Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH), Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali undirrituðu 12. janúar 2020 nýtt samkomulag um sérnám í heimilislækningum á Íslandi. Samkomulagið fjallar meðal annars um samstarf þeirra sem að því standa og framkvæmd sérnámsins en 40% af sérnámi sérnámslækna fara fram á sjúkrahúsi.

Samstarf heilsugæslunnar og Landspítala um sérnámið var formgert með samkomulagi 2014 en er nú endurnýjað með ýmsum breytingum.  Ein mikilvægasta breytingin eða viðbótin er sú að nú fylgir því viðauki fyrir starfsnámstíma á hinum ýmsu deildum þ.e. á kvennadeild, bráðadeild, í lyflækningum og á öldrunardeildum, í geðþjónustu og á Barnaspítala Hringsins.  Þar er meðal annars kveðið á um tíma á deildum, hlutverk og ábyrgð klínískra handleiðara og samskipti við sérnámshandleiðara í heilsugæslunni. Markmið samkomulagsins er að skilgreina viðeigandi námskröfur, matskerfi, framvindumat og samskiptaleiðir á milli stofnana er varða sérnámið.

Nú stunda nærri 60 læknar sérnám í heimilislækningum á Íslandi en þar af starfar nærri þriðjungur inni á Landspítala á hverjum tíma.  Árið 2019 útskrifuðust 8 heimilislæknar að loknu fullu námi. 

Samkomulagið nú markar áframhaldandi góða samvinnu heilsugæslunnar og Landspítala sem er báðum mikilvægt enda tilgangurinn að mennta heimilislækna til framtíðar fyrir land og þjóð.  Í samkomulaginu endurspeglast þannig sameiginleg framtíðarsýn samstarfsaðila um heildstæða samhæfða nálgun að öllu sérnámi lækna á Íslandi með viðeigandi framtíðarmönnun heilbrigðiskerfisins í huga.