Helga Rósa Másdóttir hefur verið ráðin hjúkrunardeildarstjóri bráðamóttöku Landspítala Fossvogi.

Helga Rósa lauk BSc prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 2004 og meistaranámi í hjúkrun frá University of Toronto í Kanada 2011. Hún hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á bráðadeild Landspítala með hléum frá 2004-2012 og verið aðstoðardeildarstjóri hennar frá 1. október 2012.  Hún var hjúkrunarfræðingur á heilsugæslu á Baroda University Health Center í Baroda á Indlandi sumarið 2006 og starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Fjórðungssjúkrahúsi Neskaupsstaðar 2004 til 2006. 

Helga Rósa hefur tekið virkan þátt í gerð hæfniviðmiða á bráðadeild frá árinu 2012. Innleiddi „Triage Risk Screening Tool“ á bráðamóttöku í samstarfi við sérfræðinga í öldrunarhjúkrun. Verkefnastjóri fyrir hönd bráðamóttökunnar við gerð og innleiðingu viðbragðsáætlunar vegna mögulegs ebólufaraldurs 2014. Verkefnastjóri á menntadeild Landspítala við innleiðingu SBAR samskiptatækni 2012 til 2013. Hún var hópstjóri yfir ferli sjúklinga í forgangi 3 til 5 við sameiningu hjartagáttar og bráðamóttöku árið 2018. Auk þessa hefur Helga Rósa tekið þátt í mörgum starfshópum á Landspítala.

Helga Rósa hefur verið klínískur sérfræðikennari í bráðahjúkrun á vegum Háskóla Íslands innan Landspítala, haft umsjón með verklegri kennslu 4. árs hjúkrunarnema í samstarfi við aðjúnkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun. Sinnt stundakennslu í bráðahjúkrun fyrir 4. árs hjúkrunarnema og meistaranema í bráða- og gjörgæsluhjúkrun í HÍ. Kennt á „Basic Paient Safety“ námskeiðum á Landspítala síðan 2018. Einnig hafði Helga Rósa umsjón með heilbrigðisfræðslu skipstjórnarnema í Tækniskólanum veturinn 2009 og 2011. Helga Rósa hefur verið í rótargreiningahópum vegna alvarlegra atvika á Landspítala og ráðgjafi á vegum Landpítala í fjölmörgum hópslysaæfingum á vegum Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og Isavia. 

Bráðaamóttakan í Fossvogi