Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði mikilvægi hertra markmiða í loftslagsmálum að umtalsefni á fundi umhverfisráðherra Evrópusambandsríkja og ríkja evrópska efnahagssvæðisins (ES) í dag. Ráðherra tók þátt í fundinum, sem nú er haldinn í Berlín í Þýskalandi, í gegnum fjarfundarbúnað.

Í umræðum ráðherranna um líffræðilegan fjölbreytileika í samhengi við yfirstandandi heimsfaraldur kórónuveiru sagði Guðmundur Ingi nauðsynlegt að herða aðgerðir sem vernda og efla líffræðilegan fjölbreytileika, það væri ekki valkostur að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Með auknum umsvifum mannsins hefur víða þrengt að búsvæðum margra tegunda, dregið úr fjölbreytileika þeirra og vistkerfi veikst. Það eykur hættuna á að smitsjúkdómar á borð við COVID-19 berist úr villtum dýrum í menn. Í því ljósi sagði Guðmundur Ingi mikilvægt að fjölga og stækka verndarsvæði, endurheimta vistkerfi og að leyfa vísindum og þekkingu að leiða veginn.

Guðmundur Ingi talaði einnig um mikilvægi þess að miðla staðreyndum og vísindalegri þekkingu. Stóraukin þekking almennings á loftslagstengdum málefnum hafi skipt sköpum undanfarin tvö ár, en það sama þurfi að gerast þegar kemur að lífríkinu, þeim vistkerfum sem við byggjum tilvist okkar á og líffræðilegum fjölbreytileika.

Á fundinum var einnig rætt um Parísarsamninginn og mikilvægi aukins metnaðar í loftslagsmálum. Vakti Guðmundur Ingi athygli á að samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum verði gengið lengra í að draga úr losun fyrir árið 2030 en Parísarsamkomulagið og samkomulag Íslands og Noregs við Evrópusambandið kveður á um. Til að mæta þeim markmiðum hafi auknu fjármagni verið veitt í loftslagstengd verkefni frá árinu 2018, þar með talin aukning í tengslum við fjárfestingaverkefni ríkisstjórnarinnar. „Við erum meðal annars þegar farin að sjá jákvæð áhrif af notkun endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum, sagði Guðmundur Ingi. „Ísland styður aukinn metnað Evrópuríkja og alþjóðasamfélagsins við endurskoðun landsmarkmiða Parísarsáttmálans og er tilbúið að auka metnað sinn.“