Þrívítt myndgreiningartól sem er byggt á gervigreind og ætlað að auðvelda og flýta greiningu á heilabilun fékk Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands sem afhent voru í maí 2020.

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ hétu áður Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands og voru nú veitt í 22. sinn. Keppnin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Auðnu-tæknitorgs. Hún er ætluð bæði starfsfólki og stúdentum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands og bárust alls 38 tillögur að þessu sinni sem er metfjöldi.

Greiningartækið fyrir heilabilun sigraði í flokknum Tækni og framfarir. Tækið á að veita læknum nákvæmar rauntímamælingar á mismunandi heilasvæðum sem talið er að tengist heilabilun.  Verkefnið nefnist „Sjálfvirk merking heilamynda til bestunar á klínísku notagildi myndgreiningar“ og hlutu aðstandendur þess samanlagt þrjár milljónir króna í verðlaunafé. Að verkefninu standa Lotta María Ellingsen, dósent við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands, Hans Emil Atlason, doktorsnemi við sömu deild, og Áskell Löve, lektor við læknadeild og taugaröntgenlæknir á Landspítala.

Nánar á vef Háskóla Íslands