Connect with us

Stjórnarráðið

Plastmengun, loftslagsmál og orkuskipti í flugi til umræðu á fundi norrænna umhverfisráðherra

Birt

on

Síaukin plastmengun er sá umhverfisvandi sem enn hefur ekki verið tekið á með samtakamætti á alþjóðavísu, en á það atriði leggja umhverfisráðherrar Norðurlandanna mikla áherslu á og kalla eftir nýjum alþjóðlegum samningi. Þau funduðu í dag með rafrænum hætti í ljósi Covid-19 kórónuveirufaraldursins.  Auk plastmengunar voru vistvænar skemmtiferðasiglingar og möguleikar til orkuskipta í flugsamgöngum líka á dagskrá ráðherranna. Þá nýttu þeir einnig fundinn til að fjalla um setningu nýrra landsmarkmiða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 og aukinn metnað í þeim efnum sem nú er til umræðu á alþjóðavísu og meðal Evrópuríkja.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fagnaði yfirlýsingu Evrópuríkja um væntanlegan aukinn metnað í loftslagsmálum og þakkaði norrænum kollegum sínum fyrir að halda þeim áherslum á lofti innan Evrópusambandsins. Hann benti á að orkuskipti í samgöngum væru nú á fleygiferð á Norðurlöndunum og eins stæðu löndin framarlega hvað endurnýjanlega orku varðaði. „En að sama skapi tel ég mikilvægt að auka áherslu á aðgerðir til þess að draga úr losun frá þungaflutningum, sjávarútvegi og landbúnaði.“ Draga þyrfti úr losun innan þessara geira ef uppfylla ætti markmið landanna í loftslagsmálum.

Samkvæmt uppfærðri aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem kom út í júní sl, er gert ráð fyrir meiri samdrætti í losun hér á landi en krafa er gerð um skv. núgildandi skuldbindingum Íslands. Ísland hefur metnað til að auka þær skuldbindingar sínar, en samkvæmt Parísarsamningnum eiga öll ríki að senda inn uppfærð landsmarkmið á 5 ára fresti og er nú unnið að uppfærslu landsmarkmiðs Íslands.

Norðurlöndin hafa frá 2016 talað fyrir samræmdum aðgerðum á heimsvísu til að takast á við plastmengun í hafi. Á fundi sínum í Reykjavík í apríl í fyrra samþykktu ráðherrarnir að hvetja til og vinna að því að koma á fót nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið.

Ráðherrarnir kynntu fyrr í þessum mánuði skýrslu sem norræna ráðherranefndin lét vinna og er þar meðal annars lagt til að mögulegur nýr samningur kveði á um gerð landsbundinna áætlana sem grundvalla skuldbindingar einstakra ríkja. Þess má geta að umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti aðgerðaáætlun vegna plastmengunar hérlendis í september síðastliðnum.

 Á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna í dag samþykktu ráðherrarnir síðan yfirlýsingu þar m.a. er lögð áhersla á að virkja stjórnvöld, atvinnulíf og neytendur í sameiginlegu átaki til að koma í veg fyrir plastmengun, sem og að sett verði sjálfbærniviðmið fyrir plastvörur, sem spanna allan líftíma þeirra.

Danir hafa gegnt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þetta árið og eitt af verkefnum þeirra hefur verið að greina leiðir til notkunar annars eldsneytis en jarðefnaeldsneytis í flugi. Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar ráðherrunum í dag og þær ræddar í kjölfarið. Guðmundur Ingi sagði m.a. að Norðurlöndin væru suðupottur nýjunga á mörgum sviðum loftslagsmála, og þegar kæmi að orkuskiptum í flugi væri mikilvægt að þau tækju fullan þátt í að hraða þeim svo draga megi úr losun í þessum geira. Ísland gæti líka orðið lykilaðili í sölu á vistvænu eldsneyti til flugvéla vegna staðsetningar sinnar í Atlantshafinu, t.d. vetnis. 

Lesa meira

Innlent

Fjallað um Covid-19 og Norðurlönd á opnum fjarfundi samstarfsráðherra

Birt

on

By

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók í dag þátt í pallborðsumræðum á norrænum fjarfundi um Covid-19 og Norðurlönd, sem var liður í formennsku Danmerkur, Færeyja og Grænlands í Norrænu ráðherranefndinni 2020.

Á fundinum var m.a. rætt um þau áhrif sem kreppan af völdum Covid-19 hefur haft á einstök ríki og á norrænt samstarf og álag á stjórnvöld einstakra ríkja, heilbrigðiskerfi, atvinnulíf og einstaklinga. Kaj Leo Holm Johannesen, samstarfsráðherra Færeyja, opnaði fundinn þar sem fram kom að með umræðum eins og þessum gætum við lært af hinni stormasömu tilveru árið 2020, séð hvar samstarfið hefur verið til góðs og safnað reynslu sem nýta má áfram í norrænu samstarfi. 

Sigurður Ingi Jóhannsson lagði áherslu á í sínu innleggi gott samstarf Norðurlandanna á tímum heimsfaraldsins og lagði áherslu á sameiginlega gildi, lýðræði, sjálfbærni og virðingu fyrir mannréttindum og mikilvægi þess að standa vörð um þau á tímum sem þessum. Þá tók hann undir þá hugmund að eftir að mótefni yrði aðgengileg að Norðurlöndin myndu draga úr þeim hindrunum sem upp hafa komið milli landanna á tímum Covid.

Meðal þeirra sem fluttu erindi á þessari ráðstefnu var dr. Hans Kluge, forstjóri WHO í Evrópu, Pál Weihe, prófessor í lýðheilsufræðum í Færeyjum, og Lasse Ilkka, sérfræðingur í finnska heilbrigðisráðuneytinu.

Lesa meira

Innlent

Náttúruminjasafn Íslands fær aðstöðu á Seltjarnarnesi

Birt

on

By

Ríkissjóður hefur gengið frá samningi við Seltjarnarnesbæ um yfirtöku á húsnæðinu við Safnatröð og er verkefnið hluti af fjárfestingarátaki til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Í samræmi við áframhaldandi fjárfestingarátak stjórnvalda er gert ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið fái um 650 m.kr. fjárveitingu í fjárlagafrumvarpi 2021 og fjármálaáætlun 2021-2025 til að standa undir kostnaði við að ljúka framkvæmdum á eigninni undir opinbera starfsemi.

Húsið sem upphaflega átti að hýsa Lækningaminjasafn Íslands hentar að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands með lítilsháttar breytingum. Það er talið hagkvæmari kostur að nýta núverandi hús sem er hálfbyggt og aðlaga það af þörfum safnsins en að hanna og byggja nýtt hús frá grunni.

Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna landsins og var stofnsett með lögum árið 2007 en sögu þess má rekja mun lengra aftur. Safnið ræður ekki yfir eigin húsnæði, hvorki til sýningahalds né annarra starfa, og því brýnt að leysa húsnæðisvanda þess.

Nes á Seltjarnarnesi er álitið vera kjörinn framtíðarstaður fyrir sýningar Náttúruminjasafns Íslands með hliðsjón af nánd við hafið, náttúru svæðisins og menningarsögulegu gildi staðarins.
Framkvæmdasýsla ríkisins mun fara með stjórn verklegra framkvæmda á eigninni og gert er ráð fyrir að það taki um tvö ár að gera húsið tilbúið.

Lesa meira

Innlent

Innlend hjálparsamtök styrkt

Birt

on

By

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að veita samtals 5 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til tíu innlendra hjálparsamtaka sem starfa hér á landi en sú venja hefur skapast á undanförnum árum að ríkisstjórnin styrki slík samtök í aðdraganda jóla.

Um er að ræða Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Íslandi, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Vesturlands, Rauða krossinn á Íslandi og Samhjálp.

Þá hefur félagsmálaráðuneytið styrkt fjölda félaga- og góðgerðarsamtaka til að takast á við afleiðingar kórónuveirunnar á árinu og þau samtök sem hér er getið fengið tæpar 32 milljónir króna í fjárstyrk á árinu frá ráðuneytinu til að mæta afleiðingum faraldursins. 

 

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin