Fyrsta skýrsla framtíðarnefndar forsætisráðherra er komin út og fjallar hún um þróun atvinnulífs, umhverfis, byggðar og lýðfræðilegra þátta.

Forsætisráðherra skipaði framtíðarnefndina um mitt ár 2018 til þess að fjalla um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga. Framtíðarnefnd forsætisráðherra hefur m.a. það hlutverk að fjalla um þróun þeirra meginstrauma sem koma til með að hafa mótandi áhrif á samfélagið til framtíðar einkum með hliðsjón af þróun umhverfismála og lýðfræðilegum þáttum.

Helstu ályktanir og tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:

• Skoðað verði hvort grunnmenntun og símenntun eigi að renna saman í eitt sveigjanlegt menntakerfi.
• Greina þurfi mannafla- og færniþörf með reglubundnum hætti.
• Mikilvægt sé að löggjöf fylgi þróun vinnumarkaðar og verkefna hagkerfisins þannig að vörður verði staðinn um réttindi einstaklinga án þess að hindra nýsköpun.
• Tekjuöflun ríkisins þurfi að vera í stöðugri endurskoðun í ljósi breyttra skattstofna, vegna aukinnar alþjóðavæðingar og breytinga á vinnumarkaði.
• Fjölbreytni í atvinnuvegum og sjálfbærni í auðlindanýtingu sé lykilatriði fyrir stöðugleika til lengri tíma.
• Greina þurfi betur áhrif sjálfvirknivæðingar á landsbyggðina og brothættar byggðir.
• Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, ásamt breytingum á flæði fólks milli landa, skapi samfélagslegar áskoranir sem þurfi að leysa.

Fram kemur í skýrslunni að framtíðarnefndin telji mikilvægt að stjórnvöld taki mið af þessum niðurstöðum við stefnumótun og lagasetningu á komandi árum, með hliðsjón af því að smáar breytingar í nútíð geti dregið úr þörf á stórum breytingum í framtíðinni.

Einnig kemur fram að þær breytingar sem fram undan eru geti leitt til ólíkra sviðsmynda í framtíðinni eftir því hvernig við þeim verður brugðist. Í skýrslunni má greina hvaða ytri drifkraftar eru líklegir til að hafa veruleg áhrif á þróun íslensks samfélags á komandi áratugum, bæði með jákvæðum og neikvæðum afleiðingum. Viðbrögð stjórnvalda og úrvinnsla innri drifkrafta komi til með að ráða miklu um það hvernig samfélagið mun þróast. Í vinnu gagnvart þeim drifkröftum sem vega hve þyngst í umfjöllun í skýrslunni er lögð áhersla á sveigjanleika – sveigjanleika í hagkerfinu, menntun og starfi, búsetu og vali á lifnaðarháttum.

Gera má ráð fyrir miklum breytingum á komandi áratugum. Sviðsmyndir gefa til kynna að árið 2040 megi líklega sjá árlega aukningu í komu ferðamanna þrátt fyrir tímabundna fækkun á þessu ári. Einnig má búast við fjölgun fólks sem er af erlendu bergi brotið á Íslandi, að íslensk hugbúnaðarframleiðsla muni styrkjast, að aukning verði í framleiðslu matvæla í gróðurhúsum og að sjálfvirknivæðing muni allt að fjórfaldast en Ísland verði þó eftirbátur annarra Norðurlanda á því sviði. Gert er ráð fyrir að það verði mun örari breytingar á markaði og má gera ráð fyrir verulegri fjölgun smáfyrirtækja, einyrkja og starfsmanna í fjarvinnu. Búast má við því að hægst hafi á aukningu á nýtingu náttúrulegrar orku og að elstu orkuauðlindir landsins séu jafnvel að ganga úr sér. Samhliða loftslagsbreytingum kunna fiskveiðar að dragast saman um allt að þriðjung árið 2040.

Frekari upplýsingar um efnistök og niðurstöður skýrslunnar veitir Smári McCarthy, alþingismaður og formaður nefndarinnar.

Framtíðarnefnd forsætisráðherra

Skýrsla nefndarinnar: Þróun atvinnulífs, umhverfis, byggðar og lýðfræðilegra þátta (pdf)