Miklar uppsagnir hjá WOW air og vélum fækkað

Fjölda manns hefur verið sagt upp hjá WOW air í dag og samningar við verktaka verða ekki endurnýjaðir. Tölvupóstur Skúla Mogensen til starfsmanna félagsins er hér fyrir neðan.


Kæru vinir,

Eftir ótrúlegt ferðalag frá því að við stofnuðum Wow air fyrir sjö árum stöndum við nú frammi fyrir stærstu og erfiðustu endurskipulagningu í sögu flugfélagsins, þar á meðal að taka nokkrar mjög erfiðar ákvarðanir.

Þetta felur í sér að fækka verulega í flotanum okkar úr tuttugu í ellefu flugvélar og að taka ekki við fjórum A330neo, draga úr umsvifum okkar í samræmi við það og því harma ég að þurfa að segja upp fjölda fólks.

Þessi aðgerð er reiðarslag í ljósi þess hversu hart þið hafið lagt að ykkur og ég vildi óska þess að önnur leið væri fær. Við höfum litið til fjölda möguleika en því miður er þessi fækkun eina trúverðuga leiðin sem við sjáum til að bjarga Wow air og að byggja grunn sem við getum vaxið á aftur.

Ég harma innilega að þurfa að grípa til þessara harkalegu aðgerða þar sem það hefur áhrif á mörg ykkar, holla Wow-starfsmenn, og fjölda ráðgjafa og tímabundinna starfsmanna. Engu að síður vona ég innilega að þið skiljið að þetta er nauðsynlegt til að bjarga þeim nærri því þúsund störfum sem eru eftir hjá Wow air og gera okkur kleift að halda áfram að fljúga til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið.

Við snúum aftur til róta okkar sem ofurlággjaldaflugfélags og einbeitum okkur að kjarnastarfseminni sem reyndist okkur svo vel á fyrstu árum okkar fram til 2017. Í staðinn fyrir að skerpa á ofurlággjaldaviðskiptalíkani okkar sem byggðist á árangrinum 2015 og 2016 byrjuðum við að flækja reksturinn með því að bæta við breiðþotum og bæta við Premium- og Comfy-vörum sem eru fjarri upphaflegri hugsjón okkar. Í stuttu máli misstum við einbeitinguna og byrjuðum að hegða okkur eins og hefðbundið flugfélag.

Þessi mistök hafa næstum því kostað okkur fyrirtækið þar sem tapið árið 2018 hefur stigmagnast undanfarna mánuði vegna slæmrar fjárhagslegrar afkomu. Það er afar mikilvægt að taka fram að ég kenni engum nema sjálfum mér um þessi mistök þar sem ég barðist persónulega fyrir stækkun flotans með A330-flugvélunum, premium-sætunum og að fljúga lengra austur og vestur.

Þetta er ákaflega sársaukafullur lærdómur vegna þess að á sama tíma höfum við byggt upp eitthvað einstakt með Wow air og þó að þetta krefjist þess að við tökum eitt erfitt skref aftur á bak til skamms tíma litið er ég sannfærður um að það geri okkur kleift að taka tvö skref áfram til lengri tíma litið og tryggi að Wow air dafni til framtíðar.

Að þeim líkindum að við fáum Indigo Partners sem fjárfesti vil ég hverfa aftur til upphaflegrar hugsjónar okkar og sýna fram á að við getum sannarlega byggt upp frábært lágfargjaldafélag á lengri leiðum.

Hvað sem öðru líður vil ég þakka ykkur fyrir og ég vil lofa því að um leið og við byrjum að vaxa aftur verðið þið þau fyrstu sem við bjóðum velkomin aftur.

Það verður haldinn starfsmannafundur klukkan 13:00 í dag og ég sjálfur og stjórnunarteymið verður til staðar í allan dag til þess að svara öllum spurningum og áhyggjum sem þið gætuð haft.

2018-12-13T12:40:12+00:00