Connect with us

Stjórnarráðið

Skýrsla um upplýsingaóreiðu og COVID-19 birt á vef Stjórnarráðsins

Birt

on

Skýrsla vinnuhóps þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19 sem settur var á laggirnar í apríl 2020 liggur nú fyrir. Skýrslan er aðgengileg hér.

Í skýrslunni er fjallað um mikilvægi upplýsingamiðlunar og lýðheilsu, nýtt tækniumhverfi og miðlun upplýsinga, samstarf hópsins við Vísindavef Háskóla Íslands og alþjóðasamstarf á þessu sviði.

Í 6. kafla skýrslunnar er ítarlega fjallað um niðurstöður kannana sem vinnuhópurinn stóð fyrir í samvinnu við rannsóknarfyrirtækið Maskínu í júní og ágúst sl., þar sem meðal annars var leitað svara við spurningum um hvernig fólk aflaði sér upplýsinga um kórónuveiruna og COVID-19, traust á upplýsingamiðlun og hvort og þá hvernig misvísandi eða rangar upplýsingar um veiruna og sjúkdóminn hefðu borist almenningi. Kannanirnar tóku mið af sambærilegum alþjóðlegum könnunum um efnið. Gefa niðurstöðurnar ákveðnar vísbendingar um hvernig aðstæður eru á Íslandi í samanburði við önnur ríki.

Niðurstöður kannananna í heild má nálgast á mælaborði og á pdf skjölum frá Maskínu hér og hér. Samkvæmt niðurstöðunum treystu nánast allir aðspurðra Þríeykinu (landlæknir, sóttvarnalæknir og almannavarnir), innlendum viðbragðsaðilum, svo sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítala – háskólasjúkrahúsi, til þess að miðla áreiðanlegum upplýsingum um kórónuveiruna og sjúkdóminn COVID-19. Yfir 80% treystu innlendum fjölmiðlum, rúmlega 40% treystu erlendum fréttasíðum en í kringum 10% treystu samfélagsmiðlum. Kannanirnar leiddu í ljós að Íslendingar telja sig flestir vera mjög eða fremur vel upplýsta um kórónuveiruna og COVID-19 og yfirgnæfandi meirihluti svarenda sagðist hafa fengið hæfilegt magn af upplýsingum um veiruna og sjúkdóminn. Um 30% höfðu séð/heyrt mjög eða fremur mikið af röngum eða misvísandi upplýsingum um kórónuveiruna og COVID-19. Af þeim sem höfðu séð/heyrt rangar eða misvísandi upplýsingar höfðu langflestir, eða tæp 80%, fengið þær á samfélagsmiðlum, rúm 40% á erlendum fréttasíðum og tæplega 30% í íslenskum miðlum.

Í skýrslunni má enn fremur lesa ábendingar hópsins sem m.a. lúta að mikilvægi tímanlegrar og áreiðanlegrar upplýsingamiðlunar stjórnvalda, að starfsreglur tæknifyrirtækja sem miðast við að sporna gegn upplýsingaóreiðu nái einnig til starfsemi þeirra hér á landi, að sett verði samræmd stefna um miðlalæsi sem nær til allra hópa samfélagsins, að byggja þurfi upp þekkingu og auka samstarf um greiningu á misnotkunartækni í samfélags- eða fjölmiðlaumræðu og að gerðar verði reglulegar kannanir af því tagi sem vinnuhópurinn stóð fyrir á meðan COVID-19 faraldurinn stendur yfir.

Vinnuhópinn skipuðu þau: Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Kjartan Hreinn Njálsson frá embætti landlæknis, Jón Gunnar Ólafsson, doktor í fjölmiðlafræði, Anna Lísa Björnsdóttir samskiptamiðlafræðingur, Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður, Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Sigurður Emil Pálsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, María Mjöll Jónsdóttir og Ólöf Hrefna Kristjánsdóttir frá utanríkisráðuneytinu. Þórunn J. Hafstein, ritari þjóðaröryggisráðs, leiddi starf hópsins.

Lesa meira

Innlent

COVID-19: Forgangsröðun vegna bólusetningar

Birt

on

By

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerð um forgangsröðun við bólusetningu vegna COVID-19. Tilgangur reglugerðarinnar er að ákveða forgangsröðunina á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og með eins miklum fyrirsjáanleika og mögulegt er.

Við smíði reglugerðarinnar var horft til leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðis­málastofnunarinnar um forgangsröðun við bólusetningu vegna COVID-19 og sjónarmiða sem fram hafa komið í sambærilegri vinnu hjá nágrannaþjóðum.

Líklegt er að notuð verði fleiri en ein tegund bóluefna hér á landi. Gera má ráð fyrir að bóluefnin kunni að henta ólíkum hópum með mismunandi hætti sem getur haft áhrif á forgangsröðunina. Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar, svo sem hvaða bóluefni er notað og fyrir hvaða hópa og er einnig heimilt að víkja frá forgangsröðun reglugerðarinnar ef nauðsyn ber til.

Lögð verður sérstök áhersla á að bólusetja fyrst þá einstaklinga sem eru í framlínunni í baráttunni við sjúkdóminn. Þetta á við um heilbrigðisstarfsfólk og annað starfsfólk sem starfar á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum sjúkrahúsa, á COVID-19 göngudeild og legudeildum fyrir sjúklinga sem smitast hafa af COVID-19, heilbrigðisstarfsmenn sem framkvæmda sýnatökur vegna gruns um COVID-19 og starfsfólk hjúkrunar- og dvalarheimila. Bólusetning einstaklinga sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa verður einnig í miklum forgangi.

Í reglugerðinni eru skilgreindir tíu forgangshópar. Í mestum forgangi eru tiltölulega fámennir hópar en áætlað er að að í fyrstu fimm forgangshópunum séu rúmlega 20.000 einstaklingar. Í sjötta hópnum fjölgar hins vegar umtalsvert því þar er forgangsraðað þeim sem eru 60 ára og eldri. Í sjöunda hópnum eru einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma, í áttunda hópnum starfsfólk leik- grunn- og framhaldsskóla og tiltekið starfsfólk félags- og velferðarþjónustu, í níunda hópnum einstaklingar sem eru í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra- og efnahagslegra aðstæðna og loks eru í tíunda hópnum allir aðrir sem óska bólusetningar, eftir því sem sóttvarnalæknir ákveður.

Ekki er gert ráð fyrir í reglugerðinni að börnum fæddum 2006 og síðar verði boðin bólusetning gegn COVID-19 nema þau hafi undirliggjandi langvinna sjúkdóma og séu í sérstökum áhættuhópi.

Reglugerðin hefur verið send Stjórnartíðindum og öðlast gildi við birtingu.

Lesa meira

Innlent

Fjölþætt viðbrögð við skýrslum rannsóknarnefnda Alþingis

Birt

on

By

Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu, um ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008, orsakir falls sparisjóðanna og erfiðleika Íbúðalánasjóðs og viðbrögð við þeim.Eins og ítarlega er rakið í skýrslunni er það mat hlutaðeigandi stjórnvalda að brugðist hafi verið við flestum ábendingum rannsóknarnefndanna en það hefur verið gert með fjölþættum hætti.

Dregnar eru fram 339 ábendingar. Flestar heyra þær undir Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið og hefur verið brugðist við þeim í yfirgnæfandi hluta tilfella.

Skýrslan á rót sína að rekja til skýrslubeiðni sem Alþingi samþykkti 148. löggjafarþingi þar sem þess var beiðst að dregnar yrðu fram allar ábendingar er varða stjórnsýsluna í þeim þremur rannsóknarskýrslum sem beiðnin tók til og að greint yrði frá því hvort og þá hvernig brugðist hafi verið við einstökum ábendingum. Þeim stjórnvöldum sem nú bera ábyrgð á málefnunum sem ábendingar varða var síðan falið að svara því hvort og þá að hvaða marki brugðist hafi verið við ábendingum.

Lesa meira

Innlent

Fjallað um Covid-19 og Norðurlönd á opnum fjarfundi samstarfsráðherra

Birt

on

By

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók í dag þátt í pallborðsumræðum á norrænum fjarfundi um Covid-19 og Norðurlönd, sem var liður í formennsku Danmerkur, Færeyja og Grænlands í Norrænu ráðherranefndinni 2020.

Á fundinum var m.a. rætt um þau áhrif sem kreppan af völdum Covid-19 hefur haft á einstök ríki og á norrænt samstarf og álag á stjórnvöld einstakra ríkja, heilbrigðiskerfi, atvinnulíf og einstaklinga. Kaj Leo Holm Johannesen, samstarfsráðherra Færeyja, opnaði fundinn þar sem fram kom að með umræðum eins og þessum gætum við lært af hinni stormasömu tilveru árið 2020, séð hvar samstarfið hefur verið til góðs og safnað reynslu sem nýta má áfram í norrænu samstarfi. 

Sigurður Ingi Jóhannsson lagði áherslu á í sínu innleggi gott samstarf Norðurlandanna á tímum heimsfaraldsins og lagði áherslu á sameiginlega gildi, lýðræði, sjálfbærni og virðingu fyrir mannréttindum og mikilvægi þess að standa vörð um þau á tímum sem þessum. Þá tók hann undir þá hugmund að eftir að mótefni yrði aðgengileg að Norðurlöndin myndu draga úr þeim hindrunum sem upp hafa komið milli landanna á tímum Covid.

Meðal þeirra sem fluttu erindi á þessari ráðstefnu var dr. Hans Kluge, forstjóri WHO í Evrópu, Pál Weihe, prófessor í lýðheilsufræðum í Færeyjum, og Lasse Ilkka, sérfræðingur í finnska heilbrigðisráðuneytinu.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin