skjáskot

Skjálftahrinan hefur verið staðbundin hingað til (skrifað 20.06.2020 kl. 17:50)


20.6.2020

Jarðskjálftahrina hófst um miðjan dag í gær um 20 km NA af Siglufirði þegar
mældust 7 skjálftar af stærð M3-M3,8. Kl. 15:05 í dag varð skjálfti af
stærðinni M5,3 á svipuðum sloðum og honum hafa fylgt margir eftirskjálftar, þar
af um 20 skjálftar af stærð M3,0 – 4,1. Skjálftavirknin er á  mótum Eyjafjarðaráls og
Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins. Haustið 2012 mældist einnig kröftug hrina þegar 4 skjálftar stærri en M5 mældust 10 km austar en nú.

Veðurstofunni hafa borist fjölmargar tilkynningar frá fólki sem fann fyrir skjálftanum, allt frá Dalasýslu til Húsavíkur. Úr Hörgárdal bárust tilkynningar um hluti sem hrundu úr hillum.

Grjóthruns var vart úr Hafnarhyrnu ofan við varnargarðinn á Siglufirði  og í Mánárskriðum en annars hafa
Veðurstofunni ekki borist tilkynningar um skriður eða tjón af völdum
skjálftans. Veðurstofan varar við mögulegu grjóthruni og biður ferðalanga að fara varlega í og við skriður og kletta á Flateyjarskaga og Tröllaskaga.

20200620_jardskjalfi2Vaktskjáirnir
sýna  hrinuna vel. Mikil
eftirskjálftavirkni hefur fylgt stærsta skjálftanum. Ríflega 500 skjálftar
hafa mælst í hrinunni þegar þetta er skrifað.

Jarðskjálftahrinan er enn í gangi og hugsanlegt er að hún færist austar eftir Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Ekki er hægt að útiloka að stærri skjálftar verði á svæðinu en skjálftar allt að stærð 7 eru þekktir á
Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Árið 1872 urðu tveir skjálftar af stærð M6,5,
líklega báðir á misgenginu og árið 1755 varð skjálfti sem metinn hefur verið af
stærð um 7

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi á Norðurlandi eystra vegna
jarðskjálftahrinunnar.