Connect with us

Heilsa

Ellefu ungir vísindamenn á Landspítala styrktir til klínískra rannsókna

Birt

þann

Ellefu ungum starfsmönnum Landspítala voru afhentir styrkir til klínískra rannsókna úr Vísindasjóði Landspítala miðvikudaginn 2. desember 2020 í Hringsal. Viðburðinum var streymt beint vegna COVID-19. Styrkirnir námu allt að 1,5 milljónum króna og gerðu ungu vísindamennirnir grein fyrir fjölbreyttum vísindaverkefnum sínum.

Vísindasjóður Landspítala hefur veitt styrki til ungra vísindamanna síðan árið 2011. Markmið styrkjanna er að efla klínískar rannsóknir á Landspítala og styðja við rannsóknarvirkni nýútskrifaðra starfsmanna spítalans. Inga Þórsdóttir, foreti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands flutti ávarp og Þórdís K. Þorsteinsdóttir, forstöðumaður rannsóknarstofu í bráðafræðum, dósent við Háskóla Íslands og styrkhafi sem ungur vísindamaður 2012, hélt erindi. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala og formaður Vísinpítaladasjóðs Lands ávarpaði fundinn og styrkþega. Fundarstjóri var Ingibjörg Gunnarsdóttir, deildarstjóri næringarstofu Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands.

Styrkhafar

Aron Hjalti Björnsson sérnámslæknir, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu.
Meðumsækjandi: Þorvarður Löve sérfræðilæknir, vísindadeild og prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: Áhrif sykurstera á sýkingalyfjanotkun sjúklinga með iktsýki fyrir og eftir meðferð með TNF hemlum
Aðrir meðumsækjendur: Björn Guðbjörnsson, sérfræðilæknir, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu og prófessor við Háskóla Íslands.

Ásdís Hrönn Sigurðardóttir kandídat, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu.
Meðumsækjandi: Viðar Örn Eðvarðsson yfirlæknir, kvenna- og barnaþjónustu og prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: Tengsl blóðþrýstings í æsku við blóðþrýsting og háþrýsting hjá ungum fullorðnum: 10 ára eftirfylgdarrannsókn
Aðrir samstarfsaðilar: Ólafur Skúli Indriðason sérfræðilæknir, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu, Þórdís Hrafnkelsdóttir sérfræðilæknir, hjarta- og æðaþjónustu og dósent við Háskóla Íslands og Sigurður Stephensen læknir, Háskólasjúkrahúsinu í Lundi, Svíþjóð.

Birta Bæringsdóttir kandídat, bráðaþjónustu.
Meðumsækjandi: Valtýr Thors sérfræðilæknir, kvenna- og barnaþjónustu.
Rannsókn: Útsetning fyrir sýklalyfjum snemma á ævinni og síðkomin áhrif á heilsu barna
Aðrir samstarfsaðilar: Ásgeir Haraldsson yfirlæknir, kvenna- og barnaþjónustu og prófessor við Háskóla Íslands og Birkir Hrafnkelsson, tölfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.

Eyrún Arna Kristinsdóttir sérnámslæknir, skurðstofum og gjörgæslu.
Meðumsækjandi: Martin Ingi Sigurðsson yfirlæknir, skurðstofum og gjörgæslu og prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: Barkaraufun á gjörgæsludeild; tíðni, ábendingar, tímasetning og tímalengd, fylgikvillar og langtímahorfur

Halla Ósk Ólafsdóttir sálfræðingur, geðþjónustu.
Meðumsækjandi: Engilbert Sigurðsson yfirlæknir, geðþjónustu og prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: Atferlisvirkjun við þunglyndi í geðhvörfum
Aðrir samstarfsaðilar: Brynja Björk Magnúsdóttir sálfræðingur, geðþjónustu og dósent við Háskólann í Reykjavík og dr. Kim Wright prófessor, University of Exeter.

Hannes Halldórsson sérnámslæknir, skurðlækningum.
Meðumsækjandi: Gunnar Auðólfsson yfirlæknir, skurðlækningum.
Rannsókn: Skarð í vör og góm á Íslandi 1991-2018

Helgi Kristinn Björnsson sérnámslæknir, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu.
Meðumsækjandi: Einar Stefán Björnsson yfirlæknir, skrifstofu meðferðarsviðs og prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: Áhættuþættir fyrir lifrarskaða af völdum TNF-alpha hemla
Aðrir samstarfsaðilar: Björn Guðbjörnsson sérfræðilæknir, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu og prófessor við Háskóla Íslands.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir sérnámslæknir, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu.
Meðumsækjandi: Helga Ágústa Sigurjónsdóttir sérfræðilæknir, skrifstofu meðferðarsviðs og klínískur prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: Frumkomið aldósterónheilkenni á Íslandi í 10 ár
Aðrir samstarfsaðilar: Bjarni Agnar Agnarsson sérfræðilæknir, rannsóknarþjónustu og prófessor við Háskóla Íslands og Guðbjörg Jónsdóttir sérfræðilæknir, University of Iowa Hospitals and Clinics.

Kristján Orri Víðisson sérnámslæknir, skurðstofum og gjörgæslu.
Meðumsækjandi: Tómas Guðbjartsson yfirlæknir, hjarta- og æðaþjónustu og prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: Áhættuþættir og útkomur sjúklinga eftir ósæðarlokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi
Aðrir samstarfsaðilar: Martin Ingi Sigurðsson yfirlæknir, skurðstofum og gjörgæslu og prófessor við Háskóla Íslands.

Telma Huld Ragnarsdóttir sérnámslæknir, skurðlækningum.
Meðumsækjandi: Ólafur Skúli Indriðason sérfræðilæknir, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu.
Rannsókn: Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku, framsýn tilfellamiðuð rannsókn.
Aðrir samstarfsaðilar: Vicente Sanchez-Brunete Ingelmo sérfræðilæknir, bráðaþjónustu og Runólfur Pálsson forstöðumaður, skrifstofu meðferðarsviðs og prófessor við Háskóla Íslands.

Vaka Kristín Sigurjónsdóttir sérfræðilæknir, kvenna- og barnaþjónustu.
Meðumsækjandi: Runólfur Pálsson forstöðumaður, skrifstofu meðferðarsviðs og prófessor við Háskóla Íslands.
Rannsókn: High Intra-patient Variability of Tacrolimus in Pediatric Renal Transplant Recipients is Associated with Worse Graft Outcomes
Aðrir samstarfsaðilar: Abanti Chaudhuri sérfræðilæknir, Paul Grimm sérfræðilæknir og Kim Piburn sérfræðilæknir, Háskólanum í Stanford.

Heilsa

Dag- og göngudeild auglækninga lokuð í viku frá 18. janúar vegna flutnings

Birt

þann

Eftir

Dag- og göngudeild augnlækninga á Landspítala, við Þorfinnsgötu, verður lokuð frá mánudegi 18. janúar til mánudags 25. janúar 2021 vegna flutninga. Að báðum dögum meðtöldum.

Verið er að breyta Eiríksstöðum, þar sem áður voru skrifstofur Landspítala, í göngudeildahús. Þangað flyst dag- og göngudeild auglækninga og verður deildin opnuð á nýja staðnum þriðjudaginn 26. janúar.

Eiríksstaðir eru við Eiríksgötu, rétt neðan við Hallgrímskirkju, skáhalt þar sem Blóðbankinn var lengi.

Lesa meira

Heilsa

Forstjórapistill: Fumlaust viðbragð vegna greindra Covid-19 tilfella og réttlát forgangsröðun í bólusetningu

Birt

þann

Eftir

Kæra samstarfsfólk!

Eins og sóttvarnalæknir segir þá erum við vonandi komin í síðasta kafla COVID-19 farsóttarinnar, nú þegar farið er að bólusetja þjóðir heims. Áskoranirnar eru þó ærnar áfram og mikilvægt að halda vöku sinni. Það sannaðist í tvígang í vikunni þegar smit greindust á hjartadeild annars vegar og blóð- og krabbameinslækningadeild hins vegar. Í fyrra tilvikinu reyndist um eldra smit að ræða sem greindist við útskrift sjúklings en í hinu síðara fannst fyrir árverkni starfsfólks virkt smit hjá sjúklingi sem lagst hafði inn deginum áður, eftir að hafa fengið þjónustu á annarri heilbrigðisstofnun. Á skipulagðan og fumlausan hátt var strax gripið til víðtæks viðbragðs og deildunum samstundis lokað fyrir nýjum innlögnum og aðrir sjúklingar og starfsfólk skimað fyrir Covid-19. Snör vinnubrögð þrautþjálfaðra starfsmanna spítalans og öflugar sýkingarvarnir þeirra fyrir og eftir þessa alvarlegu atburði skiptu sköpum. Frekari smit hafa ekki greinst en viðbrögðin voru hárrétt og viðeigandi. Landspítali sinnir verkefnum af þessu tagi allan sólarhringinn, allan ársins hring og hér gengur fólk fumlaust og yfirvegað til verka. Það hefur margoft komið í ljós í heimsfaraldri Covid-19 að samstaða starfsfólks Landspítala nær jafnan hámarki andspænis erfiðustu áskorununum. Ég hygg að sömu sögu megi segja af öðrum heilbrigðisstofnunum um víða veröld. Þetta eru ótrúlegir vinnustaðir og einstakur heiður að tilheyra þeim.

Á þessum tímum þegar bóluefni er farið að berast til landsins er mikilvægt að við sýnum yfirvegun og stillingu. Sóttvarnarlæknir hefur, að vel athuguðu máli, sett fram forgangsröðun í reglugerð. Í reglugerðinni er ekki forgangsraðað þannig að tryggt sé að tiltekin starfsemi haldi velli, svo sem innviðir á borð við raforkuver eða einstaka heilbrigðisstofnun, heldur er horft til þeirra sem eru í mestri áhættu. Að leiðarljósi eru höfð þau grunngildi að láta okkar viðkvæmustu hópa ganga fyrir og þá sérstaklega aldraða. Fólk í almannaþjónustu (sérstaklega heilbrigðisþjónustu) sem metið er í hááhættu er einnig í forgangi. Aðrir koma síðar. Þetta er skynsamleg forgangsröðun og réttlát og það er mikilvægt að við treystum mati heilbrigðisyfirvalda í þessu efni.

Ég og fulltrúar farsóttarnefndar spítalans höfum á undanförnum vikum fengið fjölmargar rökstuddar óskir um að ákveðnir hópar innan spítalans þurfi að ganga fyrir öðrum í bólusetningu. Þótt ég hafi fullan skilning á því að stjórnendur beri hag starfsfólks síns sér fyrir brjósti og vilji verja sem best þá þjónustu sem veitt er og þótt ég skilji vel að fólk óttist það að sýkjast þá verðum við öll að virða forgangsröðun sem sett hefur verið fram. Eftir því sem bóluefni berst til landsins þá verða landsmenn bólusettir og þar er fylgt þeirri forgangsröðun sem liggur fyrir. Þar gildir sama fyrir Jón og séra Jón og ég vil sérstaklega taka fram, vegna sögusagna um annað, að forstjóri og framkvæmdastjórn eða aðrir stjórnendur spítalans hafa ekki verið bólusettir fyrir COVID-19. Undantekningar frá þessu eru auðvitað þær ef fólk sinnir einnig beinum sjúklingasamskiptum í framlínu og tilheyrir þannig þegar skilgreindum forgangshópum. Við hin bíðum róleg þar til að okkur kemur, í þeirri vissu að framar okkur í röðinni er sannarlega fólk sem þarf meira á bólusetningu að halda.

Góða helgi og baráttukveðjur öll!

Páll Matthíasson

Lesa meira

Heilsa

Blóð- og krabbameinslækningadeild opnuð á ný – hvorki Covid-19 smit hjá sjúklingum né starfsfólki

Birt

þann

Eftir

Niðurstöður úr Covid-19 skimun sjúklinga og starfsfólks blóð- og krabbameinslækningadeildar 11EG á Landspítala liggja fyrir og eru allar neikvæðar. Ekki er um útbreitt smit á deildinni að ræða. Af því tilefni hefur farsóttanefnd spítalans ákveðið að opna deildina fyrir innlögnum á nýjan leik og er starfsemi hennar með venjubundnum hætti.

Nýinnlagður sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala 11EG fékk jákvætt svar við Covid-19 skimun um kl. 20:00 í gærkvöldi, miðvikudaginn 13. janúar 2021. Þegar í stað var gripið til ítrustu sóttvarnaaðgerða og deildinni lokað fyrir innlögnum. Um 30 sjúklingar og 20 starfsmenn voru síðan skimaðir snemma í morgun, fimmtudaginn 14. janúar.

Enn liggur ekki fyrir hvernig sjúklingurinn smitaðist en þó þykir ljóst að hann hafi verið með smit þegar við innlögn.  Rakning stendur ennþá yfir. Sjúklingurinn var fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala A7 í Fossvogi strax í gærkvöldi og settur í einangrun, vegna veikinda sinna.

Smit, hvort heldur sjúklinga eða starfsfólks á deildum, eru alvarlegir atburðir í starfsemi Landspítala og viðbragðið alltaf umfangsmikið og útbreitt. Það viðbragð, öflugar sóttvarnir og umfangsmiklar öryggisráðstafanir til að vernda sjúklinga og starfsfólk hafa nú leitt af sér þessa góðu niðurstöðu.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin