Connect with us

Innlent

Frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum lagt fyrir Alþingi á næstunni

Birt

on

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að skýra ákvæði laga um opinberar sóttvarnaráðstafanir í ljósi fenginnar reynslu af COVID-19 heimsfaraldrinum hefur lokið störfum og skilað ráðherra drögum að frumvarpi til breytinga á lögum um sóttvarnir. Heilbrigðisráðherra kynnti frumvarpið fyrir ríkisstjórn í liðinni viku og leggur það fyrir Alþingi á næstunni.

Við endurskoðunina var sérstaklega horft til álitsgerðar Páls Hreinssonar sem hann vann að beiðni stjórnvalda og fjallar um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana í ljósi meginreglna stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæða. Í samræmi við skipunarbréf fjallaði starfshópurinn fyrst og fremst um endurskoðun á IV. kafla laganna sem snýr að opinberum sóttvarnaráðstöfunum og tengdum ákvæðum, enda talið brýnt í ljósi reynslu af COVID-19 faraldrinum að skýra sem fyrst ýmis ákvæði hvað það varðar.

Helstu breytingar á sóttvarnalögum sem starfshópurinn leggur til eru;

  • orðskýringar með helstu hugtökum s.s. samkomubanni, sóttkví og einangrun,
  • svæðisskipting sóttvarna skýrð og kveðið á um umdæmislækna sóttvarna,
  • skýrt kveðið á um að sóttvarnaráð skuli vera ráðgefandi við stefnumótun og að hlutverk þess skarist ekki við hlutverk sóttvarnalæknis,
  • skýrt kveðið á um að sóttkví, stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann séu hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum,
  • ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar um sóttvarnaráðstafanir gagnvart ferðamönnum leidd í lög og gjaldtökuheimildir vegna ráðstafana gagnvart ferðamönnum færðar til samræmis við ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar,
  • málsmeðferð ákvarðana um að setja fólk í sóttkví eða einangrun skýrð,
  • kveðið á um meðferð máls fyrir dómi ef einstaklingi er gert að sæta einangrun eða sóttkví gegn vilja sínum,
  • skýrar kveðið á um skyldur einstaklinga sem lækni grunar að sé haldinn smitsjúkdómi

Þörf á að endurskoða stjórnsýslu sóttvarnamála

Endurskoðun ákvæða um stjórnsýslu sóttvarnamála voru ekki á verksviði starfshópsins en að mati hans er tilefni til slíkrar endurskoðunar, líkt og nánar er skýrt í meðfylgjandi skilabréfi starfshópsins. Er þar einkum vísað til þess að sóttvarnalæknir er starfsmaður embættis landlæknis og ekki skipaður af ráðherra þrátt fyrir þær umfangsmiklu valdheimildir sem sóttvarnalæknir hefur og samband hans og ráðherra samkvæmt gildandi sóttvarnalögum. Þá bendir hópurinn á að lítið sem ekkert sé fjallað um hlutverk helstu heilbrigðisstofnana landsins í farsóttum, svo sem Landspítala. Starfshópurinn telur því tilefni til að endurskoða stjórnsýslu sóttvarna, eftir atvikum í tengslum við heildarendurskoðun sóttvarnalaga þegar sér fyrir endann á heimsfaraldrinum sem nú gengur yfir.

Formaður starfshópsins var Sigurður Kári Árnason. Aðrir í hópnum voru Dagrún Hálfdánardóttir, tilnefnd af embætti landlæknis, Inga Þórey Óskarsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu, Haraldur Briem, tilnefndur af sóttvarnalækni, Ólafur Baldursson, tilnefndur af Landspítala, Sigríður Dóra Magnúsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Víðir Reynisson, tilnefndur af embætti ríkislögreglustjóra. Starfsmaður hópsins var Rögnvaldur G. Gunnarsson.

Innlent

Áherslur lögreglunnar á Austurlandi í desember

Birt

on

By

5 Desember 2020 11:41

Lögreglan á Austurlandi mun í desembermánuði fylgjast með ástandi ökumanna í umferð sem og með dekkja- og ljósabúnaði ökutækja. Þá þykir lögreglu rétt í ljósi árstíðar að líta sérstaklega eftir útsýni úr ökutækjum og sýnileika þeirra, að ökumenn hreinsi vel rúður og ljós og gæti að því að öll ljós logi, jafnt að framan sem aftan.

Lögreglan hvetur ökumenn til að fara varlega í umferðinni og setji sér markmið um slysalausan desember. Það hefur hún gert og mun með þessu áherslum sínum meðal annars gera sitt til að svo megi verða.

Gerum þetta saman og eigum ánægjulegan, rólegan og góðan jólamánuð.

Lesa meira

Innlent

Opið samráð um evrópska tilskipun um losun gróðurhúsalofttegunda frá einkabílum og sendibílum

Birt

on

By

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um losun gróðurhúsalofttegunda frá einkabifreiðum og sendiferðabifreiðum. Frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum er til og með 5. febrúar 2021.

Endurskoða á löggjöf sambandsins um staðla sem gilda um losun koldíoxíðs, CO2, frá þessum ökutækjum. Markmiðið er að skýr stefna gildi í þessum efnum frá árinu 2025 í samræmi við stefnu ESB í loftslagsmáum (e. European Green Deal). Samgöngur án losunar gróðurhúsalofttegunda er hluti af markmiðum sambandsins um jafnvægi í losunarmáum um 2050.  

Lesa meira

Innlent

Sjötti fundur norrænna þróunarsamvinnuráðherra á þessu ári

Birt

on

By

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók þátt í fjarfundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlanda sem haldinn var í dag. Grænar áherslur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og jafnt aðgengi að bóluefni við COVID-19 voru í brennidepli á fundinum, sem er sá sjötti sem þeir halda á þessu ári. 

Ráðherrarnir voru sammála um að fjárfesting, uppbygging og aðgangur að sjálfbærri orku væri grundvöllur að grænni uppbyggingu eftir heimsfaraldurinn og leggja skyldi áherslu á grænar fjárfestingar alþjóðlegu fjárfestingabankanna, þar með talið Alþjóðabankans. Lögðu ráðherrarnir áherslu á að sú uppbygging sem fer fram í kjölfar COVID-19 verði að byggja á jafnrétti og mannréttindum.

Öll norrænu ríkin hafa lagt verulagt fjármagn í alþjóðlegt átak um þróun bóluefnis við COVID-19 og jafnan aðgang að því. Bent var á að þótt kostnaðurinn við að þróa, framleiða og veita aðgang að bóluefni væri mikill skilaði sú fjárfesting sér aftur nánast samstundis þegar hagkerfi heimsins opnast aftur. 

„Heimsfaraldurinn og aðgerðir honum tengdar hafa þegar haft afar neikvæðar afleiðingar á heilsu og velferð fólks í þróunarríkjum. Milljónir bætast í hóp sárafátækra og hungraðra og töluvert hefur dregið úr bólusetningum barna. Nauðsynlegt er að huga að því að þegar byrjað verður að bólusetja fyrir kórónuveirunni þá komi það ekki niður á annarri heilbrigðisþjónustu og dragi ekki enn frekar úr barnabólusetningum vegna annarra lífshættulegra sjúkdóma,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Ráðherrarnir lýstu yfir ánægju með nýlega framlagaráðstefnu fyrir Afganistan, sem haldin var í Genf í nýliðnum mánuði. Finnum var sérstaklega hrósað fyrir sinn þátt en þeir skipulögðu ráðstefnuna ásamt Afganistan og Sameinuðu þjóðunum. Vakið hefur athygli hversu háum framlögum var lofað til uppbyggingar í Afganistan í ljósi aðstæðna. Ísland tilkynnti á ráðstefnunni um þrjátíu milljóna króna framlag til mannúðarstarfs þar.

Að lokum lýstu ráðherrarnir yfir áhyggjum vegna ástandsins í Tigray-héraði í Eþíópíu. Mikill fjöldi flóttamanna hefur flúið til Súdans og hætta er á neyðarástandi í kjölfar átakanna. Ráðherrarnir lýstu yfir sérstökum áhyggjum vegna réttinda óbreyttra borgara og aðgangi þeirra að mannúðaraðstoð. Mikilvægt væri að friðsamleg lausn finnist sem fyrst.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin