Connect with us

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Rafrænar afreksbúðir ÍSÍ

Birt

þann

17.11.2020

Á laugardaginn sl. voru afreksbúðir ÍSÍ haldnar, að þessu sinni með rafrænu sniði. Sérsamböndum ÍSÍ gafst kostur á að tilnefna íþróttafólk úr sínum afrekshópum á aldrinum 15-18 ára. Alls sat íþróttafólk frá 21 sérsambandi fundinn.

Á þessum fyrstu rafrænu afreksbúðum var fjallað um fræðsluefni Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), Athlete 365. Erlingur Jóhannsson prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands fjallaði um svefn og árangur í íþróttum. Í erindi hans var skilgreint hvað felst í hugtakinu svefn og hvers vegna það er mikilvægt að sofa eins og ráðleggingar segja til um, eða 8 til 10 klukkustundir á hverjum einasta sólarhring. Farið var yfir afleiðingar svefnleysis og hvaða þættir í daglegu lífi okkar geta haft neikvæð áhrif á svefnvenjur. Sagt var frá rannsóknum þar sem svefnmynstur íslenskra ungmenna hefur verið skoðað – niðurstöður kynntar og ræddar. Farið var ítarlega í gegnum svefnþörf ungmenna í íþróttum og hvernig þau atriði tengjast líkamlegri sem og andlegri þjálfun. Í lokin var einblínt á hvað ungt íþróttafólk getur gert til að fá nægilega hvíld, sofa vel og þróa til lengri tíma litið góðar svefnvenjur.

Fulltrúi frá Arion banka var svo með erindi um fjármálalæsi ungs fólks. Meðal þess sem farið var yfir er hvað það þýðir að vera fjárráða. Einnig var farið yfir helstu bankahugtök sem mikilvægt er að hafa skilning á við fjárræði, t.d. yfirdráttur, kreditkort og verðbólga. Farið var yfir mikilvægi sparnaðar og hvernig hægt er að nýta séreignarsparnað til að hjálpa sér að kaupa fyrstu eign. Farið var yfir hvernig lán virka og hvað kostar að taka lán samanborið við að spara fyrir hlutunum. 

Fleiri rafrænir fræðslufyrirlestrar verða haldnir fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk sérsambanda ÍSÍ á næstu vikum.

Lesa meira

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Sendiherra Íslands í Japan í heimsókn hjá ÍSÍ

Birt

þann

Eftir

15.01.2021

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan og Axel Nikulásson, sérstakur ráðgjafi utanríkisráðuneytisins funduðu í morgun með Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra, Andra Stefánssyni sviðsstjóra Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ, í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardalnum.

Á fundinum var farið yfir ýmis málefni er tengjast Ólympíuleikunum í Tókýó sem fyrirhugaðir eru dagana 23. júlí til 8. ágúst í sumar. Mikil óvissa er um nánast alla þætti í undirbúningi leikanna, vegna stöðu kórónuveirufaraldursins sem geisar um allan heim þessa stundina og erfitt að sjá fyrir hvaða sviðsmynd verður valin í framkvæmd leikanna þegar þar að kemur. Óvissan gerir allan undirbúning ÍSÍ, viðkomandi sérsambanda ÍSÍ og ekki síst þátttakendurna sjálfa afar ófyrirsjáanlegan og erfiðan.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir ÍSÍ að eiga stuðning sendiráðs Íslands vísan í undirbúningi Ólympíuleika og verður án efa dýrmætt fyrir ÍSÍ að geta leitað til sendiráðsins í Tókýó í aðdraganda leika. Sendiráðið kemur að ýmsum málum er varða til dæmis undirbúning heimsókna háttsettra gesta á leikana en einnig er sendiráðið mikilvægur hlekkur þegar kemur að því að koma á tengslum á milli þjóðanna varðandi íþróttatengd málefni og koma ÍSÍ, Íslandi og íslensku afreksíþróttafólki á framfæri við japönsku þjóðina. Áhugi Íslendinga á Japan, japönsku og japanskri menningu er mikill og er það gagnkvæmt. Kemur það m.a. sterkt fram í samstarfi háskóla landanna beggja og vinsælda japönsku hjá íslenskum háskólanemum.

Axel Nikulásson ráðgjafi í utanríkisráðuneytinu hefur verið tengiliður viðkomandi sendiráðs við ÍSÍ á tvennum Ólympíuleikum, þ.e. í Peking árið 2008 og í London 2012 og þekkir því vel þau verkefni sem geta fallið í skaut sendiráðanna í aðdraganda leika og á meðan leikarnir standa yfir. 

ÍSÍ hlakkar til samstarfsins við sendiráðið í Japan næstu vikur og mánuði.

Lesa meira

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Íþrótta- og tómstundastyrkur vegna áhrifa af Covid-19

Birt

þann

Eftir

14.01.2021

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til þess að vekja athygli á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum sem hægt er að sækja um fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum. Markmiðið er að jafna tækifæri til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Hægt er að sækja um styrki til og með 1. mars 2021.

Styrkirnir eru óháðir hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaga. Styrkirnir eru veittir vegna barna sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru lægri en 740.000 kr. að meðaltali á mánuði á tímabilinu mars-júlí 2020. Styrkurinn er 45.000 kr á hvert barn og er talið að um 13.000 börn á landinu öllu eigi rétt á styrknum. Afreiðsla styrkumsókna er á höndum sveitarfélaga landsins.Styrkina er m.a. hægt að nýta til niðurgreiðslu á þátttökugjöldum vegna íþróttaiðkunar. Sveitarfélög setja reglur um úthlutun stykjanna og getur fyrirkomulag verið breytilegt.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar má sjá hér.

Hér má sjá myndbönd vegna styrksins, sem útbúin hafa verið á fjölda tungumála.

Lesa meira

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Vorfjarnám – Þjálfaramenntun ÍSÍ

Birt

þann

Eftir

12.01.2021

Vorfjarnám 1. 2. og 3. stigs Þjálfaramenntunar ÍSÍ hefst mánudaginn 1. feb. nk. og tekur það átta vikur á 1. stigi en fimm vikur á 2. og 3. stigi. Námið er almennur hluti menntakerfisins og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Sérgreinaþátt þjálfaramenntunarinnar sækja þjálfarar hjá viðkomandi sérsambandi ÍSÍ hverju sinni. 

Nám allra stiga er allt í fjarnámi, engar staðbundnar lotur. Námið hefur verið afar vinsælt til fjölda ára og þátttakendur komið frá mörgum íþróttagreinum. Námið veitir réttindi til íþróttaþjálfunar og jafnframt rétt til áframhaldandi náms til frekari réttinda.

  • Þátttökugjald á 1. stig er kr. 34.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin í því verði.
  • Þátttökugjald á 2. stig er kr. 28.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin.
  • Gjaldið á 3. stig er kr. 40.000.-

Athugið að þeir nemendur/þjálfarar sem koma frá Fyrirmyndarfélögum/-deildum ÍSÍ fá 20% afslátt af námskeiðsgjaldi.

Skráning er rafræn og þarf henni að vera lokið fyrir mánudaginn 1. feb. Rétt til þátttöku á 1. stigi hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.

Slóð á skráningu á öll stig í sumarfjarnámi þjálfaramenntunar ÍSÍ 2020.

Allar nánari uppl. um fjarnámið og þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson í síma 460-1467 og 863-1399 eða á [email protected]

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin