Connect with us

Almannavarnir

Jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga

Birt

on

Jarðskjálftavirkni er enn yfirstandi á Reykjanesskaga þó dregið hafi örlítið úr henni og hafa nokkrir skjálftar stærri en M3 mælst í dag. Ekki er hægt að útiloka annan stóran skjálfta og er því enn aukin hætta á grjóthruni í bröttum hlíðum á Reykjanesskaganum og einnig í öðrum fjallshlíðum á suðvesturhorninu. Jarðskjálftahrinan hófst í gær með skjálfta af stærðinni 5.6 reið yfir klukkan 13:43 með upptök á Núpshlíðarhálsi, um 5 km vestan við jarðhitasvæðið í Seltúni. Engin slys eða tjón á mannvirkjum hafa verið tilkynnt.

Gróthruns varð vart á fjórum stöðum í nágrenni við upptök jarðskjálftans á Reykjanesi í gær, við Djúpavatnsleið, Keili, Trölladyngju og Vatnsskarð. Í sumum þessara tilvika mátti litlu muna að slys yrðu á fólki. Einnig eru vísbendingar um að sprungur við Krýsuvíkurbjarg hafi gliðnað og að nýjar hafi myndast.

Á áhrifasvæði jarðskjálftanna eru margar vinsælar gönguleiðir og nú þegar vetrarfrí er að hefjast í skólum er líklegt að fjölskyldur nýti sér næstu daga til útivistar. Fólk er beðið um að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum og að fara að öllu með gát. Tilkynna má grjóthrun eða skriður inn til Veðurstofunnar með því að senda okkur skilaboð á Facebook eða hringja í 522-6000 og biðja um náttúruvárvakt Veðurstofunnar. Skriðusérfræðingar Veðurstofunnar eru við störf á vettvangi næstu daga til að kortleggja afleiðingar skjálftanna og meta hættuna á frekara grjóthruni og skriðum.

Síðast uppfært: 21. október 2020 klukkan 21:26

Lesa meira

Almannavarnir

Fundur í vísindaráði almannavarna vegna Grímsvatna og Bárðarbungu

Birt

on

By

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi þriðjudaginn 13. október til að ræða nýjustu mæligögn frá Grímsvötnum og Bárðarbungu, en síðasti vísindaráðsfundur var 25. september síðastliðinn. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá Isavia-ANS, Landhelgisgæslunni, Landsbjörg, Umhverfisstofnun, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurlandi og Norðurlandi Eystra.

Grímsvötn

Skjálftavirkni er minni nú en var fyrr í haust en ekki er óeðlilegt að sveiflur séu í henni.  Mest var hún 7.-14. september með yfir 15 skjálfta M>0.8 en þeim hefur fækkað jafnt og þétt síðan og voru í síðustu viku þrír (með M>0.8).  Enn er nokkuð í að uppsöfnuð orkuútlausn vegna jarðskjálftavirkni nái því sem það var fyrir eldgosin 2004 og 2011, en nú eru liðin rúm níu ár frá síðasta gosi sem er lengsta goshlé í Grímsvötnum frá 1998. 

GPS mælingar á Grímsfjalli sýna að færsla er nú til suðurs og upp á við, sem er breyting frá suð-suðaustur færslunni sem verið hefur lengst af frá síðasta eldgosi (2011).  Ýmsar hugmyndir voru ræddar en engin augljós skýring er á þessari breytingu sem er ekki talin stórvægileg.  Í ljósi þess að enn mælist marktæk færsla er líklegt að kvikusöfnun sé enn í gangi.

Íshellan í Grímsvötnum heldur áfram að rísa vegna vatnssöfnunar, en 5. október jókst rishraðinn skyndilega í um 15 klst. en leitaði síðan aftur í sama far og var áður.  Nokkrar ástæður geta skýrt þessar mælingar eins og ísskrið sem þrýstir upp íshellunni, tæming jarðhitakatla innan vatnasviðs Grímsvatna, eða aukin bræðsla vegna jarðhita. Í síðustu viku var flogið yfir Grímsvötn og yfirborðið skoðað auk þess yfirborð var á nokkrum stöðum mælt með hæðarratsjá. Ekkert óvenjulegt kom fram í þeim mælingum.

Þann 30. september hækkaði Veðurstofa Íslands fluglitakóða eldfjalla í gulan í ljósi aukinnar virkni og líkum á hlaupi sem gæti leitt til eldgoss. Gulur kóði tryggir formleg samskipti og upplýsingaflæði á milli aðila í flugrekstri.

Vel er fylgst með Grímsvötnum með ýmsum aðferðum: Vefmyndavél á Grímsfjalli, jarðskjálftamælar, GPS landbreytingar og hækkun á íshellu, reglulegur samanburður á loftmyndum og flugmælingar þegar því verður komið við.  Búast má við jökulhlaupi á næstunni og því gæti fylgt eldsgos.

Bárðarbunga

Jarðskjálftar verða reglulega í Bárðarbungu sem tengjast aukinni þenslu í eldstöðinni.  Smáskjálftavirkni er viðvarandi og reglulega koma skjálftar af stærðinni 4-5, eða um 3-10 á ári. Skjálftarnir sjálfir skapa ekki hættu en benda til þess að kvika streymi inní eldstöðina á ný. GPS landmælingar sýna einnig færslur sem benda til þenslu í eldstöðinni. Þensla var hröðust í kjöfar gosloka, en dregið hefur úr þensluhraða síðan þá.

Þá var flogið yfir Bárðarbungu í síðustu viku og jarðhitakatlar mældir sem fóru að myndast eftir eldsumbrotin í Holuhrauni. Sumir grynnka á meðan aðrir dýpka, en meginþróunin er í átt að aukinni jarðhitavirkni og hefur verið svo að miklu leyti frá öskjusiginu 2014-2015.  Kort sem gerð eru eftir gervitunglamyndum sýna sömu þróun. Gera verður ráð fyrir þeim möguleika að með tímanum gæti bræðsluvatn safnast fyrir undir kötlum og komið fram sem jökulhlaup.  Nauðsynlegt er að hafa áfram sérstakar gætur á þessari þróun. Engin gögn benda þó til þess nú að vatn sé farið að safnast fyrir í neinum mæli eða að yfirvofandi hlauphætta sé þegar fyrir hendi.

Næsti fundur vísindaráðs hefur ekki verið boðaður

Síðast uppfært: 16. október 2020 klukkan 20:21

Lesa meira

Almannavarnir

Haustfundur vísindaráðs almannavarna

Birt

on

By

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi 23. september þar sem virkni jarðskjálfta og landbreytingar á Tjörnesbrotabeltinu og Reykjanesskaga var rædd.  Auk þess var farið yfir niðurstöður mælinga í Grímsvötnum, Mýrdalsjökli og Kröflu.  Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR ásamt fulltrúum frá Isavia-ANS, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fulltrúum frá flestum lögregluumdæmum.

Tjörnesbrotabeltið

Jarðskjálftavirkni er jafnaði yfir meðallagi frá því að hrina hófst þann 19. júní í sumar.  Fjöldi skjálfta í hverri viku hefur þó minnkað með tímanum.  Mesta virknin hefur verið við mynni Eyjafjarðar og í Eyjafjarðarálnum, en 15. september varð skjálfi að stærð 4,6 í Skjálfanda ásamt eftirskjálftum.  Sú virkni stóð þó stutt og hefur dregið úr virkninni. Hrinan stóð hæst dagana 15.-17. september og mældust um 900 skjálftar í sjálfvirka kerfi Veðurstofunnar.

Vel er fylgst með svæðinu og er unnið að sérstökum jarðskjálftamælingum í og við Húsavík. Erfitt er að segja til um framhaldið en ljóst er að skjálftinn 15. september hefur ekki losað þá spennu sem talin er að hafa byggst upp á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu undanfarna áratugi.

Óvissustig almannavarna vegna jarðskjálfta á norðurlandi er í gildi.

Reykjanesskagi

Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni síðustu vikur, en um 100 jarðskjálftar mældust í síðustu viku, samanborðið við 330 vikuna á undan. Virknin hefur færst austar, að Kleifarvatni, á sl. mánuðum. Tveir jarðskjálftar yfir 3 að stærð mældust rétt vestan við Kleifarvatn þann 7. september (M3,3) og 12. september (M3,0) og fundust báðir í nærumhverfi og á Höfuðborgarsvæðinu. Jarðskjálftar af stærð M6,0-M6,5 hafa orðið í Brennisteinsfjöllum á síðustu öld þegar virkni er mikil á Reykjanesskaga. Slíkir skjálftar hafa áhrif á Höfuðborgarsvæðinu.  Veðurstofa Íslands vinnur að gerð sjálfvirkra áhrifakort sem sýna hugsanleg áhrif (tengt Mercalli skala) strax í kjölfarið á jarðskjálftum.  Landris við Þorbjörn sem túlka má sem innskotavirkni hætti um miðjan júlí, en frá því í byrjun árs hafa skipts á tímabil landriss og sigs.  Nú mælist ris við Krýsuvík en það hófst á svipuðum tíma og ris hætti við Þorbjörn. Gasmælingar eru gerðar reglulega á Reykjanesi, en engar marktækar breytingar hafa mælst.

Auk þess var kynnt verkefni sem Veðurstofan leiðir þar sem hættumat vegna eldgosa er gert á utanverðum Reykjanesskaga.  Þar er gert langtímahættumat fyrir þéttbýliskjarna, mikilvæga innviði og fjölsótta ferðamannastaði með tilliti til hraunflæðis, gjóskufalls og gasmengunar.

Óvissustig almannavarna vegna aukinnar virkni á Reykjanesskaga er í gildi.

Grímsvötn

Mælingar á hæð íshellunnar í Grímsvötnum sýna að hún hefur risið jafnt og þétt undafarna mánuði og er vatnshæðin 7,5 m hærri en í byrjun júní.  Aðeins hefur dregið úr rishraða vegna minnkandi yfirborðsleysingar. Vatnshæð í Grímsvötnum er nú áþekk því sem hún var skömmu fyrir jökulhlaupin 2004 og 2010 og hefur ekki verið hærri eftir hlaupið sem Gjálpargosið olli haustið 1996.  Því er líklegt að hlaupi úr Grímsvötnum í haust.

Jarðskjálftavirkni hefur aukist lítillega í september.  Sérstaklega er fylgst með breytingum í Grímsvötnum þar sem aðstæður núna gætu haft þær afleiðingar að eldgos hæfist í kjölfar jökulhlaups, en það gæti einnig hafist án jökulhlaups sem fyrirvara. Frekari mælingar á gasútstreymi og breytingum á yfirborði eins og jarðhita og myndun jarðhitakatla verða gerðar á næstu vikum, en yfirborðsummerki benda til aukins jarðhita við Grímsvötn.

Mýrdalsjökull

Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli er áþekk því sem mælst hefur síðustu ár.  Breytingar á yfirborði íss þar sem fylgst er með sigkötlum var kynnt sem sýnir svipaða hegðun og undanfarin ár

Krafla

Jarðskjálftavirkni í Kröflu er óveruleg en á síðasta ári komu fram merki um landris.  Risið er lítið, en vel er fylgst með þróun þess.

Síðast uppfært: 25. september 2020 klukkan 18:22

Lesa meira

Almannavarnir

Aflýsing óvissustigs vegna norðanhríðar

Birt

on

By

Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórana á Norðurlandi Vestra, Norðurlandi Eystra og Austurlandi hefur aflýst óvissustigi almannavarna vegna norðanhríðar sem gekk yfir landið á fimmtudag og föstudag.

Bændur gripu til aðgerða til að minnka áhættuna á því að fé fennti þar sem mestri hríð var spáð.  Flutnings- og dreifingafyrirtæki á raforku vöktuðu línur, Vegagerðin hélt heiðavegum opnum og björgunarsveitir Landsbjargar voru í viðbragðsstöðu. Allt gekk stóráfallalaust.
Í dag rofar til og hvetur almannavarnadeildin almenning, fyrirtæki og stofnanir til þess að nýta góðviðrisdaga í að huga að lausamunum og öðru sem gæti skapa hættu í komandi haustlægðum. 

Síðast uppfært: 5. september 2020 klukkan 10:59


Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin