Connect with us

Samtök Atvinnulífsins

Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs

Birt

þann

Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs

Til að hægt sé að auka framleiðslugetu hagkerfisins, skapa nýjar stoðir útflutnings og fjölga störfum til að byggja undir aukinn kaupmátt heimila þarf að fjárfesta í innviðum og framleiðslutækjum. Arðbær fjárfesting er undirstaða framtíðarhagvaxtar. Nauðsynlegt er því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem kunna að standa í vegi aukinnar fjárfestingar. Þannig verður stutt við áframhaldandi lífskjaravöxt. 

Fjárfesting í lægð fyrir farsótt 

Á árunum fyrir fjármálahrun var mikill kraftur í fjárfestingu enda hagvöxtur mikill. Fjárfesting og hagvöxtur haldast jafnan í hendur. Snarpur samdráttur varð í fjárfestingu í kjölfar hrunsins og varð framlag hennar til hagvaxtar neikvætt um frá 2007 til 2010. Fjárfesting tók við sér á ný í takt við endurreisn efnahagslífsins en náði þó ekki fyrri krafti áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Enn frekari samdráttur varð árið 2020 en ætla má að samdrátturinn nemi 18% milli ára. Það er hins vegar ljóst að þegar var tekið að hægja á. Áhrif veirunnar voru til að reka smiðshöggið á þróun síðustu ára. 

Hið opinbera dregur áfram vagninn en meira þarf til 

Allajafna eru það atvinnuvegirnir sem fara fyrir megninu af fjárfestingu í hagkerfinu. Síðustu misseri hafa hið opinbera og íbúðafjárfesting hins vegar dregið vagninn. Í ljósi þess að stjórnendur fyrirtækja vænta ekki mikilla fjárfestinga á næstunni og fyrirséð er að enn muni draga úr íbúðafjárfestingu má ætla að hið opinbera muni bera uppi vöxt fjárfestingar á næstu misserum. Þrátt fyrir boðað fjárfestingarátak hins opinbera er þó ekki útlit fyrir að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nái langtímameðaltali á næstu árum. 

Ísland er gott en margt má bæta 

Í alþjóðlegum samanburði kemur Ísland sæmilega út þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja, enda með sterka innviði og hátt menntunarstig. Ísland er hins vegar eftirbátur samanburðarríkja þegar kemur að milliríkjaviðskiptum, öflun byggingarleyfa og öflun lánsfjár. Þá telst íslenska skattkerfið lítt samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Fjöldi tvísköttunarsamninga er aðeins tæpur helmingur á við það sem þekkist á Norðurlöndum. Tækifæri til umbóta í fjárfestingarumhverfi liggja víða. 

Mörg jákvæð skref hafa verið stigin að undanförnu í því skyni að örva fjárfestingu hérlendis. Þar ber hæst stóraukinn stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargeira. Slíkur beinn stuðningur er jákvæður og til þess fallin að auka hagsæld þegar fram líða stundir. Mestu máli skiptir þó að skapa almennt hagfelld skilyrði fyrir rekstur og þar af leiðandi fjárfestingu og atvinnusköpun

Um árlegan Skattadag SA, Deloitte og Viðskiptaráðs 

Skattadagurinn er haldinn árlega í góðu samstarfi Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands. Viðburðurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni. 

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, ræddi um hindranir í vegi fjárfestinga líkt og má sjá í samantektinni hér að ofan, á fundinum. Á meðal annarra ræðumanna voru Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Hrefna Björk Sverrisdóttir, eigandi veitingastaðarins Rok á Skólavörðustíg, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis, Haraldur I. Birgisson, meðeigandi í Deloitte og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.

Hér má horfa á þáttinn sem var klukkustund að lengd.

Samtök Atvinnulífsins

Gerbreytt umhverfi

Birt

þann

Eftir

Gerbreytt umhverfi

Það er hlutverk ríkisins að tryggja umgjörð um fjármálakerfið sem dregur úr óhóflegri áhættu og kostnaði skattgreiðenda. Ríkið átti vitaskuld að gegna þessu sama hlutverki fyrir rúmum áratug, en brást. Ísland var ekkert einsdæmi hvað það varðar. Dæmin mátti finna víða. Af þessum sökum er er skiljanlegt að margir telji að forsenda fyrir áframhaldandi stöðugleika í íslenska fjármálakerfinu sé að ríkið fari með ríkjandi eignarhlut í bankakerfinu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkið er meirihlutaeigandi í bankakerfinu á Íslandi. Eftir gjaldþrot Íslandsbanka árið 1930 var grunnur lagður að bankakerfi með þremur stórum bönkum í ríkiseigu, Útvegsbankanum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Í hálfa öld var bankakerfið að stórum hluta í höndum ríkisins. Á þeim tíma urðu litlar framfarir í íslenskum fjármagnsviðskiptum.

Eignarhald ríkisins reyndist engin trygging fyrir því að bankarnir kæmust hjá fjárhagsvandræðum. Seint á níunda áratug síðustu aldar varð Útvegsbankinn gjaldþrota. Bankinn var í framhaldinu endurreistur af ríkinu í formi hlutafélags og sameinaðist Alþýðubankanum, Iðnaðarbankanum og Verslunarbankanum í Íslandsbanka árið 1990. Bankinn var öflugur og veitti ríkisbönkunum harða samkeppni sem þeir höfðu ekki búið við áður.

Lán í óláni

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat sem svo að hreinn kostnaður ríkissjóðs við fall bankanna þriggja í fjármálahruninu 2008 hefði verið 19 prósent af landsframleiðslu. Sá kostnaður var að fullu endurheimtur og vel það m.a. með tilkomu stöðugleikaframlaga slitabúa. Tap fyrrum eigenda og kröfuhafa bankans nam aftur á móti þúsundum milljarða króna.

Það var því lán í óláni að eignarhaldið var ekki í höndum ríkisins þegar alþjóðlega fjármálakreppan skall á fyrir rúmum áratug. Nú þegar umgjörð bankakerfisins hefur tekið miklum breytingum, með stífari reglum og hertu eftirliti, er einmitt tímabært að losa um eignarhlut ríkisins í íslensku bankakerfi. Ríkissjóður á ekki að standa í áhættusömum bankarekstri. Við erum reynslunni ríkari. Umhverfið er gerbreytt. Tíminn til að sleppa takinu er núna.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Mikilvægu stefnumáli fylgt úr hlaði

Birt

þann

Eftir

Mikilvægu stefnumáli fylgt úr hlaði

Síðastliðið vor lagði Bankasýsla ríkisins fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja söluferli að eignarhlut sínum í Íslandsbanka. Viku eftir að tillagan var lögð fram dundi sögulegt áfall yfir hlutabréfamarkaði víða um heim og var hún því dregin til baka. Nú hefur Bankasýslan metið sem svo að ákjósanlegur tími sé til að kanna á ný hvort ásættanlegt verð gæti fengist fyrir um fjórðungshlut í bankanum.

Það er tæpast hægt að segja að málið hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti líkt og fram kom í máli nokkurra þingmanna í vikunni. Að minnsta kosti ekki fyrir þá sem á annað borð hafa kært sig um að kynna sér það. Þvert á móti hefur tillaga Bankasýslunnar, sem komið var á fót árið 2009, átt sér áralangan aðdraganda. Það hefur verið skýr stefna núsitjandi ríkisstjórnar að draga úr vægi hins opinbera í fjármálakerfinu enda heyrir það til undantekninga að þróuð ríki séu meirihlutaeigendur að bankakerfinu. Mikil og vönduð vinna hefur farið fram á kjörtímabilinu, meðal annars með gerð Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Hundruð blaðsíðna um efnið liggja fyrir og fjölmargar ræður í þingsal verið fluttar.

Þess er vert að geta að öll önnur vestræn ríki hafa komist að þeirri niðurstöðu að afskipti ríkisvaldsins af bankakerfinu eigi fyrst og fremst að fara fram í gegnum regluverk og eftirlit en ekki eignarhald. Veigamesta ástæða þess að ríkið sé óheppilegur eigandi að bönkum er sú að áhættusamur samkeppnisrekstur á einfaldlega ekki erindi í efnahagsreikning ríkissjóðs. Slíkur rekstur felur í sér óásættanlega áhættu fyrir skattgreiðendur og óeðlileg afskipti ríkisvaldsins af samkeppnismarkaði.

Má selja banka í miðjum heimsfaraldri?

Fáa hefði grunað síðastliðið vor að fjármálamarkaðir myndu standa storminn eins vel af sér og raun ber vitni. Aðgerðir yfirvalda víða um heim hafa leitt til þess að hlutabréfaverð er víða í hæstu hæðum. Hið sama gildir á Íslandi. Margir óttuðust um stöðugleika bankakerfisins en íslensku viðskiptabankarnir standa styrkum fótum þrátt fyrir hið þunga högg heimsfaraldursins. Hlutabréfaverð Arion banka hefur raunar aldrei verið hærra, sem er skýrasta og augljósasta birtingarmynd þess að hagfelld skilyrði séu til sölu hlutar í Íslandsbanka.

Fyrir þá sem hafa áhyggjur af því að verið sé að fórna framtíðararðgreiðslum er vert að hafa í huga að ríkið mun eftir sem áður vera viðtakandi nær allra þeirra arðgreiðslna sem koma munu til frá bönkunum tveimur þar til annað er ákveðið. Að því sögðu eru arðgreiðslur í framtíð sem tveir fuglar í skógi á meðan afrakstur sölu hluta er fugl í hendi. Arðgreiðslur liðinna ára, sem einkennst hafa af sölu eigna í kjölfar bankahrunsins, heyra sögunni til. Væntingar um framtíðararðsemi eru hins vegar grundvöllur virðismats þess hlutar sem boðinn verður til sölu.

Verður nýjum eigendum treystandi?

Ýjað hefur verið að því að nýir eigendur Íslandsbanka gætu viljað knýja fram fjöldagjaldþrot í ferðaþjónustu til að minnka óvissu um lánasafn bankans. Fyrir utan þá staðreynd að ríkið verður eftir sem áður stór meirihlutaeigandi bankans eru slíkar aðdróttanir hæpnar í ljósi þess að engri óvissu yrði eytt með því að ganga að veðum í stórum stíl í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Hversu mikils virði eru annars eignir atvinnugreinar sem enn er í frosti? Um það hlýtur að ríkja þó nokkur óvissa. Hagsmunum eigenda bankans hlýtur að vera betur borgið með því að unnið sé að farsælli endurræsingu fyrirtækja viðskiptavina um leið og birtir til.

Almennt útboð hluta, eins og Bankasýslan leggur til, er vel til þess fallið að tryggja opið og gagnsætt söluferli. Engin ástæða er til annars en að ætla að eignarhald bankanna muni samræmast þeim ströngu lögum og reglum sem um það gilda. Þá eru í gildi lög frá árinu 2012 sem fjalla sérstaklega um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni að til séu þeir, sem munu líklega aldrei telja réttan tíma til sölu bankans, sem leggi sig fram við að rýra traust almennings á bankakerfinu og mögulegum framtíðareigendum þess. Ætla mætti að það væri gert einmitt í þeim tilgangi að viðhalda eignarhlutnum í skauti ríkissjóðs um ókomna tíð.

Þarft skref inn í framtíðina

Að sjálfsögðu ríkir óvissa um lánabók bankans. Útlánastarfsemi er í eðli sínu áhætturekstur. Það er staðreynd sem fæst ekki breytt, óháð því hver lánveitandinn er. Lykilspurningin er hvort unnt verði að fá ásættanlegt verð fyrir eignarhlutinn í bankanum með tilliti til þeirrar áhættu sem við blasir. Munu vera kaupendur að hlutnum á því verði sem ríkissjóður er tilbúinn til að láta hann af hendi? Til að fá svar við þeirri spurningu þarf að leggja af stað í leiðangurinn.

Með sölu væri fyrsta skrefið stigið í átt að dreifðara og heilbrigðara eignarhaldi á bankakerfinu, nú þegar það stendur frammi fyrir miklum áskorunum meðal annars vegna stórstígra tækniframfara. Ríkissjóður gæti samhliða dregið úr lánsfjárþörf og minnkað áhættu á efnahagsreikningi sínum. Nýr valmöguleiki yrði til staðar fyrir almenning til að ávaxta sinn sparnað í því lágvaxtaumhverfi sem nú ríkir. Kostirnir eru margir og ótvíræðir.

Þeir sem telja að eignarhaldi bankakerfisins sé best fyrir komið hjá ríkissjóði mega gjarnan vera heiðarlegir með það svo hægt sé að eiga þá umræðu grímulaust. Þeim sem hyggjast aftur á móti bíða af sér óvissuna þegar kemur að sölu á hinum umfangsmikla eignarhlut ríkisins í fjármálakerfinu má benda á hið augljósa, sem er það að biðin mun reynast óendanleg.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Markaðnum.

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Rafrænar þinglýsingar verða að veruleika á árinu

Birt

þann

Eftir

Rafrænar þinglýsingar verða að veruleika á árinu

Rafrænar þinglýsingar verða að veruleika á árinu 2021. Þetta kom fram í máli Andra Heiðars Kristinssonar, leiðtoga verkefnisins Stafræns Íslands á fundi sem Samtök fjármálafyrirtækja stóðu meðal annars fyrir fyrr í dag. Rafrænar þinglýsingar eru lykilþáttur í að Íslandi verði fremst í flokki í stafrænni stjórnsýslu. Þjóðhagslegur ávinningur er mikill og er að lágmarki metinn á bilinu 1.2-1.7 milljarðar króna á ári, samkvæmt útreikningum Stafræns Íslands. Ávinningurinn er þó fyrst og fremst sparnaður á tíma hjá sýslumönnum, lánastofnunum, fasteignasölum og almenningi.

Áhersla stjórnvalda á innleiðingu stafrænna lausna er skref í rétta átt að sjálfsögðum aðgangi  einstaklinga og fyrirtækja að opinberri þjónustu sem felur í sér mikið hagræði, að mati Samtaka atvinnulífsins. Í því samhengi má taka dæmi af þinglýsingum í nágrannalöndum á borð við Danmörku og Bretland. Þar er ferlið þegar rafrænt og tekur ekki lengri tíma en nokkrar mínútur. Hér á landi hefur móttaka, þinglýsing, afgreiðsla, aflýsing og afhending þinglýstra skjala farið fram á skrifstofu embættis sýslumanns sem tekur í mörgum tilvikum margar vikur að afgreiða erindið. Sú breyting sem nú er boðuð er þannig framfaraskref í átt að því sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Verkefnið Stafrænt Ísland, sem heldur utan um framkvæmd verkefnisins, er talið geta sparað allt að 4 milljarða króna á ári með stafrænni umbyltingu í hvers kyns þjónustu hins opinbera. Á fundinum í dag kom fram að markmiðið sé að Ísland verði komið í hóp fimm efstu þjóða í stafrænni þjónustu samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum innan fimm ára.

Hér er hægt að horfa á fundinn í heild.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin