Kæra samstarfsfólk!

Mig langar að þakka ykkur mikil og jákvæð viðbrögð við forstjórapistlinum 25. nóvember, langhund um fjármál Landspítala sem alltaf eru í deiglunni. Viðbrögðin sýndu skýrt að fáum stendur á sama um verkefni spítalans og fjármögnun. Það kom líka skýrt fram í viðbrögðum fólks að mörgum finnst orðræðan undanfarið ósanngjörn og verið að hengja bakara fyrir smið þegar ýjað er að óráðssíu og lausatökum. Augljóst var að starfsmenn kannast ekki við slíkt enda gengur hér hver og einn til verka með það að markmiði að gera sitt allra besta til að Landspítali þjóni sínu hlutverki gagnvart sjúklingum og það á hagkvæman og skilvirkan hátt.

Það var sannarlega gleðidagur síðastliðinn föstudag þegar tveir fyrstu klínísku lyfjafræðingarnir útskrifuðust úr námi sínu. Það eru fjögur ár síðan þessi brýna vegferð hófst í samstarfi við Háskóla Íslands. Erlendur samstarfsaðili okkar og faglegur bakhjarl er University College London sem er í fremstu röð á þessu sviði og þannig eru gæði námsins tryggð, m.a. með viðurkenningu Royal Pharmaceutical Society. Markmið klínískrar lyfjafræði er að stuðla að og efla skilvirka og skynsamlega notkun lyfja í heilbrigðiskerfinu og sem þáttur í öryggisvegferð Landspítala er hlutverk klínískra lyfjafræðinga ómetanlegt. Aukaverkanir lyfja eru algeng orsök sjúkrahúsinnlagnar, geta valdið heilsutjóni og miklum kostnaði fyrir samfélagið. Rannsóknir hafa sýnt að oft hefði mátt draga úr eða koma í veg lyfjaaukaverkanir með vandaðri lyfjafræðilegri yfirferð. Innilega til hamingju allir en auðvitað sérstaklega þær Helga Kristinsdóttir og María Jóhannsdóttir sem við fögnuðum í síðustu viku.

Á þriðjudaginn í næstu viku er Dagur vinnuverndar á Landspítala og þá er áhugaverð dagskrá í Hringsal. Ég vil hvetja ykkur til að sækja þessa dagskrá ef þið hafið tök á en aðaláherslan að þessu sinni er á vinnuskilyrði og heilsu. Aðalfyrirlesari er dr. Ingibjörg Jónsdóttir en hún er prófessor í „Stressmedicin“ við Háskólann í Gautaborg og forstöðumaður fyrir Institutet för stressmedicin við sama skóla. Ingibjörg hefur lengi stundað rannsóknir á streitu, orsökum hennar, afleiðingum og úrræðum. Hún er vinsæll alþjóðlegur fyrirlesari og hefur komið til Íslands en ekki haldið almennan fyrirlestur hjá okkur fyrr. Hér er því gríðargott tækifæri til að kynna sér þetta mikilvæga efni.

Góða helgi!

Páll Matthíasson