Connect with us

Félag atvinnurekenda

Næsta verkefni fyrir OECD – er pólitíski kjarkurinn til staðar?

Birt

þann

26. nóvember 2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á Vísi 26. nóvember 2020.

Skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um samkeppnismat á regluverki ferðaþjónustu og byggingariðnaðar á Íslandi hefur vakið talsverða athygli og umræður. Í skýrslunni, sem var samin að beiðni Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var regluverk þessara atvinnugreina greint með tilliti til þess hvort í því felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi. Niðurstaðan er 438 tillögur OECD um breytingar á gildandi lögum og reglum til að auka samkeppnishæfni greinanna og leysa úr læðingi krafta samkeppninnar í þágu almennings. Stofnunin metur það svo að það myndi auka verðmætasköpun í hagkerfinu um 30 milljarða að hrinda tillögunum í framkvæmd.

Tillögurnar hafa sumar hverjar verið gagnrýndar, enda er stigið á tær hagsmunahópa sem hafa komið sér þægilega fyrir á kostnað virkrar samkeppni. Það er til marks um pólitískan kjark að biðja um skýrsluna og fylgja henni eftir. Drög að fyrsta frumvarpinu, byggðu á tillögum OECD, eru nú þegar komin í samráðsgátt stjórnvalda. Þessi vinnubrögð eru til fyrirmyndar.

Félag atvinnurekenda hefur um árabil talað fyrir því að stjórnvöld leiti samstarfs við OECD um samkeppnismat á öllu regluverki íslenzks atvinnulífs og hefur fagnað mjög þessu fyrsta skrefi í þeirri vinnu. FA hefur í framhaldi af útgáfu skýrslunnar sent Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem situr handan gangsins í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, erindi og hvatt hann til að beita sér fyrir sams konar samkeppnismati OECD á regluverki landbúnaðar og sjávarútvegs.

Samkeppnishindranir í sjávarútvegi
Í bréfinu til ráðherrans bendum við á að lög og reglur um bæði landbúnað og sjávarútveg feli í sér ýmsar samkeppnishindranir. Samkeppnisyfirvöld hafi sent ráðuneytinu og/eða forverum þess ábendingar um þær margar, en úrbótatillögur hafi hlotið lítinn hljómgrunn.

FA rifjar m.a. upp álit Samkeppniseftirlitsins frá 2012 um samkeppnishindranir vegna aðstöðumunar annars vegar útgerða sem ekki stunda fiskvinnslu og fiskvinnslufyrirtækja sem ekki stunda jafnframt veiðar á sjávarafla og hins vegar svokallaðra lóðrétt samþættra sjávarútvegsfyrirtækja, sem bæði stunda veiðar og vinnslu. Þetta er angi af margumræddri tvöfaldri verðlagningu í sjávarútveginum, sem býr til margvísleg vandamál. Stofnunin lagði til fjórar leiðir til úrbóta:

 1. Setja milliverðlagningarreglur þannig að innri viðskipti fiskvinnslu og útgerðar innan sama fyrirtækis væru eins og um óskylda aðila væri að ræða.
 2. Koma í veg fyrir að sjálfstæðu útgerðirnar greiði hlutfallslega hærri hafnargjöld en samþættu útgerðirnar, til dæmis með því að miða við landað magn eða opinbert viðmiðunarverð.
 3. Útgerðarmenn komi ekki með beinum hætti að ákvörðun um verðlagsstofuverð.
 4. Reglur um kvótaframsal verði rýmkaðar þannig að sjálfstæðar fiskvinnslur geti átt veiðiheimildir og séu þannig í betri aðstöðu að ná sér í hráefni.

Tillögum samkeppnisyfirvalda um úrbætur hefur lítt eða ekki verið sinnt.

Undantekningarlítið litið framhjá tilmælum samkeppnisyfirvalda
FA bendir einnig á margvísleg álit, umsagnir og skýrslur samkeppnisyfirvalda vegna regluverks í landbúnaði, en af tillögum Samkeppniseftirlitsins má nefna eftirfarandi:

 • Undanþágur mjólkurafurðastöðva frá ákvæðum samkeppnislaga verði afnumdar.
 • Samkeppnislög gildi fullum fetum í landbúnaði og vinnslu landbúnaðarafurða líkt og í annarri atvinnustarfsemi.
 • Búvörulög verði tekin til heildstæðrar endurskoðunar til að greiða fyrir samkeppni.
 • Bændur séu ekki bundnir í viðskiptum við tilteknar afurðastöðvar, heldur eigi val.
 • Tryggt verði að íslenzkur landbúnaður hafi samkeppnislegt aðhald, m.a. af innflutningi.
 • Felldir verði niður tollar á mjólkurdufti til að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði.
 • Tollar verði felldir niður á svína- og kjúklingakjöti.
 • Útboð á tollkvótum verði felld niður eða kvótunum úthlutað án endurgjalds.

Af upptalningunni má vera ljóst að víða eru í gildi samkeppnishömlur í regluverki sjávarútvegs og landbúnaðar, sem stjórnvöld hafa ekki aðhafzt til að afnema. Raunar segir í einni af skýrslum Samkeppniseftirlitsins, þar sem umbætur í landbúnaði eru til umræðu: „Reynslan sýnir að stjórnvöld hafa undantekningarlítið litið framhjá tilmælum samkeppnisyfirvalda.“

Kjarkur beggja vegna gangsins?
Ætla má, ekki sízt með tilliti til fjölda ábendinga í hinni nýútkomnu skýrslu, að sérfræðingar OECD kæmu jafnvel auga á enn fleiri hindranir í vegi frjálsrar samkeppni en sérfræðingar Samkeppniseftirlitsins. Glöggt er gests augað.

Að mati Félags atvinnurekenda er forgangsatriði að gera samkeppnismat á regluverki umræddra atvinnugreina í því skyni að efla samkeppni og auka þannig skilvirkni, draga úr sóun og bæta hag landsmanna.

Í bréfinu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur fram það mat FA að ekki síður en í ferðaþjónustu og byggingariðnaði sé gífurlegur fjárhagslegur ávinningur af því fyrir Ísland að leyfa ferskum vindum samkeppni að blása í sjávarútvegi og landbúnaði. Nú er bara að sjá hvort pólitíski kjarkurinn er jafnmikill á ráðherraskrifstofunni sem bréfið var stílað á og á kontórnum handan gangsins.

Grein Ólafs á Vísi

Félag atvinnurekenda

Háir fasteignaskattar einn þáttur í flutningum fyrirtækja

Birt

þann

Eftir

11. janúar 2021

Framsetning Viðskiptablaðsins á niðurstöðum úttektar FA. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Viðskiptablaðið fjallar í síðasta tölublaði sínu um úttekt FA á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í 12 stærstu sveitarfélögum landsins. Hún sýndi að þrátt fyrir að Reykjavíkurborg væri í hópi þeirra fjögurra sveitarfélaga, sem lækkuðu fasteignaskatta á fyrirtæki um áramótin, er skattur á atvinnuhúsnæði áfram hæstur í borginni af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Samkeppnisstaða borgarinnar batnar með lækkun
Viðskiptablaðið veltir upp þeirri spurningu hvort hár fasteignaskattur spili inn í ákvarðanir fyrirtækja á borð við Íslandsbanka, Icelandair og Isavia, sem hafa ákveðið að færa höfuðstöðvar sínar frá Reykjavík og til nágrannasveitarfélaga. Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að félagið hafi bent á að samkeppnisstaða Reykjavíkurborgar hafi versnað verulega gagnvart nágrannasveitarfélögum undanfarin ár, þar sem þau hafi lækkað skattprósentuna á meðan borgin hafi haldið henni í lögleyfðu hámarki.

„Reykjavíkurborg er núna, í fyrsta skipti í mörg ár, að lækka fasteignagjöldin á atvinnuhúsnæði. Það bætir samkeppnisstöðu borgarinnar að einhverju leyti gagnvart nágrannasveitarfélögum, sem var orðin býsna slæm. Það breytir samt ekki því að borgin innheimtir áfram hæstu fasteignagjöldin á höfuðborgarsvæðinu.”

Hátt fasteignamat fælir verslun og viðskipti úr miðbænum
Ólafur kveðst þekkja dæmi um að há fasteignagjöld Reykjavíkurborgar hafi spilað stóra rullu í ákvörðun fyrirtækja um að flytja sig um set í nágrannasveitarfélög. Hátt fasteignamat samkvæmt umdeilanlegum álagningastuðlum hafi einnig orðið til þess að fyrirtæki hafi horfið úr miðbænum.

„Fasteignagjöldin hafa því líka spilað inn í það að veikja verslun og viðskipti í miðborginni. Fasteignagjöld eru vissulega þáttur sem maður heyrir að fyrirtæki horfi til því þessi skattur verður alltaf stærri og stærri hluti af rekstrarkostnaði með hækkunum á fasteignamati.”

Enn sem komið er séu þó ekki mörg dæmi sem hægt sé að benda á um að fyrirtæki hafi beinlínis flutt sig um set milli sveitarfélaga vegna hárra fasteignagjalda. „En þetta spilar klárlega inn í þegar, sem dæmi, er verið að taka ákvörðun um staðsetningu fyrir nýjar höfuðstöðvar fyrirtækja,” segir Ólafur.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins: Hár skattur að fæla fyrirtæki úr borginni?
Umfjöllun Viðskiptablaðsins: Fasteignaskattar veikt verslun í borginni

Lesa meira

Félag atvinnurekenda

Tollar, vernd og vörn

Birt

þann

Eftir

7. janúar 2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kjarnanum 7. janúar 2021.

Tveir hagfræðingar, þau Erna Bjarnadóttir, starfsmaður Mjólkursamsölunnar, og Ragnar Árnason, prófessor emeritus, sáu sig knúna til að svara grein undirritaðs sem birtist í Kjarnanum á nýársdag. Ýmis atriði í svörunum virðast á einhverjum misskilningi byggð. Það er leiðinlegt, ekki sízt af því að Erna segist í sinni grein vilja hafa það sem sannara reynist að leiðarljósi. Ég leyfi mér því að svara fáeinum atriðum í þessum skrifum.

Óheftur innflutningur?
Ragnar Árnason segir í fyrsta lagi að undirritaður hafi í greininni talað fyrir „tollfrjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum til landsins“ og að ég sé með „hugmyndir […] um óheftan innflutning á landbúnaðarafurðum frá ESB.“

Nú hef ég lesið mín eigin skrif aftur til að ganga úr skugga um hvort þar hafi verið um einhverja ósjálfráða skrift að ræða, en finn þessum fullyrðingum prófessorsins engan stað. Félag atvinnurekenda, sem ég tala fyrir, hefur tekið undir tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem til var stofnað 2013 í framhaldi af útgáfu skýrslu McKinsey um íslenzkt efnahagslíf, en þær gengu út á að lækka almenna tolla á búvörum um helming og afnema tollvernd á svína- og alifuglakjöti að fullu.

Í greininni tók ég hins vegar til varna fyrir tollasamning Íslands og Evrópusambandsins, sem ýmsir hagsmunaaðilar í landbúnaðinum hafa viljað segja upp. Sá samningur gengur út á fremur takmarkaða fríverzlun með landbúnaðarvörur á milli Íslands og ESB, mjög langt frá einhverju sem hægt er að kalla óheftan innflutning.

Félag atvinnurekenda hefur lagt áherzlu á að í þeim viðræðum við ESB um endurskoðun samningsins, sem utanríkisráðherrann hefur haft frumkvæði að, verði unnið í samræmi við 19. grein EES-samningsins, en þar segir: „Samningsaðilar skuldbinda sig til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.“ 

Tollverndin er ríkust á Íslandi
Bæði Erna og Ragnar leggja mikið upp úr því að öll vestræn ríki, þar á meðal „upplýstustu þjóðir heims“, eins og Ragnar orðar það, leggi tolla á landbúnaðarvörur ekki síður en Ísland. Það hafði ekki farið framhjá mér. Því er hins vegar gjarnan haldið fram að tollverndin hér á landi sé bara ósköp svipuð eða jafnvel minni en í öðrum vestrænum ríkjum, t.d. í Evrópusambandinu.

Nýlega kom út skýrsla starfshóps á vegum atvinnuvegaráðuneytisins, þar sem Bændasamtök Íslands, fyrrverandi vinnuveitandi Ernu, áttu fulltrúa, um þróun tollverndar fyrir landbúnaðarvörur hér á landi. Niðurstaða starfshópsins er að tollvernd fyrir búvörur sé miklu meiri á Íslandi en í flestum öðrum vestrænum ríkjum og hafi heldur aukizt á allra síðustu árum.

Í skýrslunni eru gögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) notuð til að bera saman tollvernd á milli landa og reiknað svokallað NPCc-hlutfall. Það er það verð sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar sem hlutfall af innflutningsverði, þ.e. heimsmarkaðsverði vörunnar auk flutningskostnaðar. Ef hlutfallið er 3 er verð til framleiðenda þrisvar sinnum (200%) hærra en verð á heimsmarkaði, en ef það er einn er verð til framleiðanda jafnt heimsmarkaðsverði. Í samanburðinum er þetta hlutfall reiknað fyrir vegið meðaltal helztu landbúnaðarafurða sem hvert ríki framleiðir.

Niðurstaðan er sú að tollvernd á Íslandi er langt umfram það sem tíðkast að meðaltali í aðildarríkjum OECD, eða 1,77 að meðaltali árin 2017-2019. Það þýðir að afurðaverð til bænda er að jafnaði 77% hærra en innflutningsverð sambærilegrar vöru ef engar hindranir væru á innflutningi. Hlutfallið fyrir Noreg er 1,73, fyrir Sviss 1,42, fyrir OECD í heild 1,12 og fyrir Evrópusambandið er það 1,04. Það þýðir t.d. að í Evrópusambandinu er tollverndin aðeins ígildi um 4%.

Það er því augljóslega talsvert borð fyrir báru að draga úr tollvernd fyrir íslenzkan landbúnað en standast engu að síður samanburð við „upplýstustu þjóðir heims“.

Vill enginn banna innflutning?
Ég fjallaði í grein minni um þann gríðarlega þrýsting sem stjórnvöld hafa verið undir að undanförnu að hefta innflutning á búvörum til að vernda innlendan landbúnað fyrir samkeppni. Erna segir að hvergi hafi verið settar fram kröfur um að banna innflutning á búvörum. Það er ekki rétt hjá henni.

Í frétt Morgunblaðsins 13. nóvember síðastliðinn, undir fyrirsögninni „innflutningur verði stöðvaður“ var þannig haft eftir Ágústi Andréssyni, forstöðumanni kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, að „það eina rétta sé að stöðva innflutning á meðan verið er að vinna úr birgðunum“ sem safnazt hafi upp innanlands.

Fyrrverandi vinnuveitandi Ernu, Bændasamtökin, sendi atvinnuvegaráðuneytinu erindi 30. apríl á síðasta ári og fór fram á að tollkvótar, þ.e. heimildir til tollfrjáls innflutnings, samkvæmt tollasamningi Íslands og ESB yrðu ekki boðnir út fyrir seinni helming ársins. Þannig hefði í raun verið tekið fyrir stóran hluta innflutnings búvara. Ráðuneytið svaraði því erindi réttilega þannig að það væri brot bæði á samningnum og lögum. Engu að síður hafa hagsmunaaðilar í landbúnaðinum áfram haft slíkar kröfur uppi á hendur stjórnvöldum, með óformlegri hætti eftir að formlega leiðin virkaði ekki.

Hvernig hjálpum við landbúnaðinum?
Talsmenn landbúnaðarins, Erna Bjarnadóttir þar með talin, taka gagnrýni Félags atvinnurekenda á viðskiptaumhverfi búvörumarkaðarins gjarnan óstinnt upp og telja félagið andsnúið íslenzkum landbúnaði. Það er fjarri sanni.

FA hefur vissulega gagnrýnt harðlega tillögur um að hjálpa eigi landbúnaðinum, einum atvinnugreina, að bregðast við kórónuveirufaraldrinum með sértækum aðgerðum, sem fela í sér samkeppnishömlur og bitna á hag neytenda. Undir það falla kröfur um breytt útboð tollkvóta, sem stjórnvöld létu undan, um uppsögn tollasamningsins, sem ríkisstjórnin mætti með tillögu um endurskoðun hans, og um undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum, sem er í vinnslu í atvinnuvegaráðuneytinu.

FA hefur hins vegar stutt að bændum sé hjálpað með beinum styrkjum og að rekstaraðilar í landbúnaðinum hafi sama aðgang og öll önnur fyrirtæki að almennum úrræðum vegna kórónuveirukreppunnar, á borð við styrki, lán og greiðslufresti. FA er sömuleiðis þeirrar skoðunar að núgildandi samkeppnislög, sem heimila undanþágur frá banni við samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja ef þau geta m.a. sýnt fram á sanngjarna hlutdeild neytenda í ávinningi af samstarfinu, hljóti að eiga við um kjötiðnað eins og aðrar atvinnugreinar. Ef menn telja þau ákvæði ekki duga, hljóta þeir að hafa áhyggjur af að geta ekki sýnt fram á ávinning neytenda af samstarfinu.

FA er sömuleiðis þeirrar skoðunar að hefðbundinn landbúnaður á Íslandi eigi að njóta stuðnings, en að hann eigi að vera á þeim nótum sem Samráðsvettvangurinn lagði til, þ.e. ekki framleiðslutengdur og markaðstruflandi, heldur fremur tengdur við t.d. ræktun og verndun lands, lífræna ræktun og fjárfestingu, en bændur framleiði síðan það sem þeim sýnist án afskipta ríkisins.

Verzlunarfyrirtækin, sem hafa frá upphafi verið kjarninn í FA, vita mæta vel að verzlunin og landbúnaðurinn þurfa hvort á öðru að halda og vilja gjarnan stuðla að því að efla hag hans, eins og Erna leggur til. En það er tímabært að fara að hugsa hlutina upp á nýtt í íslenzkum landbúnaði. Núverandi stefna hefur gengið sér til húðar og framtíðin ætti fremur að markast af nýsköpun og sókn en varðstöðu um gamla pólitík og sífelldri vörn. Og já, það er mjög gagnlegt að byggja umræðuna á staðreyndum en ekki einhverjum tilbúningi. Þá miðar okkur kannski í áttina.

Grein Ólafs í Kjarnanum

Lesa meira

Félag atvinnurekenda

Verndarstefna fyrir viðskiptafrelsi

Birt

þann

Eftir

3. janúar 2021

Áramótagrein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kjarnanum 1. janúar 2021. 

Þrátt fyrir faraldurinn hefur matvælaframleiðsla um flest gengið sinn gang og með samstilltu átaki fyrirtækja og stjórnvalda um allan heim hefur verið hægt að halda flutningakeðjum órofnum.

Efnahagskreppan, sem skall yfir heimsbyggðina á þessu makalausa ári vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, er sú dýpsta í níu áratugi. Sagan sýnir okkur að í kreppu koma alltaf fram kröfur um verndarstefnu; að stjórnvöld hækki tolla og leggi ýmsar aðrar hömlur á frjáls viðskipti og samkeppni til að vernda innlent atvinnulíf eða tiltekna geira þess. Sagan sýnir okkur líka að það er ævinlega vond hugmynd; þau ríki sem hafa orðið við slíkum kröfum hafa verið lengur að komast út úr kreppunni en þau sem viðhéldu viðskiptafrelsi og samkeppni. En það er engan veginn öllum gefið að læra af sögunni.

Veiran afsökun fyrir verndarstefnu?
Kröfur um verndarstefnu hafa raunar verið háværar frá því í fjármálakreppunni fyrir áratug og ýmis stjórnmálaöfl hafa hagnazt á að taka undir þær. Flokkar og frambjóðendur sem þrífast á lýðskrumi hafa víða um lönd náð fótfestu, meðal annars út á slíkan málflutning sem geldur varhug við hnattvæðingu og alþjóðaviðskiptum. Við þurfum ekki annað en að nefna nöfnin Trump, Johnson og Bolsonaro. Faraldur veirunnar sem þeir smituðust af allir þrír, ásamt milljónum annarra um allan heim, er að sumra mati frábær afsökun fyrir því að hverfa aftur til verndarstefnu.

Við höfum ekki farið varhluta af þessari umræðu hér á landi, en hún afmarkast aðallega við eina atvinnugrein, landbúnaðinn. Því hefur verið haldið fram að heimsfaraldurinn sýni vel að nú þurfi Ísland að gera gangskör að því að vera sjálfu sér nægt um mat í þágu fæðuöryggis og í því skyni eigi að eyða meiri peningum í landbúnaðinn og verja hann betur fyrir samkeppni. Faraldurinn og það efnahagslega högg sem honum fylgir hefur skrúfað upp þrýsting hagsmunaafla í landbúnaðinum á stjórnvöld að snúa við breytingum í átt til frjálsra viðskipta og samkeppni sem átt hafa sér stað á undanförnum árum með því að auka aftur hömlur á innflutning, undanþiggja kjötafurðastöðvar samkeppnislögum og segja upp tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins.

Viðskiptafrelsið tryggir fæðuöryggi
Fæðuöryggisröksemdin gengur reyndar alls ekki upp. Staðreyndin er sú að í verstu farsótt, sem gengið hefur yfir heimsbyggðina í meira en öld, hafa alþjóðaviðskipti með matvæli verið að mestu leyti ótrufluð, þótt stöku vandamál hafi komið upp. Þrátt fyrir faraldurinn hefur matvælaframleiðsla um flest gengið sinn gang og með samstilltu átaki fyrirtækja og stjórnvalda um allan heim hefur verið hægt að halda flutningakeðjum órofnum. Innflutningur á mat til Íslands hefur þannig verið ótruflaður og ekkert neyðarástand vegna vöruskorts komið upp.

Ef flutningar til landsins hefðu lamazt og eingöngu innlend framleiðsla hefði fengizt í búðunum, er hætt við að fáum hefði fundizt þeir búa við fæðuöryggi þegar t.d. allt innflutta grænmetið og ávextina hefði vantað, pastað, kexið og kornmatinn, niðursuðuvörurnar og allt hitt – staðreyndin er sú að af um 1.900 tollskrárnúmerum fyrir landbúnaðarvörur í íslenzku tollskránni innihalda aðeins um 300 vörur sem framleiddar eru hér á landi, enda býður náttúra Íslands ekki upp á mjög fjölbreytta búvöruframleiðslu. Okkar styrkleiki er í sjávarafurðum.

Reyndar hefði fljótlega farið að stórsjá á framboði innlendrar matvöru líka ef flutningar til landsins hefðu stöðvazt, því að hún hefði þá ekki fengið hráefni, áburð, eldsneyti, vélbúnað, varahluti, umbúðir og allt hitt sem þarf að flytja inn til að geta framleitt mat handa neytendum á Íslandi.

Ísland er þannig háð innflutningi um fæðuöryggi sitt og verður aldrei sjálfu sér nægt um allan mat. Fæðuöryggi sitt á Ísland eins og flest önnur ríki undir frjálsum alþjóðaviðskiptum og öflugum, alþjóðlegum aðfangakeðjum sem hafa haldið, þrátt fyrir áföll af völdum heimsfaraldursins. Ef það á að draga einhvern lærdóm af þeim takmörkuðu vandkvæðum sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fyrir alþjóðlegar aðfangakeðjur er það líklega fremur að vera ekki háð einu ríki eða svæði um aðföng, heldur að stunda sem frjálsust viðskipti við sem flesta.

Er gott fyrir Ísland að allir séu sjálfum sér nógir?
Það gleymist líka stundum þegar menn tala fjálglega um að landið eigi helzt af öllu að framleiða sjálft allan mat sem það mögulega getur, að ef sama hugmynd næði fótfestu í öllum löndum væri það alveg svakalega vont fyrir Ísland. Ísland er nefnilega matvælaútflutningsland og flytur miklu meira út af matvælum en það flytur inn. Alþjóðaviðskipti með mat í heiminum nema átta trilljónum Bandaríkjatala og þrír fjórðu hlutar mannkynsins lifa að hluta til á innfluttum matvælum. Þótt bara litlum hluta þessa fólks færi að finnast það slæm hugmynd að borða innfluttan fisk, væri íslenzka hagkerfið í vondum málum.

Stjórnvöld hafa að hluta til látið undan þrýstingi þeirra sem finnst frjáls alþjóðaviðskipti frábær hugmynd þegar þeirra eigin vörur eru fluttar út, en alveg afleitt þegar samkeppnisvörur eru fluttar inn. Segja má að samþykkt frumvarps Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, um að hverfa tímabundið aftur til eldri aðferðar við útboð á tollkvótum fyrir búvörur sé stutt skref til móts við þá sem vildu láta banna innflutning alfarið – sem hefði verið brot á lögum og alþjóðasamningum. Ríkisstjórnin lét heldur ekki undan þrýstingi um að segja upp tollasamningnum við Evrópusambandið, en óskaði eftir viðræðum um endurskoðun hans. Undirbúningur að því að undanskilja enn stærri hluta landbúnaðarins samkeppnislögum er hins vegar augljóslega í gangi.  Og verulegur þungi er áfram í þrýstingnum frá þeim, sem vilja vinda ofan af umbótum í frjálsræðisátt. Lesið bara nefndarálit meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um frumvarp ráðherrans.

Verndum samkeppni og viðskiptafrelsi
Stuðningsaðgerðir stjórnvalda við atvinnulífið hafa að stærstum hluta verið breiðar og almennar; styrkir, gjaldfrestir og lán hafa staðið til boða öllum fyrirtækjum sem uppfylla almenn skilyrði, svo sem um tekjufall af völdum heimsfaraldursins. Stjórnvöld hafa ekki látið hafa sig í að láta undan kröfum um sértæka meðferð fyrir einstakar atvinnugreinar eða fyrirtækjahópa nema í þessu eina tilviki.

Enn betra hefði verið ef þau hefðu staðið í lappirnar og ákveðið strax í upphafi að læra af sögunni og vinna sig út úr kreppunni með meiri samkeppni og frjálsari viðskiptum. Það væri gott ef við ættum stjórnmálamenn sem segðu skýrt: Það sem þarf helzt að vernda er samkeppni og viðskiptafrelsi. Þannig komumst við hraðar út úr erfiðleikunum.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin