Connect with us

Heilsa

Forstjórapistill: Vísindastarfið, farsóttin og umhverfismálin

Birt

þann

Kæra samstarfsfólk!

Öflugt vísindastarf er háskólasjúkrahúsi eins og Landspítala súrefni inn í framtíðina og vísindastarf er ein meginstoða starfseminnar. Á þetta verður seint lögð of mikil áhersla og svo sannarlega stendur vilji spítalans til að efla það starf enn frekar þótt þrengingar í rekstrinum kunni að takmarka getuna. Í vikunni voru 11 ungum starfsmönnum Landspítala afhentir styrkir til klínískra rannsókna úr Vísindasjóði Landspítala. Þetta er alltaf ánægjuleg athöfn enda afar mikilvægt að ungt fólk sjái framtíð í vísindastarfi. Nýlega var einnig haldin metnaðarfull uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala. COVID-19 hefur verið tilefni til lærdóms hér á Landspítala, hvort heldur við horfum til reynslu af umönnun COVID-sjúkra eða til grunns að þekkingarþróun í vísindum eins og glöggt má sjá af dagskrá hátíðarinnar. Meðal framlaga þar var kynning á rannsókn Elíasar Eyþórssonar og samstarfsmanna hér á Landspítala á tíðni og þróun einkenna meðal fólks sem greindist með COVID-19 í fyrstu bylgju sjúkdómsins. Rannsóknin birtist í British Medical Journal í vikunni og er enn eitt dæmið um mikilvægi vísinda á Landspítala.

COVID-19 farsóttin er svo sannarlega ekki búin. Framundan eru krefjandi vikur og mánuðir. Okkur er öllum umhugað um öryggi sjúklinga, fjölskyldna, vina og okkar sjálfra og við leggjum okkur fram um að vanda umgengni alls staðar, hvar sem við komum, með sóttvarnir í forgrunni. Þó er það þannig að þessi smitandi veira leynist um samfélagið allt og jafnvel þeir sem passa sig mest og best smitast. Við eigum auðvitað öll einkalíf og sinnum öðru dags daglega en bara vinnunni, sem betur fer. En við verðum að fara varlega, sérstaklega nú á næstu vikum þegar búast má við meiri umgengni manna á milli. Farsóttanefnd Landspítala er vakin og sofin yfir velferð okkar allra í þessum faraldri og hefur tekið saman gátlista sem gott er fyrir stjórnendur og starfsmenn að hafa í handraðanum nú þegar við stígum skrefin varlega áfram. Í raun er þetta ekki svo flókið í sjálfu sér, eins og Helga Rósa Másdóttir, deildarstjóri bráðamóttökunnar í Fossvogi fer svo ákveðið og vel yfir í myndskeiði frá Almannavörnum. 

Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku fékk Landspítali loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar á dögunum. Það er ekki síður ánægjulegt að nú 1. desember fékk Landspítali viðurkenningu samtakanna „Health Care Without Harm“ en þar fengum við silfurviðurkenningu fyrir að vera leiðandi í loftslagsmálum. Þó vissulega sé gott silfur gulli betra þá var ánægjulegt að fá sömuleiðis gullviðurkenningu samtakanna fyrir starf okkar við að minnka losun koltvíoxíðs og notkun endurnýtanlegrar orku. Ég má af þessu tilefni til með að segja ykkur frá viðurkenningu sem við höfum fengið frá Umhverfisstofnun vegna innleiðingar grænna skrefa í ríkisrekstri. Sjá myndskeiðið sem fylgir. Græn skref í ríkisrekstri er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsfólks. Það viljum við svo sannarlega.

Góða helgi, kæra samstarfsfólk!

Páll Matthíasson


Heilsa

Dag- og göngudeild auglækninga lokuð í viku frá 18. janúar vegna flutnings

Birt

þann

Eftir

Dag- og göngudeild augnlækninga á Landspítala, við Þorfinnsgötu, verður lokuð frá mánudegi 18. janúar til mánudags 25. janúar 2021 vegna flutninga. Að báðum dögum meðtöldum.

Verið er að breyta Eiríksstöðum, þar sem áður voru skrifstofur Landspítala, í göngudeildahús. Þangað flyst dag- og göngudeild auglækninga og verður deildin opnuð á nýja staðnum þriðjudaginn 26. janúar.

Eiríksstaðir eru við Eiríksgötu, rétt neðan við Hallgrímskirkju, skáhalt þar sem Blóðbankinn var lengi.

Lesa meira

Heilsa

Forstjórapistill: Fumlaust viðbragð vegna greindra Covid-19 tilfella og réttlát forgangsröðun í bólusetningu

Birt

þann

Eftir

Kæra samstarfsfólk!

Eins og sóttvarnalæknir segir þá erum við vonandi komin í síðasta kafla COVID-19 farsóttarinnar, nú þegar farið er að bólusetja þjóðir heims. Áskoranirnar eru þó ærnar áfram og mikilvægt að halda vöku sinni. Það sannaðist í tvígang í vikunni þegar smit greindust á hjartadeild annars vegar og blóð- og krabbameinslækningadeild hins vegar. Í fyrra tilvikinu reyndist um eldra smit að ræða sem greindist við útskrift sjúklings en í hinu síðara fannst fyrir árverkni starfsfólks virkt smit hjá sjúklingi sem lagst hafði inn deginum áður, eftir að hafa fengið þjónustu á annarri heilbrigðisstofnun. Á skipulagðan og fumlausan hátt var strax gripið til víðtæks viðbragðs og deildunum samstundis lokað fyrir nýjum innlögnum og aðrir sjúklingar og starfsfólk skimað fyrir Covid-19. Snör vinnubrögð þrautþjálfaðra starfsmanna spítalans og öflugar sýkingarvarnir þeirra fyrir og eftir þessa alvarlegu atburði skiptu sköpum. Frekari smit hafa ekki greinst en viðbrögðin voru hárrétt og viðeigandi. Landspítali sinnir verkefnum af þessu tagi allan sólarhringinn, allan ársins hring og hér gengur fólk fumlaust og yfirvegað til verka. Það hefur margoft komið í ljós í heimsfaraldri Covid-19 að samstaða starfsfólks Landspítala nær jafnan hámarki andspænis erfiðustu áskorununum. Ég hygg að sömu sögu megi segja af öðrum heilbrigðisstofnunum um víða veröld. Þetta eru ótrúlegir vinnustaðir og einstakur heiður að tilheyra þeim.

Á þessum tímum þegar bóluefni er farið að berast til landsins er mikilvægt að við sýnum yfirvegun og stillingu. Sóttvarnarlæknir hefur, að vel athuguðu máli, sett fram forgangsröðun í reglugerð. Í reglugerðinni er ekki forgangsraðað þannig að tryggt sé að tiltekin starfsemi haldi velli, svo sem innviðir á borð við raforkuver eða einstaka heilbrigðisstofnun, heldur er horft til þeirra sem eru í mestri áhættu. Að leiðarljósi eru höfð þau grunngildi að láta okkar viðkvæmustu hópa ganga fyrir og þá sérstaklega aldraða. Fólk í almannaþjónustu (sérstaklega heilbrigðisþjónustu) sem metið er í hááhættu er einnig í forgangi. Aðrir koma síðar. Þetta er skynsamleg forgangsröðun og réttlát og það er mikilvægt að við treystum mati heilbrigðisyfirvalda í þessu efni.

Ég og fulltrúar farsóttarnefndar spítalans höfum á undanförnum vikum fengið fjölmargar rökstuddar óskir um að ákveðnir hópar innan spítalans þurfi að ganga fyrir öðrum í bólusetningu. Þótt ég hafi fullan skilning á því að stjórnendur beri hag starfsfólks síns sér fyrir brjósti og vilji verja sem best þá þjónustu sem veitt er og þótt ég skilji vel að fólk óttist það að sýkjast þá verðum við öll að virða forgangsröðun sem sett hefur verið fram. Eftir því sem bóluefni berst til landsins þá verða landsmenn bólusettir og þar er fylgt þeirri forgangsröðun sem liggur fyrir. Þar gildir sama fyrir Jón og séra Jón og ég vil sérstaklega taka fram, vegna sögusagna um annað, að forstjóri og framkvæmdastjórn eða aðrir stjórnendur spítalans hafa ekki verið bólusettir fyrir COVID-19. Undantekningar frá þessu eru auðvitað þær ef fólk sinnir einnig beinum sjúklingasamskiptum í framlínu og tilheyrir þannig þegar skilgreindum forgangshópum. Við hin bíðum róleg þar til að okkur kemur, í þeirri vissu að framar okkur í röðinni er sannarlega fólk sem þarf meira á bólusetningu að halda.

Góða helgi og baráttukveðjur öll!

Páll Matthíasson

Lesa meira

Heilsa

Blóð- og krabbameinslækningadeild opnuð á ný – hvorki Covid-19 smit hjá sjúklingum né starfsfólki

Birt

þann

Eftir

Niðurstöður úr Covid-19 skimun sjúklinga og starfsfólks blóð- og krabbameinslækningadeildar 11EG á Landspítala liggja fyrir og eru allar neikvæðar. Ekki er um útbreitt smit á deildinni að ræða. Af því tilefni hefur farsóttanefnd spítalans ákveðið að opna deildina fyrir innlögnum á nýjan leik og er starfsemi hennar með venjubundnum hætti.

Nýinnlagður sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala 11EG fékk jákvætt svar við Covid-19 skimun um kl. 20:00 í gærkvöldi, miðvikudaginn 13. janúar 2021. Þegar í stað var gripið til ítrustu sóttvarnaaðgerða og deildinni lokað fyrir innlögnum. Um 30 sjúklingar og 20 starfsmenn voru síðan skimaðir snemma í morgun, fimmtudaginn 14. janúar.

Enn liggur ekki fyrir hvernig sjúklingurinn smitaðist en þó þykir ljóst að hann hafi verið með smit þegar við innlögn.  Rakning stendur ennþá yfir. Sjúklingurinn var fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala A7 í Fossvogi strax í gærkvöldi og settur í einangrun, vegna veikinda sinna.

Smit, hvort heldur sjúklinga eða starfsfólks á deildum, eru alvarlegir atburðir í starfsemi Landspítala og viðbragðið alltaf umfangsmikið og útbreitt. Það viðbragð, öflugar sóttvarnir og umfangsmiklar öryggisráðstafanir til að vernda sjúklinga og starfsfólk hafa nú leitt af sér þessa góðu niðurstöðu.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin