Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala
31. júlí 2020

Landspítali er á hættustigi vegna faraldurs Covid-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega.
Alls eru 50 einstaklingar í eftirliti á göngudeild Covid-19 og einn einstaklingur liggur á legudeild vegna Covid-19.

Vakin er athygli á neðangreindum reglum sem tekið hafa gildi á Landspítala og sérstaklega því að almennt gildir að starfsmenn, gestir og sjúklingar sem leita á spítalann skuli bera skurðstofugrímu nema unnt sé að tryggja tveggja metra fjarlægð.

1. Skurðstofugríma og 2 metra reglan

a. Sjúklingar, gestir og starfsfólk skulu fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis um 2 metra fjarlægð eins og hægt er eða nota skurðstofugrímu að öðrum kosti.
b. Sjúklingar sem leita þjónustu Landspítala, gestir sem koma í heimsókn til inniliggjandi sjúklinga og starfsmenn Landspítala skulu vera með skurðstofugrímu innan spítalans ef ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð.
c. Ef skurðstofugríma er tekin niður, t.d. þegar starfsmenn matast, skal tryggja 2 metra fjarlægð.
d. Skurðstofugrímur eru pantaðar frá birgðastöð í gegnum Vefverslun.
e. Tryggja þarf að nægilegt magn af ruslafötum séu við útganga og að þeir séu tæmdir reglulega.
f. Við innganga verði nægilegur fjöldi af skurðstofugrímum auk leiðbeininga um notkun þeirra.

2. Heimsóknartími er 2 klst. á dag, kl. 16:30-18:30. Ef annar tími hentar betur geta deildir breytt því. Miðað er við að einungis einn gestur komi til sjúklings í senn (nema þörf sé á fylgdarmanni) og sé með skurðstofugrímu meðan hann er innan spítalans. Stjórnendur deilda hafa svigrúm og umboð til að takmarka heimsóknir enn frekar eða veita undanþágur frá takmörkun heimsókna.

3. Snertiskjáir og gjaldkerar

a. Lagt er til að snertiskjám verði lokað.
b. Móttökuritarar verði með skurðstofugrímu við vinnu sína ef ekki er hægt að virða tveggja metra fjarlægðarmörk.
c. Hvatt til handhreinsunar og að handspritt sé víða í umhverfi á biðstofum og í almennum rýmum göngudeilda.
d. Gjaldkerar hafi skurðstofugrímu og fylgi leiðbeiningum um handhreinsun.

4. Sérhæfð þjónusta ákveðinna deilda

a. Stjórnendur sérhæfðra deilda útbúi áætlun sem miðar að því að tryggja að starfssemi deildarinnar falli ekki niður ef Covid-19 greinist óvænt á deildinni, t.d. skiptingu starfsmanna í aðskilda hópa.