Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að yfirfara lög um ávana- og fíkniefni og gera drög að lagafrumvarpi þar sem kveðið verði á um skýrari lagagrundvöll og ábyrgð stofnana sem þurfa að koma að framkvæmd þegar kemur að leyfisveitingum og eftirliti með ræktun iðnaðarhamps.

Í apríl síðastliðnum veitti heilbrigðisráðherra undanþáguheimild með breytingu á reglugerð nr. 233/2001 sem gerir innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega. Heimildin er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að ekki verði fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið THC í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,2%.

Vaxandi áhugi er fyrir ræktun iðnaðarhamps hér á landi til að nota í ýmsum iðnaði, t.d. við framleiðslu húsgagna og sem byggingarefni en talið er að iðnaðarhampur geti komið í staðinn fyrir ýmis efni sem ógna umhverfinu, eins og t.d. plasts.

Eins og fram kom í tilkynningu ráðuneytisins vegna reglugerðarbreytingarinnar í apríl síðastliðnum lagði heilbrigðisráðherra áherslu á að reglugerðarbreytingin væri tímabundin ráðstöfun: „Ávana- og fíkniefnalöggjöfin hefur skýr markmið og tilgang sem fellur augljóslega að málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Það gerir sú ræktun sem hér um ræðir hins vegar ekki, að því gefnu að hún stangist ekki á við inntak og markmið þessara sömu laga“ sagði ráðherra þegar tilkynnt var um reglugerðarbreytinguna og sagði jafnframt nauðsynlegt að skapa málinu skýrari farveg í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og stofnanir ráðuneytanna sem þekkingu hafa á þessu sviði.

Starfshópurinn sem heilbrigðisráðherra hefur skipað mun eins og áður segir yfirfara lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og er jafnframt falið að skrifa drög að frumvarpi um málið sem heilbrigðisráðherra tekur síðan ákvörðun um hvort leggja skuli fram á vorþingi 2021.

Formaður starfshópsins er Kristín Lára Helgadóttir. Aðrir nefndarmenn eru Sindri Kristjánsson, tilnefndur af Lyfjastofnun, Iðunn Guðjónsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Brynjar Rafn Ómarsson, tilnefndur af Matvælastofnun. Starfshópurinn skal skila ráðherra niðurstöðum sínum og tillögum 1. nóvember næstkomandi.