Í leiðbeiningum sóttvarnalæknis kemur skýrt fram að þeim sem búa á Íslandi er ráðið frá ferðalögum á áhættusvæði. Þar segir „Íbúum Íslands er ráðið frá ferðalögum til áhættusvæða vegna smithættu en mörg lönd eru enn skilgreind sem áhættusvæði vegna COVID-19. Þeir sem ferðast ættu að sýna varúð og fylgja ráðum um hreinlæti og sóttvarnir.“

Þá hefur heilbrigðisráðherra tekið ákvörðun um breyttar reglur um skimun á landamærum. Þeir sem búa á Íslandi og hafa tengslanet á landinu þurfa að skila sýni á landamærum og aftur eftir 5 daga og vera í sóttkví heima þar til svar úr seinna sýninu er neikvætt.
Í ljósi þess vill farsóttarnefnd Landspítala árétta að starfsfólk sem fer erlendis í frí þarf að fara í sóttkví, þennan tíma, á eigin kostnað.

Starfsfólk sem fer erlendis í frí þarf því að gera ráðstafanir vegna sóttkvíar í að minnsta kosti 5 daga eftir heimkomu og að hafa óskað eftir og fengið samþykkt frí þann tíma áður en farið er. Þessi breyting tekur gildi eigi síðar en 13. júlí næstkomandi.
Stjórnandi þarf að sækja um sóttkví C hjá farsóttarnefnd fyrir starfsmann sem tekið getur gildi eftir seinni sýnatöku og þegar niðurstöður liggja fyrir.

Heimildir