Eitt hundrað ár eru liðin síðan geislameðferð krabbameina hófst á Íslandi. Í tilefni af þessum tímamótum verður haldið málþing í Hringsal á Landspítala Hringbraut fimmtudaginn 7. nóvember 2019, kl. 13:00-16:00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Skráning á málþingið

Geislameðferð krabbameina á Íslandi hófst árið 1919 eftir kaup á geislavirku Radíni til landsins. Gunnlaugur Classen prófessor kynnti sér árin 1916-17 notkun Radíns til lækninga, einkum í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi.  Grein eftir hann birtist í Ísafold 2. mars 1918 og í apríl það ár flutti hann, að tilhlutan Oddfellowreglunnar, tvo fyrirlestra um geislameðferð með Radíni.  Eftir þetta tók Oddfellowfélagið að sér forgöngu málsins og hóf fjársöfnun til stofnunar „Radíumstofnunar Íslands“.  Undirtektir voru mjög góðar og strax 4. maí 1918 gat Oddfellowfélagið haldið stofnfund fyrir „Radíumsjóð“ (Lögrétta 25. ágúst 1919).

Málþingið verður á afmælisdegi Marie Curie (f. 7. nóv. 1867) sem var fyrsta konan sem hlaut Nóbelsverðlaun, reyndar tvisvar; árið 1903 í eðlisfræði og árið 1911 í efnafræði , m.a. fyrir framlag sitt við að finna Radín og Poloníum. 

Markmið málþingsins er að minnast merkilegrar sögu um mikilvæga þróun og mikið frumkvöðlastarf snemma á síðustu öld. 
Ástæða er líka til að minnast í þessu sambandi merkra áfanga í sögu krabbameinslækninga og geislameðferðar á Íslandi og mikilvægs stuðnings samtaka eins og Oddfellowreglunnar,  Lionshreyfingarinnar og fleiri.

Mikil þróun á sér stað í þekkingu, tækni og búnaði fyrir bætta geislameðferð.  Áhersla er lögð á það í dagskrá málþingsins að horfa einnig fram á veg og skoða verkefnin núna árið 2019 og hvaða þróun er víða í heiminum á sviði geislameðferðar krabbameina.