Gert er ráð fyrir aftakaveðri á morgun, föstudaginn 14. febrúar, á höfuðborgarsvæðinu og búist er við truflunum á reglulegri starfsemi Landspítala. Á deildum með sólarhringsstarfsemi er mælst til að starfsfólk sem eiga morgunvakt og sem tök hefur á, mæti til vinnu kl. 05 og leysi þá af næturvaktastarfsfólk eftir atvikum. Þetta verður framkvæmt í samráði við deildarstjóra og forstöðumenn. Gert er ráð fyrir að þeir sem ekki þurfa nauðsynlega að koma til starfa í fyrramálið sinni störfum sínum heima og/eða bíði eftir að veður lægi.

Sjúklingar sem eiga bókaða tíma á dag- og göngudeildum Landspítala eru beðnir um að bíða þar til veðri slotar og fara að fyrirmælum almannavarna. Bókaðir tímar verða felldir niður á meðan óveðrið stendur yfir. Hægt er að hafa samband við Landspítala í síma 543 1000 eða í netspjalli á vef spítalans, og fá þar nánari upplýsingar. 

Þess má geta að ekki verður sendur út morgunmatur frá eldhúsi Landspítala í fyrramálið, föstudaginn 14. febrúar, vegna veðurs. Deildir þurfa því að nýta þann mat sem til er á deildum og í húsum. Unnið var að því fimmtudaginn 13. febrúar að koma aukasendingum á deildir, eins og unnt er. Þá má jafnframt gera ráð fyrir seinkun á hádegismat.


Fylgist með frekari tilkynningum á miðlum Landspítala og á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.