Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með Önnu Ekström, menntamálaráðherra Svíþjóðar í Stokkhólmi í vikunni. Markmið heimsóknar ráðherra var að kynna sér árangur nemenda í PISA könnunarprófunum og áherslur Svía í því samhengi. Árangri sænskra nemenda í prófunum hrakaði verulega árið 2012 en með umfangsmiklum aðgerðum og einbeittum vilja tókst Svíum að snúa við blaðinu og náðu sænskir nemendur mjög góðum árangri í prófunum 2018.

„Svíar lögðu megináherslu á tvennt. Annars vegar skýra aðalnámskrá sem tryggir gæði í skólastarfi. Í því samhengi er mikilvægt að menntamálayfirvöld tryggi að skólasamfélagið fái faglegan stuðning til að fylgja henni eftir sem og að foreldrar nemenda hafi þekkingu á námskránni. Hins vegar gerðu Svíar stórátak í markvissri starfsþróun kennara sem skilað hefur miklum árangri. Anna Ekström veitti okkur gagnlega innsýn í uppbyggingu menntakerfisins og hvað raunverulega skipti máli þegar kom að því að styrkja nemendur í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum. Íslensk stjórnvöld hafa mikinn metnað í menntamálum enda er gæðamenntun lykillinn að velsæld framtíðarinnar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í kjölfar birtingar niðurstaðna PISA könnunarprófanna í desember sl. kynnti ráðherra aðgerðir sem miða að því að efla læsi og bæta orðaforða og málskilning íslenskra nemenda. Þær felast meðal annars í að:

• Efla starfsþróun kennara.
• Fjölga kennurum með sérhæfða þekkingu.
• Endurskoða námsefni og fyrirkomulag námsefnisgerðar.
• Stórauka áherslu á orðaforða í öllum námsgreinum.
• Fjölga kennslustundum í íslensku og endurskoða inntak íslenskukennslu.
• Stofna fagráð í læsi, stærðfræði og náttúruvísindum.
• Efla menntarannsóknir.
• Auka væntingar til nemenda.
• Auka samstarf allra hagsmunaaðila.

Unnið verður að útfærslu aðgerða er að þessu miða í góðu samstarfi, meðal annars við skólasamfélagið og sveitarfélögin.