstöðum ASÍ kemur fram að framboð eða úrval á þeim landbúnaðarvörum sem könnunin náði til hafi aukist töluvert á tímabilinu. Langmest hafi framboðið aukist af innfluttu svína- og alifuglakjöti, en framboð á innfluttu nautakjöti og ostum hafi einnig aukist talsvert. Einnig megi greina mikla framboðsaukningu á innlendum búvörum, mest á nauta- og svínakjöti en einnig fuglakjöti og unnum kjötvörum. Úrval af ostum hafi hins vegar lítið aukist.

Minni verðhækkanir en gengisveiking gaf tilefni til
Verð á innfluttum búvörum hækkaði í sumum tilvikum meira en verð innlendra búvara, að því er segir í niðurstöðum skýrslunnar. „Í sumum flokkum landbúnaðarvara hækkaði verð á innfluttum landbúnaðarvörum þó ekki mikið umfram verð á innlendum landbúnaðarvörum og tiltölulega lítið sé horft til veikingar krónunnar á tímabilinu sem verðtakan fór fram. Þá mátti sjá verðlækkun í einum flokki innfluttra landbúnaðarvara í könnuninni,“ segir í niðurstöðunum. Í skýrslunni kemur fram að krónan hafi veikst um 20% gagnvart evrunni á tímabilinu desember til september, en langmest af innfluttri búvöru kemur frá ríkjum Evrópusambandsins. „Veiking krónu hefur tilhneigingu til að fara nokkuð hratt út í verðlag á innfluttum vörum en aðrir áhrifaþættir geta unnið upp á móti,“ segir ASÍ.

Breytingar á tollafyrirkomulagi spila inn í hækkun grænmetisverðs
Að mati FA sést þetta glöggt í þeim verðbreytingum, sem sjá má í meðfylgjandi töflu. Verðhækkanir á kjötvörum og ostum eru minni en gengisveikingin gefur tilefni til og í tilviki alifuglakjöts lækkar verð innlendrar vöru. Tollkvótar á þesum vörum hafa farið stækkandi vegna tollasamningsins við Evrópusambandið. Lægra útboðsgjald vegna breyttrar útboðsaðferðar hefur einnig haft áhrif á verð sumra þessara vara, einkum nautakjöts og unninnar kjötvöru.

Innflutt grænmeti hækkar talsvert meira en kjöt- og mjólkurvörur. Það skýrist annars vegar af gengisveikingu og hins vegar á því að innkaupsverð á grænmeti hefur hækkað vegna vandkvæða við tínslu, pökkun og flutninga vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki hafa heldur orðið hagstæðar tollabreytingar á grænmeti. Þvert á móti voru með breytingu á búvörulögum um áramót afnumdir svokallaðir skortkvótar; heimildir til að flytja inn búvörur á lægri eða engum tolli ef innlenda framleiðslu vantar á markað. Það hefur orðið til þess að komið hafa tímabil sem innflutt vara er flutt inn á fullum tolli þótt lítið eða ekkert sé til af innlendri vöru og hefur það haft áhrif til hækkunar á grænmetisverði, í þessu tilviki aðallega á gulrætur.

Niðurstöðurnar koma ekki á óvart
„Niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart. Neytendur njóta góðs af tollasamningnum við Evrópusambandið, sem hefur stuðlað að því að halda niðri verði á innfluttri matvöru þrátt fyrir mikla veikingu krónunnar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Breytt aðferð við útboð á tollkvótum gagnast neytendum jafnframt í flestum tilvikum. Þá er fagnaðarefni að sjá að aukið úrval af innfluttum búvörum hvetur innlenda framleiðendur líka til að gera betur. Í ljósi þessara niðurstaðna verður að skoða frumvarp landbúnaðarráðherra um að breyta útboðum á tollkvótum til fyrra horfs og kröfur hagsmunaaðila í landbúnaðinum um að segja upp tollasamningnum við ESB.“

Lesa meira

Félag atvinnurekenda

Aðför að samkeppni, verslun og neytendum

Birt

on

By

3. desember 2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 4. desember 2020. 

Undanfarnar vikur og mánuði hafa ráðherrar og stjórnarþingmenn verið beittir gríðarlegum þrýstingi af hagsmunaöflum í landbúnaðinum að gera breytingar á samkeppnisumhverfi matvörumarkaðarins, sem myndu leiða af sér hækkun verðs til neytenda og skerða hag verzlunarfyrirtækja, en hygla innlendum framleiðendum búvara.

Verðhækkanir á tímum atvinnuleysis
Í fyrsta lagi hafa afurðastöðvar kveinkað sér undan því að birgðir safnist upp hjá þeim vegna minnkandi eftirspurnar í heimsfaraldri kórónuveirunnar og lagt til að settar verði hömlur á innflutning til að hjálpa þeim að koma vörum sínum út. Undan þessum þrýstingi hefur Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra nú látið og lagt fram á Alþingi frumvarp um að hverfa tímabundið aftur til fyrra fyrirkomulags á útboði á tollkvótum fyrir búvörur.

Afleiðing þeirrar lagabreytingar er í stuttu máli sú að innflutningsfyrirtæki munu þurfa að greiða hærra verð fyrir heimildir til að flytja inn búvörur án tolla. Breytingin skerðir hag innflytjenda og leiðir til hærra matvöruverðs, ekki bara á innfluttum vörum heldur líka á innlendum búvörum sem hægt er selja dýrar af því að samkeppnin verður minni. Breytingin er lögð til með þeim rökum að nú sé erfitt hjá innlendum búvöruframleiðendum vegna heimsfaraldursins. Landbúnaðurinn er þannig eina greinin, sem stjórnvöld hyggjast styðja með því að leggja stein í götu samkeppni, í stað þess að vísa fyrirtækjunum á almenn úrræði á borð við styrki og lán.

Það má heita með miklum ólíkindum að á sama tíma og atvinnuleysi slær öll met og yfir 25.000 manns þiggja atvinnuleysisbætur, skuli stjórnvöld beita sér fyrir hækkun á matvöruverði. Ýmislegt bendir til að þetta frumvarp sé aðeins fyrsta skrefið í býsna vel skipulagðri aðför að samkeppni á matvörumarkaðnum.

Undanþága kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum
Í öðru lagi er mikill þrýstingur á að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp sem veiti kjötafurðastöðvum undanþágu frá samkeppnislögum þannig að þær megi sameinast og hafa með sér samstarf án afskipta samkeppnisyfirvalda. Þetta gerði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins að sinni tillögu í blaðagrein og fyllyrti að nýverið hefði ríkisstjórnin „lýst vilja sínum til að fara þá leið“ með orðalagi í yfirlýsingu sinni vegna endurskoðunarákvæðis lífskjarasamninganna, þar sem stjórnin segist ætla að „kanna sérstaklega hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu.“

Rök Sigurðar Inga fyrir undanþágunni eru að „litl­ar afurðastöðvar í kjöti meg[i] sín lít­ils í alþjóðlegri sam­keppni við mun stærri aðila – hvort sem er inn­an­lands eða á er­lend­um mörkuðum.“  Þetta er vinsæl bullröksemd, sem hægt er að heimfæra á flest fyrirtæki og atvinnugreinar á Íslandi. Ef smæð í alþjóðlegu samhengi er rök fyrir undanþágum frá samkeppnislögum, er alveg eins gott að nema þau bara úr gildi og fagna einokuninni.

Samkeppniseftirlitið hefur opinberlega lagzt eindregið gegn þessum hugmyndum og bent á að fengju afurðastöðvar heimild til sameiningar og samstarfs umfram það sem gildir í samkeppnislögum, myndi hinn aukni markaðsstyrkur fyrirtækjanna sem af því leiddi birtast bændum í lægra afurðaverði og neytendum í hærra verði. SE bendir m.a. á að bændur hafi að verulegu leyti tapað forræði á afurðastöðvunum og séu í veikri stöðu gagnvart þeim, sem sjáist t.d. á því að nýafstaðin sláturtíð hafi verið vel á veg komin þegar bændum var gefið upp verð á afurðum þeirra.

Samkeppniseftirlitið bendir líka á að samkeppnislög veiti heimild til samruna eða undanþágu vegna samstarfs fyrirtækja, sé það metið svo að hagræðing af því sé neytendum til hagsbóta. Engin ástæða sé til að búa samrunum og samstarfi kjötafurðastöðva og kjötvinnslna aðra umgjörð. Félag atvinnurekenda tekur undir þau sjónarmið.

Uppsögn tollasamnings við ESB
Þriðja atriðið, sem gríðarlegur þrýstingur er á, er uppsögn tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins, sem fært hefur neytendum miklar hagsbætur í formi lægra verðs og mun fjölbreyttara úrvals matvöru. Framsóknarflokkurinn hefur gert þessa hugmynd að sinni og legið er á hinum stjórnarflokkunum að spila með.

Sú falsröksemd hefur meðal annars verið færð fram fyrir uppsögn samningsins að forsendur hans séu brostnar vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu; tollkvótar íslenzkra útflytjenda búvara í samningnum hafi verið hugsaðir fyrir Bretlandsmarkað og muni nú ekki nýtast sem skyldi. Staðreyndin er sú að um áramót tekur að óbreyttu gildi bráðabirgðafríverzlunarsamningur Íslands og Bretlands, þar sem ríkin veita hvort öðru gagnkvæma tollkvóta; Bretar fá 48 tonna kvóta fyrir osta og unnar kjötvörur inn á íslenzkan matvörumarkað og Íslendingar fá yfir 1.000 tonna kvóta fyrir skyr og lambakjöt inn á Bretlandsmarkað, byggt á viðskiptum síðustu ára. Auk þess halda útflytjendur öllum kvótanum á ESB-markaðnum óskertum. Markaðsaðgangur fyrir íslenzkar búvörur batnar því með Brexit, ekki öfugt.

Samkeppniseftirlitið hefur lagzt eindregið gegn hugmyndum um uppsögn tollasamningsins og bent á að innflutningstollar hafi neikvæð áhrif á neytendur í formi hærra vöruverðs og minna úrvals.

Samstaða gegn atlögunni
Hagsmunaöfl í landbúnaðinum reyna nú að nýta annars vegar kórónuveirufaraldurinn og hins vegar Brexit til að vinda ofan af breytingum í átt til frjálsra viðskipta og virkrar samkeppni, sem hafa átt sér stað á síðustu árum og verið verzluninni og neytendum til hagsbóta. Það er full ástæða fyrir samtök verzlunar, neytenda og launþega að standa saman gegn þessari atlögu, þar sem frumvarp landbúnaðarráðherra um breytt kvótaútboð er því miður líklega aðeins fyrsta skrefið.

Lesa meira

Félag atvinnurekenda

Neyslu stýrt með sköttum?

Birt

on

By

2. desember 2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 2. desember 2020.

Sykurlausu drykkirnir í körfunni eiga að bera neyslustýringarskatt, en ekki dísætu mjólkurvörurnar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sakleysisleg málsgrein sem hljóðar svo: „Skoðuð verður beiting efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu.“ Nú er komið í ljós hvað þetta þýðir á mannamáli. Starfshópur á vegum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra leggur til að lagður verði skattur í formi vörugjalds á ýmsar matvörur þannig að þær hækki í verði um 20%.

Einhver heldur kannski að þarna sé um að ræða sykurskatt eins og hefur verið tekinn upp í nokkrum löndum, en þegar tillögurnar eru skoðaðar nánar, kemur ljós að svo er ekki. Jú, skatturinn á að leggjast á sykraða gos- og svaladrykki, en líka sykurlausa drykki með sætuefnum og sódavatn, þ.e. ef það inniheldur sítrónusýru. Það er rökstutt með því að slíkir drykkir geti verið óhollir fyrir tennurnar. Skatturinn er þá líka tannverndarskattur.

Samt á hann ekki að leggjast á náttúrulega ávaxtasafa, þrátt fyrir að Landlæknisembættið vari við óhóflegri neyzlu þeirra vegna mögulegra glerungsskemmda. Hann á heldur ekki að leggjast á dísætar mjólkurvörur. Í 100 ml af Coca Cola eru 10,6 grömm af sykri, en í jafnmiklu magni af engjaþykkni 13-16 grömm og kókómjólk 8,7 grömm. Hann á að leggjast á kex og sætabrauð, orku- og prótínstykki en ekki ýmsar aðrar sykraðar vörur, eins og til dæmis dísætt kakóduft til að búa til sykraða drykki. Þannig mætti áfram telja.

Starfshópurinn vill til viðbótar hækka virðisaukaskatt á „óhollum“ vörum eins og gosi en fella hann niður á grænmeti og ávöxtum. Afleiðingin yrði þrjú skattþrep virðisaukaskatts á matvöru, 0%, 11% og 24%. Þar að auki yrði lagt 20% vörugjald á sumar sykraðar vörur og sumar ósykraðar. Þetta yrði gífurlega flókið og ógegnsætt kerfi, sem myndi stórauka vinnu og kostnað jafnt verzlunarfyrirtækja og opinberra stofnana, sem ættu að sjá um álagningu skatta og eftirlit með henni. Tekin væri algjör u-beygja á vegferð undanfarinna ára í átt til einföldunar kerfis neyzluskatta og stefnan tekin djúpt inn í vörugjaldafrumskóginn á ný. Enda studdi fulltrúi fjármálaráðuneytisins í hópnum ekki tillöguna um þrjú skattþrep í virðisaukaskatti.

Félag atvinnurekenda hefur bent á að starfshópurinn virðist ekkert hafa hugsað út í tæknilega útfærslu tillagnanna. Þegar vörugjöldin voru við lýði, lögðust þau á eftir tollskrárnúmerum og mikil vinna og fyrirhöfn fyrirtækja og tollayfirvalda, með tilheyrandi kostnaði, fór í að finna út í hvaða tollskrárnúmer vara skyldi flokkast. Það gat skipt miklu máli, því að ekki voru til dæmis lögð sömu vörugjöld á kókómalt eftir því hvort átti að blanda það í kalda eða heita mjólk og eins vöru gjöldin mismunandi á brauðristum eftir því hvort brauðið ristaðist lárétt eða lóðrétt. Núverandi tollskrá er að mörgu leyti úrelt þrátt fyrir sín 9.000 númer og blasir við að enn þarf að flækja hana og bæta við tollskrárnúmerum gangi þessi áform eftir, til dæmis af því að enginn hefur haft hugmyndaflug til að ímynda sér að vara tæki mismunandi gjöld eftir því hvort hún inniheldur sítrónusýru eða ekki.

Tillögur hópsins eru vondar og það sem er enn verra; ef þær komast í framkvæmd er búið að búa til fordæmi fyrir fleiri neyzlustýringarsköttum. Enginn hörgull er á matvælum sem eru óholl ef þeirra er neytt í óhófi. Við getum þá búizt við koffínskatti á te, kaffi og aðra koffíndrykki, transfituskatti á snakk og franskar, fituskatti á smjör og hangikjöt og þannig má lengi halda áfram. Ef við fetum áfram þessa braut verður skattlagning á mat frumskógur sem enginn ratar um.

Væri kannski bara skynsamlegra að hafa skattkerfið einfalt en upplýsa og fræða fólk um hollustu matvara? Slíkt hefur til dæmis stuðlað að hröðum samdrætti í neyzlu á sykruðu gosi undanfarinn áratug, án neyzlustýringarskatts.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin