Connect with us

Samtök Atvinnulífsins

Raunveruleikinn

Birt

þann

Raunveruleikinn

Heimsfaraldurinn og sóttvarnaraðgerðir leggjast þyngst á ferðaþjónustu. Í alþjóðlegum samanburði eru fá ríki sem treysta eins mikið á ferðaþjónustu og Ísland. Nóg er að líta yfir íslenskar hagtölur til að átta sig á hversu alvarleg staðan er. Samdráttur í landsframleiðslu mælist nú meiri en í bankahruninu, atvinnuleysi hefur aldrei mælst hærra og nú stefnir í að 30 þúsund manns verði án atvinnu um áramótin.

Áhrif kreppunnar hér heima eru þung í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Því skýtur skökku við að laun á Íslandi séu ekki aðeins ein þau hæstu í heimi heldur séu launa- hækkanir mun hærri en þær sem við sjáum meðal flestra vestrænna ríkja.

Á öðrum ársfjórðungi hækkuðu laun hér á landi um 6,5% milli ára en til samanburðar hækkuðu laun að meðaltali um 1,9% á hinum Norðurlöndunum. Á sama tíma er atvinnuleysi hér eitt það hæsta í Evrópu. Ekki alls kostar ósvipað þeim atvinnuleysistölum sem við sjáum í syðri hluta álfunnar. Fyrir vinnuaflsfreka atvinnugrein eins og ferðaþjónustu kemur hár launakostnaður beint niður á áfangastaðnum Íslandi, sem er í beinni samkeppni um ferðamenn við önnur lönd.

Við vonum öll að sterkur efna- hagsbati taki við þegar faraldurinn er á enda. Við vitum hins vegar að slíkur bati gerist ekki án vaxtar ferðaþjónustu. Þó að íslensk náttúra sé sú fallegasta í heimi, þá má finna náttúruperlur víða. Samkeppnin er hörð. Fleiri ríki ætla að treysta á uppgang ferðaþjónustu þegar faraldurinn líður undir lok.

Þegar rætt er um mikilvægi þess að standa vörð um störf, er það ekki úr lausu lofti gripið. Aðgerðir í þá veru munu skila okkur betri lífskjörum og tryggja fleirum vinnu, fyrr en ella. Það er ekki eftirsóknarverð staða að vera hálaunaríki með eitt hæsta stig atvinnuleysis meðal vestrænna ríkja.

Hvernig sjáum við fyrir okkur að snúa þeirri stöðu við?

Samtök Atvinnulífsins

Leggja áherslu á ábyrga ráðstöfun

Birt

þann

Eftir

Leggja áherslu á ábyrga ráðstöfun

Samtök atvinnurekenda á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum leggja áherslu á ábyrga ráðstöfun þess fjár sem varið verður til endurreisnar atvinnulífsins í Evrópu. Þetta er meðal þess sem fram kom í ályktun forseta samtakanna sem samþykkt var á fjarfundi sem fram fór í vikunni.

Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA tóku þátt í fundinum. Gestir fundarins voru Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðar ESB, Anna Hallberg viðskiptaráðherra Svíþjóðar og Simon Coveney utanríkisráðherra Írlands. 

Hér má nálgast ályktun fundarins.

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs

Birt

þann

Eftir

Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs

Til að hægt sé að auka framleiðslugetu hagkerfisins, skapa nýjar stoðir útflutnings og fjölga störfum til að byggja undir aukinn kaupmátt heimila þarf að fjárfesta í innviðum og framleiðslutækjum. Arðbær fjárfesting er undirstaða framtíðarhagvaxtar. Nauðsynlegt er því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem kunna að standa í vegi aukinnar fjárfestingar. Þannig verður stutt við áframhaldandi lífskjaravöxt. 

Fjárfesting í lægð fyrir farsótt 

Á árunum fyrir fjármálahrun var mikill kraftur í fjárfestingu enda hagvöxtur mikill. Fjárfesting og hagvöxtur haldast jafnan í hendur. Snarpur samdráttur varð í fjárfestingu í kjölfar hrunsins og varð framlag hennar til hagvaxtar neikvætt um frá 2007 til 2010. Fjárfesting tók við sér á ný í takt við endurreisn efnahagslífsins en náði þó ekki fyrri krafti áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Enn frekari samdráttur varð árið 2020 en ætla má að samdrátturinn nemi 18% milli ára. Það er hins vegar ljóst að þegar var tekið að hægja á. Áhrif veirunnar voru til að reka smiðshöggið á þróun síðustu ára. 

Hið opinbera dregur áfram vagninn en meira þarf til 

Allajafna eru það atvinnuvegirnir sem fara fyrir megninu af fjárfestingu í hagkerfinu. Síðustu misseri hafa hið opinbera og íbúðafjárfesting hins vegar dregið vagninn. Í ljósi þess að stjórnendur fyrirtækja vænta ekki mikilla fjárfestinga á næstunni og fyrirséð er að enn muni draga úr íbúðafjárfestingu má ætla að hið opinbera muni bera uppi vöxt fjárfestingar á næstu misserum. Þrátt fyrir boðað fjárfestingarátak hins opinbera er þó ekki útlit fyrir að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nái langtímameðaltali á næstu árum. 

Ísland er gott en margt má bæta 

Í alþjóðlegum samanburði kemur Ísland sæmilega út þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja, enda með sterka innviði og hátt menntunarstig. Ísland er hins vegar eftirbátur samanburðarríkja þegar kemur að milliríkjaviðskiptum, öflun byggingarleyfa og öflun lánsfjár. Þá telst íslenska skattkerfið lítt samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Fjöldi tvísköttunarsamninga er aðeins tæpur helmingur á við það sem þekkist á Norðurlöndum. Tækifæri til umbóta í fjárfestingarumhverfi liggja víða. 

Mörg jákvæð skref hafa verið stigin að undanförnu í því skyni að örva fjárfestingu hérlendis. Þar ber hæst stóraukinn stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargeira. Slíkur beinn stuðningur er jákvæður og til þess fallin að auka hagsæld þegar fram líða stundir. Mestu máli skiptir þó að skapa almennt hagfelld skilyrði fyrir rekstur og þar af leiðandi fjárfestingu og atvinnusköpun

Um árlegan Skattadag SA, Deloitte og Viðskiptaráðs 

Skattadagurinn er haldinn árlega í góðu samstarfi Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands. Viðburðurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni. 

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, ræddi um hindranir í vegi fjárfestinga líkt og má sjá í samantektinni hér að ofan, á fundinum. Á meðal annarra ræðumanna voru Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Hrefna Björk Sverrisdóttir, eigandi veitingastaðarins Rok á Skólavörðustíg, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis, Haraldur I. Birgisson, meðeigandi í Deloitte og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.

Hér má horfa á þáttinn sem var klukkustund að lengd.

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Við áramót

Birt

þann

Eftir

Við áramót

Enn og aftur eru Íslendingar minntir á óblíð náttúruöflin sem ollu þungum búsifjum á Seyðisfirði skömmu fyrir jól. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með æðruleysi og samstöðu íbúanna á erfiðum tímum. 

Fyrir liggur að stjórnvöld munu styðja við uppbyggingu bæjarins og aðstoða íbúana eins og kostur er og öflugt atvinnulíf verður sem fyrr í hliðstæðum atburðum hluti af þeirri endurreisn sem framundan er.

 

Atburðirnir verða í miðri einni verstu samfélagsröskun og efnahagskreppu sem Ísland hefur gengið í gegnum á síðari tímum. Kreppu sem enn er ekki ljóst hvenær linnir. Kórónuveiran hefur leitt yfir heimsbyggðina heilsuvá sem á enga sína líka þótt mætir læknar hafi varað við því að hætta sem þessi væri til staðar. 

 

Á sama hátt og íbúarnir á Seyðisfirði hefur öll þjóðin sýnt samstöðu við að takmarka útbreiðslu veirunnar og fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda sem hafa verið mörgum þungbær. Árangurinn er sá að smit eru nú færri hér en í nálægum löndum.

Tækni og vísindi munu leiða okkur út úr þessum erfiðleikum og kreppunni mun ljúka smám saman þegar bólusetningu vindur fram bæði hér á landi og annars staðar. Stjórnvöld munu einskis láta ófreistað að tryggja að nægt bóluefni berist hratt og örugglega svo áhrif veirunnar fjari út hér á landi sem fyrst. Þau geta treyst á að einkafyrirtæki eru fús að leggja sitt  af mörkum til að svo geti orðið.

Hér á landi hefur efnahagssamdráttur orðið meiri en víða annars staðar, ördeyða hvílir yfir rekstri fjölmargra fyrirtækja og tugþúsundir landa okkar eru alveg eða að hluta án atvinnu. Kreppan bitnar þannig bæði á almenningi og fyrirtækjum.

Leiðin til uppbyggingar hagkerfisins að nýju er vel þekkt og grundvallast á frekari fjölbreytni og eflingu atvinnulífsins. Aukinn styrkur og fjölbreytni fæst með frumkvæði einstaklinga sem taka áhættu með stofnun eigin fyrirtækja og stunda nýsköpun, vöruþróun og markaðssókn. Jafnframt þarf að koma til aukin fjárfesting, áhersla á menntun, vísindi, rannsóknir og markaðssókn. Allt þetta leiðir til aukinnar verðmætasköpunar.

 

Ný störf verða til, atvinnuleysi minnkar, skatttekjur ríkis og sveitarfélaga aukast – efnahagslífið kemst á skrið.

Undir alla þessa þætti geta stjórnvöld ýtt og hraðað þannig efnahagsbatanum.

 

Engin von er þó til þess að unnt sé að auka skattbyrði fólks og fyrirtækja. Leiðin til að auka skatttekjur ríkisins er styrkara atvinnulíf og aukin atvinna. Leiðin er ekki sú að skattleggja okkur út úr vandanum.

Íslendingar hafa áður sýnt að þeir geta unnið sig út úr kreppu með skynsamlegri og uppbyggilegri stefnu þar sem atvinnulífinu er treyst til að gera það sem það gerir best. Það er að skapa aukin verðmæti og útflutningstekjur.

 

Atvinnulífið vill vinna með stjórnvöldum bæði í viðureigninni við Covid-19 og að framtíðaruppbyggingu þar sem einstaklingsframtak, fjölbreytni og samvinna fær að njóta sín.

 

Samtök atvinnulífsins óska félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum nær og fjær góðs árs og friðar.

 

Eyjólfur Árni Rafnsson,
formaður Samtaka atvinnulífsins

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin