Í tilefni starfsloka Helgu Erlendsdóttur, lífeindafræðings og klínísks prófessors við Háskóla Íslands og Landspítala, verður haldið málþing henni til heiðurs en hún verður sjötug í byrjun desember 2019. Málþingið verður föstudaginn 29. nóvember, kl. 14:00-16:30, í Hringsal á Landspítala Hringbraut.

Helga hóf störf á sýkladeild Landspítala árið 1972 en hlé varð árið 1977 er hún fór til Svíþjóðar þar sem hún starfaði til ársins 1984, m.a. að grunnrannsóknum í sýklafræði.  Hún kom aftur á sýkladeild Landspítala það sama ár og hefur unnið þar síðan.

Helga er einn af máttarstólpum rannsókna í sýklafræði hér á landi og hefur komið að fjölmörgum vísindarannsóknum í samstarfi við fjölda lækna. 

Helga hefur ásamt samstarfsfólki verið höfundur tæplega 80 vísindagreina og margra ágripa.  Hefur henni einnig áskotnast fjöldi rannsóknarstyrkja. 

Helga varð klínískur prófessor í fagi sínu, fyrst á sínu sviði.  Helsti styrkur Helgu hefur þó verið að leiða stóran hóp af ungu fólki fyrstu skref þess í vísindum, ein og með öðrum, í bakkalár-, meistara- og doktorsverkefnum. Um er að ræða hátt á sjöunda tug læknanema, lífeindafræðinema og lyfjafræðinema.