Connect with us

Heilsa

Íslensk Covid-19 rannsókn um tíðni og þróun einkenna í British Medical Journal

Birt

þann

British Medical Journal tímaritið birtir 2. desember 2020 grein um rannsókn nýdoktorsins og læknisins Elíasar Eyþórssonar og samstarfsmanna á Landspítala sem lýsir tíðni og þróun einkenna meðal fólks sem greindist með Covid-19 í fyrstu bylgju sjúkdómsins á Íslandi. Rannsóknina vann Elías undir handleiðslu prófessoranna Runólfs Pálssonar og Martins Inga Sigurðssonar. 

Til þessa hafa flestar rannsóknir á einkennum Covid-19 byggst á upplýsingum um einstaklinga sem þarfnast hafa innlagnar á sjúkrahús. Lengi vel voru þeir sem ekki þurftu sjúkrahúsinnlögn ýmist ekki greindir með sjúkdóminn eða voru án þjónustu heilbrigðisstarfsfólks meðan á veikindunum stóð. Þá hafa þær fáu rannsóknir sem kannað hafa einkenni allra einstaklinga sem greinst hafa með Covid-19 nær undantekningarlaust stuðst einvörðungu við spurningalista sem lagður var fyrir smitaða einstaklinga við greiningu. Afleiðingin er sú að birtingarmynd alvarlegra Covid-veikinda hefur verið gerð ágæt skil en upplýsingar skortir um einkenni annarra sem greinast með Covid-19. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að ákvörðun um framkvæmd greiningarprófs vegna gruns um Covid-19 byggist gjarnan á vel skilgreindum einkennum þannig að ef einkennamynstrið er frábrugðið hjá einstaklingum með væga sjúkdómsmynd er hætt við að ekki þyki ástæða til sýnatöku.

Rannsókn Elíasar og félaga byggði á gögnum sem var safnað á Covid-göngudeild Landspítala. Allir sem greindust með COVID-19 (jákvætt PCR-próf fyrir SARS-CoV-2) voru skráðir í símaþjónustu deildarinnar sem fól í sér tíð símtöl hjúkrunarfræðinga og lækna þar sem lagt var mat á líðan fólks og ráðgjöf veitt. Jafnframt var í hverju símtali spurt hvort einhver af 19 skilgreindum einkennum væru til staðar og mat lagt á alvarleika veikindanna. Svör við þessum spurningum voru skráð kerfisbundið á sérstakt eyðublað sem var hannað fyrir þjónustu Covid-göngudeildarinnar og var skráningin uppfærð eftir hvert símtal. Rannsóknin náði til allra 1.797 einstaklinga sem greindust með Covid-19 frá 28. febrúar til 30. apríl 2020 og var 1.564 sem greindust eftir að skráningarblaðið var tekið í notkun gefinn sérstakur gaumur.

Niðurstöður rannsókninnar reyndust áhugaverðar. Algengustu einkenni Covid-19 voru slappleiki (75%), höfuðverkur (73%) og hósti (73%). Einungis 48% fengu hita og 58% voru með bragðskynstruflun og 57% lyktarskynstruflun. Öll einkenni voru algengust í upphafi veikinda fyrir utan bragð- og lyktarskynstruflun sem var örlítið algengari á áttunda degi eftir að einkenni komu fram. Þótt oft sé talað um Covid-19 sem öndunarfærasjúkdóm er athyglisvert að 48% höfðu einkenni frá meltingarfærum. Rannsóknin sýndi einnig að 22% greindra einstaklinga uppfylltu ekki einkennaskilmerki Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) fyrir greiningarpróf og 14% uppfylltu ekki skilmerki Sóttvarnarmiðstöðar Bandaríkjanna (CDC). Niðurstöðurnar benda því til þess að allt að 24% einstaklinga sem greindust með Covid-19 hefðu ekki greinst með sjúkdóminn eða greiningu hefði seinkað ef einungis þeir sem uppfylltu ofangreind skilmerki hefðu fengið að fara í sýnatöku.

Rannsóknin bætir við mikilvægri þekkingu um þróun einkenna hjá einstaklingum með Covid-19. Líklegt þykir að fyrri rannsóknir hafi ofmetið tíðni einkenna sem eru algeng hjá alvarlega veiku fólki. Jafnframt sýnir rannsóknin að einkennamynstur er mjög breytilegt hjá þeim sem greinast með Covid-19 og að kröfur um að einstaklingar þurfi að hafa tiltekin einkenni til að fá að gangast undir greiningarpróf munu óhjákvæmilega leiða til vangreiningar.

Clinical spectrum of coronavirus disease 2019 in Iceland: population based cohort study

Heilsa

Dag- og göngudeild auglækninga lokuð í viku frá 18. janúar vegna flutnings

Birt

þann

Eftir

Dag- og göngudeild augnlækninga á Landspítala, við Þorfinnsgötu, verður lokuð frá mánudegi 18. janúar til mánudags 25. janúar 2021 vegna flutninga. Að báðum dögum meðtöldum.

Verið er að breyta Eiríksstöðum, þar sem áður voru skrifstofur Landspítala, í göngudeildahús. Þangað flyst dag- og göngudeild auglækninga og verður deildin opnuð á nýja staðnum þriðjudaginn 26. janúar.

Eiríksstaðir eru við Eiríksgötu, rétt neðan við Hallgrímskirkju, skáhalt þar sem Blóðbankinn var lengi.

Lesa meira

Heilsa

Forstjórapistill: Fumlaust viðbragð vegna greindra Covid-19 tilfella og réttlát forgangsröðun í bólusetningu

Birt

þann

Eftir

Kæra samstarfsfólk!

Eins og sóttvarnalæknir segir þá erum við vonandi komin í síðasta kafla COVID-19 farsóttarinnar, nú þegar farið er að bólusetja þjóðir heims. Áskoranirnar eru þó ærnar áfram og mikilvægt að halda vöku sinni. Það sannaðist í tvígang í vikunni þegar smit greindust á hjartadeild annars vegar og blóð- og krabbameinslækningadeild hins vegar. Í fyrra tilvikinu reyndist um eldra smit að ræða sem greindist við útskrift sjúklings en í hinu síðara fannst fyrir árverkni starfsfólks virkt smit hjá sjúklingi sem lagst hafði inn deginum áður, eftir að hafa fengið þjónustu á annarri heilbrigðisstofnun. Á skipulagðan og fumlausan hátt var strax gripið til víðtæks viðbragðs og deildunum samstundis lokað fyrir nýjum innlögnum og aðrir sjúklingar og starfsfólk skimað fyrir Covid-19. Snör vinnubrögð þrautþjálfaðra starfsmanna spítalans og öflugar sýkingarvarnir þeirra fyrir og eftir þessa alvarlegu atburði skiptu sköpum. Frekari smit hafa ekki greinst en viðbrögðin voru hárrétt og viðeigandi. Landspítali sinnir verkefnum af þessu tagi allan sólarhringinn, allan ársins hring og hér gengur fólk fumlaust og yfirvegað til verka. Það hefur margoft komið í ljós í heimsfaraldri Covid-19 að samstaða starfsfólks Landspítala nær jafnan hámarki andspænis erfiðustu áskorununum. Ég hygg að sömu sögu megi segja af öðrum heilbrigðisstofnunum um víða veröld. Þetta eru ótrúlegir vinnustaðir og einstakur heiður að tilheyra þeim.

Á þessum tímum þegar bóluefni er farið að berast til landsins er mikilvægt að við sýnum yfirvegun og stillingu. Sóttvarnarlæknir hefur, að vel athuguðu máli, sett fram forgangsröðun í reglugerð. Í reglugerðinni er ekki forgangsraðað þannig að tryggt sé að tiltekin starfsemi haldi velli, svo sem innviðir á borð við raforkuver eða einstaka heilbrigðisstofnun, heldur er horft til þeirra sem eru í mestri áhættu. Að leiðarljósi eru höfð þau grunngildi að láta okkar viðkvæmustu hópa ganga fyrir og þá sérstaklega aldraða. Fólk í almannaþjónustu (sérstaklega heilbrigðisþjónustu) sem metið er í hááhættu er einnig í forgangi. Aðrir koma síðar. Þetta er skynsamleg forgangsröðun og réttlát og það er mikilvægt að við treystum mati heilbrigðisyfirvalda í þessu efni.

Ég og fulltrúar farsóttarnefndar spítalans höfum á undanförnum vikum fengið fjölmargar rökstuddar óskir um að ákveðnir hópar innan spítalans þurfi að ganga fyrir öðrum í bólusetningu. Þótt ég hafi fullan skilning á því að stjórnendur beri hag starfsfólks síns sér fyrir brjósti og vilji verja sem best þá þjónustu sem veitt er og þótt ég skilji vel að fólk óttist það að sýkjast þá verðum við öll að virða forgangsröðun sem sett hefur verið fram. Eftir því sem bóluefni berst til landsins þá verða landsmenn bólusettir og þar er fylgt þeirri forgangsröðun sem liggur fyrir. Þar gildir sama fyrir Jón og séra Jón og ég vil sérstaklega taka fram, vegna sögusagna um annað, að forstjóri og framkvæmdastjórn eða aðrir stjórnendur spítalans hafa ekki verið bólusettir fyrir COVID-19. Undantekningar frá þessu eru auðvitað þær ef fólk sinnir einnig beinum sjúklingasamskiptum í framlínu og tilheyrir þannig þegar skilgreindum forgangshópum. Við hin bíðum róleg þar til að okkur kemur, í þeirri vissu að framar okkur í röðinni er sannarlega fólk sem þarf meira á bólusetningu að halda.

Góða helgi og baráttukveðjur öll!

Páll Matthíasson

Lesa meira

Heilsa

Blóð- og krabbameinslækningadeild opnuð á ný – hvorki Covid-19 smit hjá sjúklingum né starfsfólki

Birt

þann

Eftir

Niðurstöður úr Covid-19 skimun sjúklinga og starfsfólks blóð- og krabbameinslækningadeildar 11EG á Landspítala liggja fyrir og eru allar neikvæðar. Ekki er um útbreitt smit á deildinni að ræða. Af því tilefni hefur farsóttanefnd spítalans ákveðið að opna deildina fyrir innlögnum á nýjan leik og er starfsemi hennar með venjubundnum hætti.

Nýinnlagður sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala 11EG fékk jákvætt svar við Covid-19 skimun um kl. 20:00 í gærkvöldi, miðvikudaginn 13. janúar 2021. Þegar í stað var gripið til ítrustu sóttvarnaaðgerða og deildinni lokað fyrir innlögnum. Um 30 sjúklingar og 20 starfsmenn voru síðan skimaðir snemma í morgun, fimmtudaginn 14. janúar.

Enn liggur ekki fyrir hvernig sjúklingurinn smitaðist en þó þykir ljóst að hann hafi verið með smit þegar við innlögn.  Rakning stendur ennþá yfir. Sjúklingurinn var fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala A7 í Fossvogi strax í gærkvöldi og settur í einangrun, vegna veikinda sinna.

Smit, hvort heldur sjúklinga eða starfsfólks á deildum, eru alvarlegir atburðir í starfsemi Landspítala og viðbragðið alltaf umfangsmikið og útbreitt. Það viðbragð, öflugar sóttvarnir og umfangsmiklar öryggisráðstafanir til að vernda sjúklinga og starfsfólk hafa nú leitt af sér þessa góðu niðurstöðu.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin