Kæra samstarfsfólk!

Landspítali tekur sem fyrr virkan þátt í COVID-19 viðbragði stjórnvalda. Nú starfa tugir starfsmanna okkar við greiningar skimunarsýna í húsnæði og með tækjabúnaði sem Íslensk erfðagreining hefur lagt til meðan á uppbyggingu getu spítalans sjálfs stendur. Eins hefur COVID-19 göngudeildin tekið á móti einstaklingum sem greinst hafa með Covid-19 og sinnt þjónustu við þá.

Enda þótt mesti krafturinn sé úr faraldrinum sjálfum í bili megum við alls ekki sofna á verðinum, eins og nýjustu vendingar í málinu árétta. Af því tilefni hefur sýkla- og veirufræðideildin okkar í Ármúla keyrt upp viðbragð sitt til að mæta þeirri þörf sem nú myndast. Ég vil þakka okkar góða starfsfólki snör viðbrögð og farsóttanefnd Landspítala, sem stýrir viðbúnaði spítalans, hefur beint því til heimsóknargesta sem hafa komið erlendis frá og eiga bókaðan tíma á dag- og göngudeildum innan 14 daga frá heimkomu að hafa samband við viðkomandi deild svo unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir. Það er einnig afar mikilvægt að allir sem erindi eiga á Landspítala virði til hins ítrasta allar leiðbeiningar og reglur sem hér gilda. Þannig verndum við mikilvæga starfsemi og viðkvæma hópa. Farsóttanefndin tók svo þá ákvörðun í dag að starfsfólk og nemendur sem koma til náms og/eða starfa á Landspítala frá svæðum utan Schengen komi ekki til vinnu fyrr en að lokinni 14 daga sóttkví.

Í síðustu viku tóku Eygló Ingadóttir, formaður jafnréttisnefndar Landspítala og Hildur Sigurðardóttir, lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, við styrk frá Jafnréttissjóði. Þarna var um myndarlegan styrk að ræða, 4,7 milljónir króna enda verkefnið verðugt; „Strákar og hjúkrun; kynning fyrir stráka í 9. bekk grunnskóla. Eygló hefur verið öflugur formaður jafnréttisnefndar og oft beitt sér fyrir spennandi og mikilvægum hlutum á spítalanum. Hér er um sérstaklega metnaðarfullt verkefni að ræða enda markmiðið að vekja áhuga stráka á störfum hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ljósmæðra. Staðalímyndir um þessi störf eru afar kvenlægar en segja má að hugmyndin eigi rætur í verkefni á vegum Háskólans í Reykjavík sem hvetur stúlkur til náms í tæknigreinum með yfirskriftinni „Stelpur og tækni“. Ég bind miklar vonir við þetta verkefni því enda þótt hjúkrunarstörf séu ekki á allra færi þá hefur kyn ekkert með það að gera. Starfið er grjóthart og gefandi og þeir sem það leggja fyrir sig eru eftirsóknarverður starfskraftur um allan heim.

Landspítali hefur síðustu ár haft umhverfismál í brennidepli í allri starfsemi og ákvarðanatöku. Að vori er venjan að kynna grænt bókhald spítalans. Það er ánægjulegt að gera það hér með þótt komið sé sumar. Á síðasta ári voru stór skref stigin hjá okkur í þessa átt sem munu hafa veruleg áhrif til framtíðar á kolefnisspor spítalans. Við settum okkur loftlagsmarkmið 2016 og það er sérstaklega ánægjulegt að geta sagt að þau eru að nást! Með fjölbreyttum aðgerðum er því útlit fyrir að spítalinn nái að draga úr losun CO2 um 40% en það jafnast á við árlegan akstur 450 bíla. Meðal helstu aðgerða á síðasta ári var að við tókum í notkun glaðloftseyðingarbúnað sem dregur úr kolefnissporinu okkar um 20% og við gátum loks hætt notkun olíuketils og dró það úr kolefnissporinu um 5% Það er ekki hvað síst að þakka starfsfólki sjálfu, með öflugan umhverfisstjóra Landspítala, Huldu Steingrímsdóttur, í broddi fylkingar, að árangur hefur náðst. Að sama skapi er með þetta eins og annað að ekki má sofna á verðinum og við verðum áfram að vera vakandi fyrir öllum tækifærum til að gera betur í umhverfismálum. Það skiptir okkur öll máli til framtíðar.

Góða helgi!

Páll Matthíasson