Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, við gasmælingar í Svartsengi. Gasmælingar eru hluti af vöktun Veðurstofunnar vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.


Vísindaráð Almannavarna fundar í næstu viku

5.6.2020

Samkvæmt
nýjustu gögnum eru vísbendingar um að landris sé hafið að nýju við Þorbjörn. Þann
30. maí jókst jarðskjálftavirkni í nágrenni Grindavíkur og hafa um 700 skjálftar
verið staðsettir þar síðan þá, aðallega smáskjálftar. Stærstu skjálftarnir sem
mælst hafa í þessari hrinu voru 2,7 að stærð, dagana 30. maí og 2. júní.

Í byrjun apríl dró úr landrisi við Þorbjörn og
um miðjan mánuðinn lauk þeirri landrishrinu. Á sama tíma dró verulega úr
skjálftavirkni. Bent
var á í frétt sem birtist á vef Veðurstofunnar 4. maí
að miðað við þróun atburða síðustu mánuði yrði að gera ráð fyrir þeim
möguleika að kvikuinnskot á Reykjanesskaga haldi áfram.

Vísindamenn
á Veðurstofu Ísland ásamt vísindamönnum á Jarðvísindastofnun
og ÍSOR hafa fylgst vel með þróun mála á Reykjanesskaga og safna og vinna úr
gögnum. Vísindaráð Almannavarna mun koma saman miðvikudaginn 10.
júní til að fara yfir gögn og leggja mat á stöðuna.

Óvissustig vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga er enn í gildi
hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.