Connect with us

Alþingi

Ný bók um þróun kosningaréttar, lýðræðis og jafnréttis á Íslandi

Birt

on

24.10.2020

Konur sem kjósa er heiti bókar um þróun kosningaréttar, lýðræðis og jafnréttis á Íslandi sem kemur út í dag, 24. október, en þann dag eru liðin 45 ár frá kvennafrídeginum 1975. Höfundar verksins eru þær Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Alþingi kostaði ritun og útgáfu bókarinnar. Útgefandi er Sögufélag.

Tilurð bókarinnar má rekja til þess að Alþingi samþykkti 11. mars 2013 ályktun um að hefja undirbúning að því að minnast þess að 19. júní 1915 öðluðust íslenskar konur kosningarrétt. Framkvæmdanefnd 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna sem komið var á fót í samræmi við ályktun Alþingis gerði tillögu að útgáfu rits um þróun kosningaréttar, lýðræðis og jafnréttis á Íslandi. Alþingi tók að sér að tryggja fjármuni til ritunar bókarinnar fram að útgáfuárinu sem ákveðið var að yrði árið 2020. Útgáfuárið miðaðist vitaskuld við þá staðreynd að aldurstakmark laganna frá 1915 var afnumið með nýrri stjórnarskrá sem Alþingi samþykkti í febrúar árið 1920, en þá var kveðið á um að allir, konur og karlar, sem væru 25 ára eða eldri, hefðu kosningarétt.

Í Bókatíðindum segir að ritið sé „stórvirki um íslenskar konur og kosningaréttinn í eina öld, þar sem fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum. Bókina prýðir fjöldi mynda. Áður ósagðar sögur kvenna njóta sín í lifandi texta.“

Útgáfuathöfn hafði verið fyrirhuguð í Alþingishúsinu 24. október en vegna kórónuveirufaraldursins var í staðinn gert myndband sem tekið var upp á þremur stöðum: Alþingi, Bessastöðum og Gunnarshúsi.

Bókin er 783 bls. og um hana segir á baksíðu:

„Í skínandi sólskini og stafalogni kemur fylking kvenna inn á Austurvöll. Fremstar ganga 200 ljósklæddar smámeyjar. Á undan þeim fer hornaflokkur. Torgið hefur verið skreytt fánum og flöggum og mannfjöldinn fylgist með. Sjaldan eða aldrei hafa jafn margar glaðar og prúðbúnar konur verið saman komnar á götum bæjarins. Það er 7. júlí 1915. Íslenskar konur fagna nýfengnum kosningarétti og kjörgengi til Alþingis með ræðum og þakkarávörpum, söng og húrrahrópum.

Konur sem kjósa fjallar um íslenska kvenkjósendur í eina öld. Titillinn vísar til kosningaréttarins en einnig til þess hvernig konur sköpuðu sér rými til að móta eigið líf og samfélagið allt. Sjónum er beint að einu kosningaári á hverjum áratug og þannig teknar ellefu sneiðmyndir af sögu kvenna undanfarin hundrað ár. Fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum. Við sögu koma konur úr öllum stéttum, ungar og gamlar, úr sveit og bæ, húsfreyjur sem börðust fyrir rafmagni, vatnsveitu og heilnæmri mjólk og konur sem brutu blað þegar þær urðu læknar, bílstjórar, veðurfræðingar, snyrtivöruframleiðendur og rafvirkjar. Áður ósagðar sögur kvenna njóta sín í lifandi texta og bókina prýðir fjöldi mynda af konum í leik og starfi í hundrað ár.

Konur sem kjósa er stórvirki sem byggir á áralöngum rannsóknum og samvinnu fjögurra fræðimanna á sviði kvenna- og kynjasögu, stjórnmála- og menningarsögu.

Það eru konur sem eiga orðið í þessari bók.“

Lesa meira

Alþingi

Þingforsetar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hittast á fjarfundi

Birt

on

By

26.11.2020

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hitti þingforseta norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkja á fjarfundi í dag að frumkvæði forseta finnska þingsins, fr. Anu Vehviläinen. Ræddu þingforsetarnir stöðu kórónuveirufaraldursins og viðbrögð þjóðþinganna í löndunum átta en viðsjár eru víða í fjölgun smita.

Þá gerðu forsetarnir grein fyrir þeim málum sem efst eru á baugi í þingunum og þjóðmálaumræðu. Einnig ræddu þátttakendur öryggisógnir, svo sem upplýsingaöryggi, uppgang öfgahyggju og aðrar ógnir. Ennfremur var á dagskrá staða mála á nærsvæðum ríkjanna átta og fluttu tveir finnskir sérfræðingar erindi um stöðu og þróun mála í Hvíta-Rússlandi. Að lokum ræddu þingforsetarnir um sameiginleg verkefni til eflingar lýðræðis og styrkingar þingræðis í Evrópu.

Lesa meira

Alþingi

Nefndadagur föstudaginn 27. nóvember

Birt

on

By

24.11.2020

Föstudaginn 27. nóvember er nefndadagur samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Á nefndadögum gildir sérstök fundatafla um fundi fastanefnda og venja er að fundað sé bæði fyrir og eftir hádegi.

Við ákvörðun um fundatíma á nefndadögum er reynt að gæta samræmis en jafnframt tekið mið af stöðu mála í nefndum og fundaþörf nefndanna.

Fundatafla föstudagsins er eftirfarandi:

  • kl. 9-12: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd
  • kl. 13-16: Fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd, velferðarnefnd

Endanlegir fundartímar og dagskrár funda birtast venju samkvæmt á vef Alþingis.

Lesa meira

Alþingi

Óundirbúnar fyrirspurnir fimmtudaginn 26. nóvember

Birt

on

By

20.11.2020

Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra verða á dagskrá við upphaf þingfundar fimmtudaginn 26. nóvember kl. 10:30. Þá verða til svara forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og dómsmálaráðherra.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin