Kæra samstarfsfólk!

Þessa vikuna hafa fjölmörg ykkar sótt starfsmannafundi víða um spítalann og aðrir fylgst með upptökum frá einum þeirra, í Hringsal á þriðjudaginn var. Þetta hafa verið mjög góðir fundir að mínu mati, ég hef náð að fara yfir fjárhagsstöðuna, hagræðingaraðgerðir en einnig skipulagsbreytingar, sýn okkar til framtíðar – og síðast en ekki síst hið frábæra starf sem á spítalanum er unnið alla daga.

Það er eðlilegt að okkur þyki stundum að okkur vegið þegar aðilar fjær starfseminni virðast frekar sjá kostnað við þjónustuna sem við veitum heldur en hinn frábæra árangur sem hér næst á hverjum degi. Ágæt mynd til að hafa í huga, fyrir okkur sem starfsfólk spítalans en einnig sem skattgreiðendur, er sú sem hér fylgir  um lækkaða dánartíðni helstu dánarmeina okkar Íslendinga, þar sem við spilum stærsta hlutverkið til árangurs. Fyrir þetta vil ég þakka ykkur öllum.

Eins og ykkur – og þeim sem fylgjast með opinberri umræðu um Landspítala – er kunnugt hófust aðhaldsaðgerðir á spítalanum í haust. Fyrir lá frá byrjun að í ljósi umfangsmikillar aðhaldskröfu færi ekkert í rekstrinum varhluta af þessum aðgerðum. Á stofnun eins og Landspítala þar sem launakostnaður er ríflega 70% rekstrarkostnaðar er augljóst að ekki verður komist hjá því að áhrifa gæti í launum starfsmanna enda þótt ströng aðhaldskrafa sé á öðrum rekstrarliðum. Upphaf aðgerðanna hélst í hendur við fækkun framkvæmdastjóra og lækkun launa þeirra og forstjóra um 5% eins og ég fjallaði um hér áður og ýmsir fjölmiðlar fluttu fréttir af. Þeim skipulagsbreytingum sem kynntar hafa verið hafa sömuleiðis fylgt sársaukafullar uppsagnir starfsfólks og tilflutningur í starfi. Einnig þurfti að grípa til þess óyndisúrræðis að fella niður hið vel heppnaða Hekluverkefni og vaktaálagsauka hjá hjúkrunarfræðingum enda hefur spítalinn ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir greiðslum umfram kjarasamninga. Hins vegar leyfum við okkur að binda vonir við að horft verði til þessara leiða í yfirstandandi kjarasamningum. Endurskoðun fastrar yfirvinnu á spítalanum stendur yfir og nýlega var niðurstaða hennar kynnt hvað lækna varðar. Á síðasta ári nam föst yfirvinna lækna tæpum hálfum milljarði og við endurskoðunina nú var leitast við að samræma kjörin og þó að yfirleitt hafi endurskoðunin leitt af sér einhverja kjaraskerðingu var um hækkun að ræða í nokkrum tilvikum. Enda þótt kjaraskerðing þeirra sem aðgerðin nær til sé að meðaltali hlutfallslega lægri en margra annarra stétta sem tekið hafa á sig skerðingu er engum ánægja að verða fyrir slíku. Því hefur það verið gott að skynja almennan skilning á þessum aðgerðum meðal lækna, eins og annarra, þó að vissulega séu þar undantekningar á.

Það er gaman að fagna góðum árangri og það var svo sannarlega gert í Háskóla Íslands 1. desember síðastliðinn þegar hátíð brautskráðra doktora fór þar fram. Hundrað ár eru nú liðin frá fyrstu doktorsvörninni við HÍ og það var mér því sérstök ánægja að taka þátt í hátíð með þeim 95 doktorum sem útskrifuðust síðasta árið, sérstaklega auðvitað þeim sem útskrifuðust af heilbrigðisvísindasviði en það var ríflega þriðjungur hópsins. Flestir þeirra, sennilega allir, auk nokkurra nýdoktora sem útskrifuðust af öðrum sviðum Háskólans hafa átt samstarf við okkur á Landspítala og ég vil þakka þeim það samstarf um leið og ég óska þeim heilla.

Góða helgi!

Páll Matthíasson

Forstjórapistill: Starfsmannafundir og aðhaldsaðgerðir
Forstjórapistill: Starfsmannafundir og aðhaldsaðgerðir