Connect with us

Stjórnarráðið

Frumvarp um ferðagjöf kynnt í ríkisstjórn

Birt

þann

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt fyrir ríkisstjórn frumvarp til laga um ferðagjöf.

Um er að ræða útfærslu á áður boðaðri aðgerð ríkisstjórnarinnar um 1,5 milljarða króna innspýtingu til að örva innlenda eftirspurn eftir ferðaþjónustu.

Í frumvarpinu kemur fram að ferðagjöf er stafræn 5.000 króna inneign sem stjórnvöld gefa út til einstaklinga sem fæddir eru árið 2002 eða fyrr og eru með íslenska kennitölu. Samkvæmt frumvarpinu má nýta ferðagjöfina til greiðslu hjá eftirtöldum fyrirtækjum sem hafa starfsstöð á Íslandi:

  • Fyrirtæki með gilt leyfi skv. III. kafla laga um ferðamálastofu, þ.e.a.s. ferðaskrifstofur og ferðasalar dagsferða
  • Fyrirtæki með gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þ.e.a.s. gististaðir í flokki II-IV og veitingastaðir í flokki II og III, og fyrirtæki með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd til veitingastaða í flokki I
  • Ökutækjaleigur með gilt starfsleyfi skv. lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja
  • Söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru

Við afmörkun ferðagjafarinnar var haft að leiðarljósi að hún væri skýr, afdráttarlaus og eftir fremsta megni byggð hlutlægum þáttum fremur en huglægu mati.

Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að gefa eigin ferðagjöf öðrum einstaklingi en hver einstaklingur má aðeins greiða með að hámarki 15 ferðagjöfum. Þá er með hliðsjón af sjónarmiðum um ríkisaðstoð lagt til hámark á heildarfjárhæð ferðagjafa sem hvert fyrirtæki megi taka við; almennt er það 100 milljónir króna en 25 milljónir króna hafi fyrirtækið verið metið í rekstrarerfiðleikum 31. desember síðastliðinn.

Ákvæði er í frumvarpinu sem undanþiggur ferðagjöfina skattskyldu.

Þar sem aðgerðin felur í sér ríkisaðstoð skv. 61. gr. EES-samningsins er gerður fyrirvari um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.

Starfshópur hefur undanfarið unnið að tæknilegri útfærslu á ferðagjöfinni og er sú vinna mjög langt komin. Meðal annars hefur verið þróað smáforrit í samstarfi við frumkvöðlafyrirtækið Yay sem einfaldar greiðslu með ferðagjöfinni, þó að það verði ekki skilyrði. Þess er vænst að ferðagjöfin verði virkjuð snemma í júní.

Framkvæmd og útfærsla Ferðagjafar verður kynnt nánar á kynningarfundi sem streymt verður á vef Ferðamálastofu næstkomandi þriðjudag, 26. maí, klukkan 9:00. Sjá nánar hér.

Lesa meira

Innlent

Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um villt dýr

Birt

þann

Eftir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Um er að ræða heildarendurskoðun laga, sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í skýrslu nefndar um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra frá apríl 2013, sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra, voru ýmsar tillögur sem  horft var til við  gerð frumvarpsins.

Umhverfi málaflokksins hefur tekið töluverðum breytingum frá því núverandi löggjöf tók gildi fyrir 25 árum, til að mynda með aukinni áherslu á umhverfis- og loftslagsmál, breyttum skuldbindingum Íslands á grundvelli alþjóðasamninga og fjölgun ferðamanna sem vilja skoða náttúru og dýralíf landsins.

Meðal helstu áherslna í frumvarpinu sem ráðherra mælti fyrir í dag er aukin dýravernd og dýravelferð og alhliða vernd villtra fugla, villtra spendýra og helstu búsvæða þeirra. Eins er kveðið á um lögfestingu válista vegna villtra fugla og villtra spendýra og að sérstakar stjórnunar- og verndaráætlanir verði gerðar fyrir alla helstu stofna og tegundir villtra dýra. Ákvarðanir um vernd og veiðar byggi þannig á vísindalegum og faglegum forsendum, en gerð áætlananna verður samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar og eiga þær að liggja til grundvallar ákvarðanatöku í málaflokknum.

Í frumvarpinu er kveðið á um að allar veiðar á villtum dýrum, þ.m.t. hlunnindaveiðar, eigi að vera sjálfbærar, mælt er fyrir um virka veiðistjórnun og veiðieftirlit á landinu öllu og að tekið verði með markvissum hætti á tjóni sem villt dýr og fuglar valdi. Þá er þar komið til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem bundnir eru við hjólastól.

„Segja má að lögfesting stjórnunar- og verndaráætlana fyrir villta dýrastofna sé í raun hjartað í þessu frumvarpi og meginbreytingin frá gildandi lögum um þetta efni. Með gerð stjórnunar- og verndaráætlana er lagður mikilvægur grunnur að því að ávallt verði byggt á haldbærum, faglegum og vísindalegum upplýsingum við vernd, stýringu og stjórnun á stofnum villtra dýra. Á þeim aldarfjórðungi síðan lögin tóku gildi hefur margt tekið breytingum, ekki einungis í náttúrunni sjálfri heldur líka í afstöðu til nýtingar og umgengni við hana. Ég er sérstakur talsmaður þess að við leggjum vísindin að leiðarljósi í allri okkar ákvarðanatöku og þetta frumvarp er því kærkomin breyting á núgildandi lögum“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

 

Lesa meira

Innlent

​Dómnefnd skilar umsögn um umsækjendur um embætti dómenda við Endurupptökudóm

Birt

þann

Eftir

Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skila umsögn sinni um umsækjendur um embætti dómenda við Endurupptökudóm, sem auglýst voru laus til umsóknar í Lögbirtingablaði þann 18. september 2020. Um er að ræða tvö embætti dómenda og tvö embætti varadómenda. Alls bárust 17 umsóknir um embættin en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar síðar til baka.

Það er niðurstaða dómnefndar að Eyvindur G. Gunnarsson og Jóhannes Karl Sveinsson sé hæfastir umsækjenda til að gegna embætti dómenda við Endurupptökudóm.

Á eftir þeim komi, jafn settir, Árni Vilhjálmsson, Eiríkur Elís Þorláksson, Reimar Pétursson og Stefán Geir Þórisson. Þessir fjórir séu því hæfastir til að gegna embætti varadómenda við Endurupptökudóm.

Dómnefndina skipuðu: Helgi I. Jónsson, formaður, Ari Karlsson, Halldór Halldórsson, Óskar Sigurðsson og Skúli Magnússon.

Umsögn dómnefndar má lesa hér.

Lesa meira

Innlent

Opið samráð um evrópska tilskipun um aksturs- og hvíldartíma ökumanna

Birt

þann

Eftir

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum er til og með 18. febrúar 2021.

Samkvæmt reglum sem nú gilda eru atvinnuökumenn sem flytja af og til farþega með almenningsvögnum og hópbifreiðum settir undir sömu reglur um skipulag aksturs og hvíldartíma og ökumenn vöruflutningabifreiða. Þessar reglur eiga ekki alltaf vel við flutning farþega. Með samráðinu á að reyna að finna leiðir til að aðlaga reglurnar að þörfum þessara ökumanna. 

Með söfnun gagna og greiningu þeirra hefur framkvæmdastjórnin í hyggju að meta áhrif gildandi reglna og hvort mögulegt sé að aðlaga þær að þörfum þessara ökumanna. Framkvæmdastjórnin mun meta áhrif reglnanna á réttindi ökumanna, samkeppnisskilyrði þeirra sem reka fólksflutninga fyrirtæki og á umferðaröryggi. 

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin