Connect with us

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Sigurgeir Guðmannsson Heiðursfélagi ÍSÍ látinn

Birt

þann

04.01.2021

Sigurgeir Guðmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) og Heiðursfélagi ÍSÍ, lést á Vífilsstöðum miðvikudaginn 30. desember sl., 93 ára að aldri. Sigurgeir var framkvæmdastjóri ÍBR í 42 ár, frá árinu 1954-1996 og eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri hélt hann áfram að sinna verkefnum fyrir bandalagið þar til nú allra síðustu árin þegar líkamlegri heilsu hans hafði hrakað. Sigurgeir var jafnframt fyrsti framkvæmdastjóri Laugardalshallarinnar árin 1965-1969 og framkvæmdastjóri Íslenskra getrauna í 15 ár, árin 1969-1984. Sigurgeir lék knattspyrnu með yngri flokkum Knattspyrnufélags Reykjavíkur (KR) og árið 1951 sneri hann sér að þjálfun yngri flokka félagsins og var virkur þjálfari í áratugi. Hann þjálfaði einnig meistaraflokk KR, sem vann til allra verðlauna sem í boði voru í hans þjálfaratíð, þar á meðal Íslands- og bikarmeistaratitil árið 1963.

Sigurgeir var leiðtogi í íþróttastarfi allt sitt líf, ekki bara sem starfsmaður heldur einnig sem stjórnarmaður, formaður deilda og fararstjóri, svo eitthvað sé nefnt. Hann var sæmdur mörgum heiðursviðurkenningum á vegum ýmissa eininga í íþróttahreyfingunni og var, árið 2004, sæmdur æðstu heiðursviðurkenningu innan vébanda ÍSÍ þegar hann var kjörinn Heiðursfélagi ÍSÍ af 67. Íþróttaþingi ÍSÍ. Sigurgeir tók virkan þátt í verkefnum ÍSÍ, sem Heiðursfélagi sambandsins, og sýndi starfi þess mikinn áhuga alla tíð.

Sigurgeir var nánast daglegur gestur á skrifstofu ÍSÍ um langt árabil og gaf sér oft tíma til að spjalla við starfsfólkið um íþróttatengd málefni sem og um helstu umræðuefnin í þjóðfélaginu hverju sinni. Hann var í essinu sínu í umræðum um ættir fólks, íþróttaviðburði fortíðarinnar eða sögur af kúnstugum atvikum því ekki vantaði upp á kímnina. Hann var snöggur í tilsvörum og oft var viðmælandinn skilinn eftir í óvissu um það hvort að um hafi verið að ræða skens, grín eða alvöru. Það náðu ekki allir alltaf að vera í takt við snögga og frjóa hugsun Sigurgeirs og fáir voru nógu fljótir til svars og sumir hreinlega reknir á gat. Sigurgeir var hafsjór af fróðleik, eldklár og með eindæmum minnugur. Hann vílaði ekki fyrir sér að læra nýtt tungumál á fullorðinsaldri ef þannig bar undir og áhugi hans á öllu og öllu virtist endalaus.

Það er mikill sjónarsviptir að Sigurgeiri og hans verður sárt saknað.

Stjórn og starsfólk ÍSÍ aðstandendum Sigurgeirs dýpstu samúðarkveðjur.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Íþróttir eru fyrir alla – RIG ráðstefna

Birt

þann

Eftir

21.01.2021
Hvernig líður hinsegin ungu fólk í íþróttum? Eru íþróttir fyrir alla? Þessum spurningum og öðrum verður svarað fimmtudaginn 4. febrúar í Háskólanum í Reykjavík kl. 13:00 – 16:00. Ráðstefnan er hluti af Reykjavíkurleikunum (RIG).

Vegna samkomutakmarkana verður ekki hægt að mæta í sal en ráðstefnunni verður streymt á Youtube rás leikanna. Nánari upplýsingar og dagskrá er hægt að finna hér á rig.is og hér á facebook. Streymið er opið öllum en ÍSÍ hvetur fólk til að skrá sig hér.

Að ráðstefnunni standa: Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Háskólinn í Reykjavík og RIG – Reykjavík International Games.

Lesa meira

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Skráning hafin í Lífshlaupið 2021

Birt

þann

Eftir

20.01.2021

Skráning í Lífshlaupið 2021 hefst í dag á vefsíðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:
• Vinnustaðakeppni frá 3. febrúar – 23. febrúar, fyrir 16 ára og eldri.
• Framhaldsskólakeppni frá 3. febrúar – 16. febrúar, fyrir 16 ára og eldri. 
• Grunnskólakeppni frá 3. febrúar– 16. febrúar, fyrir 15 ára og yngri.
• Einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið.

Eins og ávallt hvetjur ÍSÍ alla landsmenn til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum eða í skólanum.

Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér og undir viðeigandi keppni vinstra megin. Gaman er að geta fylgst með sinni hreyfingu og jafnframt tekið þátt í þessari skemmtilegu landskeppni.

Á næstunni kemur út sérstakt Lífshlaups smáforrit (app) sem mun einfalda skráningu á allri hreyfingu. Endilega fylgist með á vefsíðu Lífshlaupsins fyrir frekari upplýsingar.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ á [email protected] eða Kristín Birna, verkefnastjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, á [email protected] Einnig er hægt að hringja í síma 514-4000 eða senda fyrirspurnir á netfangið [email protected]

Lesa meira

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Vilt þú verða þjálfari?

Birt

þann

Eftir

20.01.2021

Vorfjarnám 1. 2. og 3. stigs Þjálfaramenntunar ÍSÍ hefst mánudaginn 1. feb. nk. og tekur það átta vikur á 1. stigi en fimm vikur á 2. og 3. stigi. Námið er almennur hluti menntakerfisins og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Sérgreinaþátt þjálfaramenntunarinnar sækja þjálfarar hjá viðkomandi sérsambandi ÍSÍ hverju sinni. 

Nám allra stiga er allt í fjarnámi, engar staðbundnar lotur. Námið hefur verið afar vinsælt til fjölda ára og þátttakendur komið frá mörgum íþróttagreinum. Námið veitir réttindi til íþróttaþjálfunar og jafnframt rétt til áframhaldandi náms til frekari réttinda.

  • Þátttökugjald á 1. stig er kr. 34.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin í því verði.
  • Þátttökugjald á 2. stig er kr. 28.000.- og öll námskeiðsgögn eru innifalin.
  • Gjaldið á 3. stig er kr. 40.000.-

Athugið að þeir nemendur/þjálfarar sem koma frá Fyrirmyndarfélögum/-deildum ÍSÍ fá 20% afslátt af námskeiðsgjaldi.

Skráning er rafræn og þarf henni að vera lokið fyrir mánudaginn 1. feb. Rétt til þátttöku á 1. stigi hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi. 

Slóð á skráningu á öll stig í sumarfjarnámi þjálfaramenntunar ÍSÍ 2020.

Allar nánari uppl. um fjarnámið og þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson í síma 460-1467 og 863-1399 eða á [email protected]

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin