Connect with us

Innlent

Frumvarp um breytingar á fjármagnstekjuskatti samþykkt í ríkisstjórn

Birt

þann

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (fjármagnstekjuskattur).

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var kveðið á um hækkun fjármagnstekjuskatts í 22% en að samhliða yrði skattstofninn tekinn til endurskoðunar. Hækkun skattsins var lögfest og tók gildi árið 2018. Í febrúar 2020 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var það verkefni að móta tillögur um endurskoðun skattstofns fjármagnstekjuskatts í samræmi við framangreindan sáttmála. Í starfi hópsins var megináhersla á skattstofn fjármagnstekna og áhrif verðbólgu þar sem hún eykur skattbyrði fjármagnstekna auk þess sem einstakar tegundir fjármagnstekna voru greindar. Starfshópurinn lauk störfum og skilaði 1. nóvember sl. skýrslu um skattstofn fjármagnstekjuskatts og áhrif verðbólgu.

Í starfshópi ráðherra sátu dr. Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík, sem formaður, Helga Jónsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Vilmar Freyr Sævarsson, lögfræðingur á skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Elín Alma Arthúrsdóttir, sviðsstjóri álagningarsviðs Skattsins, Jón Ásgeir Tryggvason, sérfræðingur hjá Skattinum, og Steingrímur Sigfússon, endurskoðandi hjá KPMG.

Í frumvarpinu, sem senn verður lagt fram, er m.a. litið til tillagna starfshópsins. Þær breytingar sem eru fyrirhugaðar eru eftirfarandi:

Frítekjumark vaxtatekna

Í frumvarpinu er lagt til að frítekjumark vaxtatekna hjá einstaklingum, hvort sem þeir bera ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu hér á landi, hækki úr 150.000 kr. í 300.000 kr. á ári.

Frítekjumark arðstekna og söluhagnaðar skráðra félaga 

Í frumvarpinu er að finna nýja tillögu um að breikka stofn þeirra fjármagnstekna sem falla undir frítekjumark, vaxtatekna og láta hann ná til úthlutaðs arðs og söluhagnaðar hlutabréfa félaga sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. Stofn 300.000 kr. frítekjumarksins myndi þannig ná jafnt til vaxtatekna, arðs og söluhagnaðar hlutabréfa skráðra félaga en séu sameiginlegar tekjur umfram 300.000 kr. þá yrði það sem er umfram skattskylt samkvæmt almennum reglum.

Með breytingunni eru skattalegir hvatar milli fjárfestingakosta sem leiða af sér vaxtatekjur annars vegar og arðstekjur og söluhagnað hins vegar jafnaðir. Vonast er til þess að breytingin muni gera hlutabréfamarkaðinn að álitlegri fjárfestingakosti frá því sem verið hefur og þannig hvetja til aukinnar þátttöku almennings. Áformað er að breytingartillagan taki gildi við álagningu árið 2021.

Skattlagning söluhagnaðar frístundahúsnæðis

Í frumvarpinu er brugðist við misræmi varðandi skattlagningu söluhagnaðar auka íbúðar (innan rúmmetrareglu) annars vegar og frístundahúsnæðis hins vegar. Framangreint misræmi getur haft mikil áhrif til skerðingar fyrir þá einstaklinga sem fá bætur frá almannatryggingum.

Til þess að bregðast við þessu misræmi er lagt til að frístundahúsnæði teljist ekki til skattskyldra tekna ef uppfyllt eru skilyrði tekjuskattslaga um eignarhaldstíma og stærðarmörk, rétt eins og söluhagnaður af búseturétti og íbúðarhúsnæði úr dánarbúi manns, þó með þeirri breytingu að eignarhald frístundahúsnæðis hafi varað að lágmarki í 5 ár á söludegi. Með því er verið að koma á samræmi í skattlagningu sambærilegra eigna auk þess sem komið er í veg fyrir skerðingu bótaréttar almannatrygginga.

Frádráttur á móti innleystum gengishagnaði af sérgreindum sparnaðarreikningum

Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um frádráttarheimild á móti innleystum gengishagnaði með ákveðnum takmörkunum. Breytingunni er ætlað að koma til móts við þá einstaklinga sem sjá fram á tiltekin útgjöld í erlendum gjaldeyri í náinni framtíð og fjárfesta í erlendum gjaldeyri í þeim tilgangi að verja sig gengisbreytingum íslensku krónunnar. Almenn skattskyldau í þeim aðstæðum þegar einstaklingur innleysir gengishagnað af sparnaði í erlendum gjaldeyri breytist ekki, heldur er breytingunni ætlað að koma til móts við þá einstaklinga sem sjá fram á tiltekin útgjöld í erlendum gjaldeyri í náinni framtíð og fjárfesta í erlendum gjaldeyri í þeim tilgangi að verja sig gengisbreytingum íslensku krónunnar.

Innlent

COVID-19: Rafræn bólusetningarvottorð frá 21. janúar

Birt

þann

Eftir

Í dag og á morgun fær hópur einstaklinga síðari bólusetningarsprautuna gegn COVID-19 og telst þar með fullbólusettur. Hjá embætti landlæknis er verið að leggja lokahönd á rafræna lausn sem gerir fólki kleift að sækja sér bólusetningarvottorð á vefnum; heilsuvera.is. Stefnt er að því að þetta verður mögulegt frá og með morgundeginum. Vottorðið verður að efni og útliti í samræmi við fyrirliggjandi evrópska staðla og alþjóðlega bólusetningarskírteinið. Markmiðið er að greiða för fólks milli landa, þannig að einstaklingar geti framvísað bóluefnarvottorði á landamærum og séu þá undanþegnir sóttvarnaráðstöfunum vegna COVID-19 í samræmi við reglur hlutaðeigandi lands.

Eins og kynnt var í liðinni viku hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að bólusetningarvottorð sem uppfylla leiðbeiningar sóttvarnalæknis og eru gefin út í í EES/EFTA-ríki verði tekin gild á landamærum Íslands. Þeir sem framvísa slíku vottorði eru undanþegnir opinberum sóttvarnaráðstöfunum á landamærum og er þannig ekki skylt að fara í sýnatöku við landamæri.

Þeir sem ekki geta nýtt sér heilsuveru til að sækja sér rafrænt bólusetningarvottorð geta fengið vottorð hjá heilsugæslunni um að þeir séu fullbólusettir.

Lesa meira

Innlent

Guðlaugur Þór á ráðherrafundi um samspil matvæla, orku og loftslagsbreytinga

Birt

þann

Eftir

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í sameiginlegum ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðastofnunarinnar um endurnýjanlega orku (International Renewable Energy Agency, IRENA) um samspil matvæla, orku og loftslagsbreytinga.

Fundurinn er undirbúningur fyrir Food Systems Summit og High-Level Dialogue on Energy sem Sameinuðu þjóðirnar munu halda í september á þessu ári.

Ráðherra benti á að Ísland legði nú meiri áherslu á stuðning við loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, sérstaklega í sjálfbærri orku, sem hluta af metnaðarfullum aðgerðum í loftlagsmálum. 

Hann lagði til að ráðstefnurnar í september leggðu áherslu á að auka grænar fjárfestingar í beinni nýtingu jarðvarma við matvælaframleiðslu. Þannig væri hægt að auka líkurnar á að ná markmiðum um aukið fæðuöryggi og minnkun matarsóunar sem væri lykill að sjálfbærri matvælaframleiðslu.

Íslendingar hefðu langa reynslu af beinni nýtingu jarðhita í matvælaframleiðslu, -vinnslu og virðisauka bæði í landbúnaði, garðyrkju og fiskeldi. 

Þróunarlönd hafa mörg hver aðgang að jarðhita sem hægt er að nota við þurrkun á til dæmis fiski, korni, ávöxtum, grænmeti og kaffi. Einnig er hægt að nýta jarðhita við gerilsneiðingu á mjólk, við fiskeldi á landi og í ræktun í gróðurhúsum. 

Lesa meira

Innlent

Áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar fólkvangsins í Garðahrauns

Birt

þann

Eftir

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar fólkvangsins  í Garðahrauni efra í Garðabæ. Áformin eru kynnt í samstarfi við Garðabæ og Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa. Friðlýsingin er hluti af friðlýsingarátaki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í samstarfi við Umhverfisstofnun.

Markmið friðlýsingarinnar er að stækka fólkvanginn í Garðahrauni sem svæði til útivistar og almenningsnota og að ná fram skipulegri heildarmynd hraunsins sem talið er sérstætt á landsvísu.

Garðahraun var friðlýst sem fólkvangur í apríl 2014. Það er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum.  Á því svæði sem fyrirhugað er að bæta inn í fólkvanginn nú er jaðar hraunsins við Hraunhóla helluhraun, en innar á hrauninu tekur við klumpahraun.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við málsmeðferðarreglu  náttúruverndarlaga. 

Áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar Garðahrauns efra í Garðabæ

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin