Connect with us

Samtök Atvinnulífsins

Skýringar vegna hækkunar launavísitölu Hagstofunnar í október 2020

Birt

þann

Skýringar vegna hækkunar launavísitölu Hagstofunnar í október 2020

Hagstofan birti í gær launavísitölu októbermánaðar þar sem fram kom að hækkunin frá september var 0,7% og síðastliðna 12 mánuði 7,1%.

Þessar miklu hækkanir, bæði í október 2020 og síðastliðið ár, vekja eðlilega undrun.

Hækkunin í október á sér einkum tvær skýringar.

Í fyrsta lagi hækkar launavísitalan ávallt mikið í september og október ár hvert þótt engar kjarasamningsbundnar hækkanir eigi sér stað. Orsakirnar eru árstíðabundnar og liggja í því að álagsgreiðslur eru hærri í þessum mánuðum en mánuðina þar á undan sem að hluta einkennast af sumarleyfum og störfum afleysingafólks. Veigamesta skýring þessara árstíðabundnu hækkana launavísitölunnar er líklega í verslun og þjónustu þar sem afleysingafólk, t.d. sumarfólk, í ágúst og september fer úr fullu starfshlutfalli í hlutastörf þar sem álagsreiðslur vega þyngra en í fulla starfinu. Eftirvinnuálag starfsfólks í verslunum er dæmi um þetta.

Aðra skýringu má rekja til bónusgreiðslna, t.d. í fiskvinnu sem eru mun hærri í september og október en mánuðina þar á undan. Undanfarin áratug hefur launavísitalan hækkað um 0,7% í september og 0,4% í október, án þess að nokkrar miðlægar kjarasamningsbundnar hækkanir hafi átt sér stað.

Í öðru lagi kom endurnýjun nokkurra kjarasamninga inn í vísitöluna í október og voru þeir undantekningarlaust með afturvirkni. Í því felst að tvær launahækkanir, vegna ársins 2019 auk ársins 2020, komu til framkvæmda í október. Hagstofan mælir hækkanirnar þegar þær eru greiddar út en breytir ekki vísitölunni aftur í tímann. Nýlega endurnýjaðir kjarasamningar sem komu inn í launavísitölu októbermánaðar voru t.a.m. í stóriðju, grunnskólum og hjúkrun hjá sveitarfélögum og hjá starfsfólki fyrirtækja innan Samtaka sjálfstæðra skóla og Samtaka í velferðarþjónustu.

Munur milli almenna markaðarins og ríkis og sveitarfélaga

Hækkun launavísitölunnar í október um 7,1% síðustu 12 mánuði er í svipuðum takti og undanfarna sex mánuði þar sem hækkanirnar hafa verið á bilinu 6,3 til 6,8%. Hagstofan birtir einnig launavísitöluna eftir vinnumörkuðum, en með tveggja mánaða töf miðað við sjálfa launavísitöluna, þannig að nýjustu gildin eru fyrir ágúst 2020. Í ágúst 2020 hafði launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkað um 6,0%, 7,5% hjá ríkinu og 9,0% hjá sveitarfélögum.

Á þessum mun milli almenna markaðarins annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar eru nokkrar skýringar. Í fyrsta lagi veldur afturvirkni samninga opinberra aðila því að tvær almennar hækkanir koma til framkvæmda hjá starfsfólki stéttarfélaga sem gerðu kjarasamninga á tímabilinu nóvember 2019 til 2020, en á því tímabili voru nær allir kjarasamningar endurnýjaðir í opinbera geiranum.

Í öðru lagi var viðbúið að prósentuhækkanir starfsmanna sveitarfélaga yrðu hærri en á almennum vinnumarkaði og hjá ríkinu þar sem hlutfallslega fleiri starfsmenn sveitarfélaga taka laun samkvæmt þeim kauptöxtum sem hækka mest samkvæmt Lífskjarasamningnum.

Í þriðja lagi voru hækkanir í samningum Eflingar við sveitarfélögin hærri en samkvæmt Lífskjarasamningnum.

Reynslan sýnir að launahækkanir eru ávallt meiri en lágmarkshækkanir kjarasamninga

Við gerð Lífskjarasamningsins áætluðu SA að laun á almennum markaði myndu hækka um rúmlega 4% vegna hækkunarinnar í apríl 2020. Þar af hækkaði verkafólk sem tekur laun samkvæmt umsömdum launatöxtum um 7% en aðrir um 3%. Það liggur því fyrir að laun á almennum vinnumarkaði hafi hækkað u.þ.b. 2% umfram bein áhrif launahækkana Lífskjarasamningsins.

Skýringarnar geta verið fjölmargar en reynsla undanfarinna áratuga sýnir að launahækkanir eru ávallt meiri en lágmarkshækkanir kjarasamninga, bæði í samdrætti og þenslu. Kjarasamningar og óformleg launakerfi hafa innbyggðar launahækkanir sem koma fram í mælingum Hagstofunnar en eru ekki hluti af mati sem gert er á kostnaðaráhrifum kjarasamninga. Þá kann mikil hlutfallshækkun lágmarkstaxta hafa haft ruðningsáhrif á laun hluta þess starfsfólks sem tekur laun á markaði rétt fyrir ofan eða í námunda við umsamda lágmarkstaxta.

Samtök Atvinnulífsins

Öll í takt

Birt

þann

Eftir

Öll í takt

Eng­um dylj­ast stór­stíg­ar fram­far­ir í land­inu á síðari hluta 20. ald­ar. Hag­ur alls al­menn­ings batnaði jafnt og þétt, lífs­kjör urðu sam­bæri­leg því sem best ger­ist. Stór­stíg­ar fram­far­ir urðu í al­menn­um innviðum; heil­brigðis­kerfi, sam­göng­um, orku­kerfi, fjar­skipt­um ásamt því að starf­semi rík­is og sveit­ar­fé­laga efld­ist mjög.

All­ar þess­ar fram­far­ir byggðust að veru­legu leyti á sí­vax­andi styrk at­vinnu­lífs­ins, gríðarlegri aukn­ingu út­flutn­ingstekna, mikl­um skipu­lags­breyt­ing­um, sér­hæf­ingu og frum­kvæði ein­stak­linga og fyr­ir­tækja um að sækja fram, stunda ný­sköp­un og öfl­uga markaðssókn. Áhersla á sjálf­bæra nýt­ingu auðlinda varð einnig lyk­ill þess að horfa til lengri tíma og há­marka þannig arðsemi auðlind­anna í þágu kom­andi kyn­slóða.

Frjáls alþjóðaviðskipti hafa lagt grunn að öfl­ug­um út­flutn­ingi og tryggja hag­kvæm­an aðgang að vör­um og þjón­ustu sem ekki eru eða verða til inn­an­lands. Þessi viðskipti eru byggð á alþjóðleg­um samn­ing­um þar sem leit­ast er við að af­nema tolla og aðrar viðskipta­hindr­an­ir hvort sem er tak­mörk­un fjár­magns­flutn­inga, höf­unda­rétt­ar eða veit­ingu þjón­ustu á milli landa. Einnig hef­ur skipt máli að Íslend­ing­ar hafa verið iðnir að sækja sér mennt­un og fróðleik til annarra landa og flytja heim með sér dýr­mæta þekk­ingu og reynslu. Á síðustu ára­tug­um hef­ur einnig skipt máli að fjöl­breytt fólk hef­ur tekið sér bú­setu hér á landi og sam­fé­lagið allt notið góðs af því.

Ísland hef­ur und­an­farna ára­tugi borið gæfu til að eiga aðild að öfl­ug­um viðskipta­samn­ing­um en gerð þeirra hófst að lok­inni seinni heims­styrj­öld­inni. Mestu hafa skipt samn­ing­ar um aðild að EFTA og síðar að Evr­ópska efna­hags­svæðinu. Nú er svo komið að viðskipta­samn­ing­ar sem Ísland á aðild að skipta tug­um og ná til flestra heims­svæða og alls kyns viðskipta.

Sam­starf at­vinnu­lífs­ins og stjórn­valda um þjón­ustu við fyr­ir­tæki og viðskipta­hags­muni er­lend­is hef­ur jafn­an verið gott og stjórn­völd brugðist við ósk­um fyr­ir­tækja um aðstoð við þessa hags­muni víða um heim.

Nú síðast varð eðlis­breyt­ing á Íslands­stofu sem er rek­in sem sjálf­seign­ar­stofn­un í eigu rík­is­ins og at­vinnu­lífs­ins og þjón­ust­ar víðtæka hags­muni sem bæði eru mik­ils­verðir hér inn­an lands auk þess að skipta fjölda­mörg út­flutn­ings­fyr­ir­tæki mjög miklu við öfl­un nýrra markaða og aukna sókn á eldri markaði.

Öllu þessu er lýst í skýrslu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins ÁFRAM GAKK – Ut­an­rík­is­viðskipta­stefna Íslands, sem út kom í síðasta mánuði. Samn­ing­um Íslands er þar lýst ásamt þróun í alþjóðaviðskipt­um síðustu ára­tugi. Mik­ill feng­ur er að skýrsl­unni og er hún afar gagn­leg þeim sem vilja kynna sér þróun viðskipta­samn­inga, eðli þeirra og nyt­semi fyr­ir ein­stök fyr­ir­tæki, at­vinnu­lífið og sam­fé­lagið í heild.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Leggja áherslu á ábyrga ráðstöfun

Birt

þann

Eftir

Leggja áherslu á ábyrga ráðstöfun

Samtök atvinnurekenda á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum leggja áherslu á ábyrga ráðstöfun þess fjár sem varið verður til endurreisnar atvinnulífsins í Evrópu. Þetta er meðal þess sem fram kom í ályktun forseta samtakanna sem samþykkt var á fjarfundi sem fram fór í vikunni.

Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA tóku þátt í fundinum. Gestir fundarins voru Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðar ESB, Anna Hallberg viðskiptaráðherra Svíþjóðar og Simon Coveney utanríkisráðherra Írlands. 

Hér má nálgast ályktun fundarins.

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs

Birt

þann

Eftir

Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs

Til að hægt sé að auka framleiðslugetu hagkerfisins, skapa nýjar stoðir útflutnings og fjölga störfum til að byggja undir aukinn kaupmátt heimila þarf að fjárfesta í innviðum og framleiðslutækjum. Arðbær fjárfesting er undirstaða framtíðarhagvaxtar. Nauðsynlegt er því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem kunna að standa í vegi aukinnar fjárfestingar. Þannig verður stutt við áframhaldandi lífskjaravöxt. 

Fjárfesting í lægð fyrir farsótt 

Á árunum fyrir fjármálahrun var mikill kraftur í fjárfestingu enda hagvöxtur mikill. Fjárfesting og hagvöxtur haldast jafnan í hendur. Snarpur samdráttur varð í fjárfestingu í kjölfar hrunsins og varð framlag hennar til hagvaxtar neikvætt um frá 2007 til 2010. Fjárfesting tók við sér á ný í takt við endurreisn efnahagslífsins en náði þó ekki fyrri krafti áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Enn frekari samdráttur varð árið 2020 en ætla má að samdrátturinn nemi 18% milli ára. Það er hins vegar ljóst að þegar var tekið að hægja á. Áhrif veirunnar voru til að reka smiðshöggið á þróun síðustu ára. 

Hið opinbera dregur áfram vagninn en meira þarf til 

Allajafna eru það atvinnuvegirnir sem fara fyrir megninu af fjárfestingu í hagkerfinu. Síðustu misseri hafa hið opinbera og íbúðafjárfesting hins vegar dregið vagninn. Í ljósi þess að stjórnendur fyrirtækja vænta ekki mikilla fjárfestinga á næstunni og fyrirséð er að enn muni draga úr íbúðafjárfestingu má ætla að hið opinbera muni bera uppi vöxt fjárfestingar á næstu misserum. Þrátt fyrir boðað fjárfestingarátak hins opinbera er þó ekki útlit fyrir að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nái langtímameðaltali á næstu árum. 

Ísland er gott en margt má bæta 

Í alþjóðlegum samanburði kemur Ísland sæmilega út þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja, enda með sterka innviði og hátt menntunarstig. Ísland er hins vegar eftirbátur samanburðarríkja þegar kemur að milliríkjaviðskiptum, öflun byggingarleyfa og öflun lánsfjár. Þá telst íslenska skattkerfið lítt samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Fjöldi tvísköttunarsamninga er aðeins tæpur helmingur á við það sem þekkist á Norðurlöndum. Tækifæri til umbóta í fjárfestingarumhverfi liggja víða. 

Mörg jákvæð skref hafa verið stigin að undanförnu í því skyni að örva fjárfestingu hérlendis. Þar ber hæst stóraukinn stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargeira. Slíkur beinn stuðningur er jákvæður og til þess fallin að auka hagsæld þegar fram líða stundir. Mestu máli skiptir þó að skapa almennt hagfelld skilyrði fyrir rekstur og þar af leiðandi fjárfestingu og atvinnusköpun

Um árlegan Skattadag SA, Deloitte og Viðskiptaráðs 

Skattadagurinn er haldinn árlega í góðu samstarfi Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands. Viðburðurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni. 

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, ræddi um hindranir í vegi fjárfestinga líkt og má sjá í samantektinni hér að ofan, á fundinum. Á meðal annarra ræðumanna voru Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Hrefna Björk Sverrisdóttir, eigandi veitingastaðarins Rok á Skólavörðustíg, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis, Haraldur I. Birgisson, meðeigandi í Deloitte og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.

Hér má horfa á þáttinn sem var klukkustund að lengd.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin