Tæplega 450 leiðtogar víðs vegar að úr heiminum hittust á ráðstefnu í Hörpu dagana 18.-20. nóvember 2019 til að ræða jafnrétti kynjanna og komu tveir fulltrúar í heimsókn á Landspítala í tengslum við það.

Henrike von Platen, stofnandi og forstjóri Fair Pay Innovation Lab í Þýskalandi, stýrði í Hörpu umræðum um launajafnrétti í málstofunni „Striving for zero – how companies eliminate the pay gap between women and men“. Henrike óskaði eftir því að fá að koma í heimsókn til leiðandi stofnana til að kynna sér bestu aðferðir í launajafnréttismálum á Íslandi. Fair Pay Innovation Lab hefur verið fyrirmynd í jafnréttismálum kvenna á alþjóðavettvangi. 

Landspítali var ein af þeim opinberu stofnunum sem Henrike von Platen var sérstaklega bent á og kom hún í heimsókn í kjölfar ráðstefnunnar ásamt Katinka Brose, stefnufulltrúa Fair Pay Innovation Lab. Fulltrúar spítalans miðluðu gestunum reynslu í þeim tilgangi að hún gæti nýst öðrum sem vinna á alþjóðavettvangi að launajafnrétti.

 
Mynd: Henrike von Platen, forstjóri og stofnandi Fair Pay Innovation Lab, Katinka Brose, stefnufulltrúi Fair Pay Innovation Lab og Lúvísa Sigurðardóttir, verkefnastjóri jafnlaunakerfis Landspítala.