Connect with us

Veður

Stóra skriðan á Seyðisfirði sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi

Birt

þann

Stóra skriðan á Seyðisfirði er sú stærsta sem fallið hefur í þéttbýli á Íslandi


Vöktun á hlíðum ofan Seyðisfjarðar aukin og vinnu við varnarkosti flýtt

22.12.2020

Í gær var haldinn fundur með íbúum Seyðisfjarðar og fulltrúum Almannavarna og viðbragðsaðila á staðnum, Náttúruhamfaratrygginga Íslands, RARIK og Veðurstofunnar. Á fundinum fóru sérfræðingar Veðurstofunnar meðal annars yfir aðdraganda atburðanna og umfang skriðufallanna.

Þann 13. desember, tveimur dögum áður en fyrsta skriðan féll á Seyðisfirði, hafði Veðurstofan varað við auknum líkum á skriðuföllum og grjóthruni á Austfjörðum. Mikil úrkoma hafði fallið á svæðinu í aðdraganda skriðufallanna og var uppsöfnuð úrkoma 569 mm á dögunum 14. til 18. desember. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma, á jafn stuttum tíma á Íslandi, eins og þessa fimm daga á Seyðisfirði. Til samanburðar nemur rigning í Reykjavík á meðalári um 860 mm.

Myndin sýnir klukkustundarúrkomu, dagsúrkomu og uppsafnaða úrkomu á Seyðisfirði frá því í byrjun október. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma, á jafn stuttum tíma á Íslandi, eins og þessa fimm daga á Seyðisfirði.

Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar Veðurstofunnar, segir að veðrið hafi verið nokkuð sérstakt því úrkoman hafi fallið sem snjókoma til fjalla en rigning í neðri hluta hlíða. „Af þeim sökum töldum við ekki mikla hættu á skriðuföllum ofarlega úr fjöllum. Þá hafi ekki verið talið að mikið vatn streymdi á stallana í Strandartindi, sem gnæfir yfir skriðusvæðið“. Harpa segir að ofanflóðasérfræðingar Veðurstofunnar höfðu búist við jarðvegsskriðum í líkingu við þær sem féllu fyrstu dagana og að þær gætu farið stækkandi og viðbúnaður og tilmæli um rýmingar hafi miðast við það.

Skriða sem er án fordæma í þéttbýli á Íslandi

Um fimm mínútur fyrir þrjú á föstudag féll gríðarmikil aurskriða á svæðið rétt utan við Búðará á Seyðisfirði sem olli gríðarlegu tjóni. Talið er að fleiri en tíu hús hafi annað hvort gereyðilagst eða skemmst í henni. Búið var að rýma hluta af bænum, bæði innan og utan við Búðarána, en ekki á öllu því svæði sem skriðan féll. Viðbragðsaðilar og nokkrir íbúar voru á svæðinu og í nágrenninu og sluppu sumir naumlega undan skriðunni. Harpa segir að sú skriða hafi verið annars eðlis en þær skriður sem féllu fyrr í vikunni. „Þær athuganir sem farið hafi fram á henni eru aðeins frumathuganir en þær sýna skriðusár sem er allt að 20 m á hæð og svo virðist sem það nái djúpt ofan í setlög sem ekki hafi hrunið úr í árþúsundir. Við bjuggumst ekki við skriðu af þessari stærðargráðu og vanmátum aðstæður utan Búðarár þar sem skriðan féll. Við bjuggumst við skriðum, til dæmis í Búðará, en túlkun jarðfræðilegra greininga höfðu ekki gefið til kynna ummerki um stórar forsögulegar skriður þessum stað“, segir Harpa. „Eftir að skriðan féll þurftum við síðan að endurmeta aðstæður í skyndi út frá aðstæðum sem ekki hefðu verið uppi í hundruð, eða þúsundir ára“, segir Harpa.

Seydisfjördur-desember-2020_Moment5

Skriðusár stærstu skriðunnar þar sem hún féll í sjó fram. (Ljósmynd: Sérsveit ríkislögreglustjóra)

Hlíðin óstöðug áfram í einhvern tíma

Allnokkrar sprungur ganga út frá skriðusárum í hlíðunum ofan bæjarins. Veðurstofan fylgist grannt með aðstæðum til að meta hættuna á frekari skriðuföllum. Eftir að skriður falla getur hrunið áfram úr skriðusárinu í langan tíma en í flestum tilfellum eru þær skriður miklu minni. Hlíðin kann því að verða óstöðug eitthvað áfram og hrunið gæti úr skriðusárum í rigningartíð. Harpa segir ró vera að færast yfir allt svæðið í sunnanverðum Seyðisfirði. „Mælingar milli daga sýna að hreyfingin hefur hægt á sér, sem eru góðar fréttir. Þá sýna mælingar úr borholum og vatnsritamælum að vatnsþrýstingur fer minnkandi. Tíminn vinnur með okkur meðan ekki rignir og svæðið verður smá saman stöðugra“.

Vöktun á hlíðum í Seyðisfirði aukin

Fram kom á íbúafundinum að sérfræðingar Veðurstofunnar töldu mikilvægt að koma upp mælitækjum svo hægt sé að fylgjast með aðstæðum í hlíðum fjarðarins í rauntíma. Sú vinna er þegar hafin og er von á útfærslu fljótlega um hvernig slíkt kerfi fyrir Seyðisfjörð verði og því komið upp í kjölfarið.  Verið að gera áætlanir um búnað sem stöðugt sendir upplýsingar um hreyfingu á jarðvegi og vatnsstöðu í borholum. Í þeim áætlunum er gert ráð fyrir síritandi mælingum sem klukkutíma fyrir klukkutíma senda upplýsingar um hvort hreyfing sé í hlíðinni. Slík vöktun er talin bæta öryggið mikið.

Hér má sjá útlínur skriðanna sem fallið hafa.

Endurskoða þarf hættumat og vinnu við varnarkosti verður flýtt

Skriðuhætta í þéttbýlinu við sunnanverðan Seyðisfjörð á upptök í mismunandi hæð í hlíðinni eftir svæðum. Þekktustu skriðuhættusvæðin eru undir Strandartindi þar sem oft hefur orðið tjón í byggð, sem teygir sig út eftir mjórri ströndinni undir brattri hlíð. Skriður á þessu svæði eiga oft upptök í þykkum setlögum ofarlega í Strandartindi.

Öryggisviðbúnaður á svæðinu eftir að skriðan féll á föstudag miðast við að leggja mat á yfirvofandi hættu á skriðuföllum af mismunandi toga. Í fyrsta forgangi er að meta hættu á að mjög stór skriða, sambærileg við forsögulegu skriðurnar, falli úr meginfarvegunum þremur. Í öðru lagi að frekari skriður falli úr upptökum stóru skriðunnar á fimmtudag, en þar hafa opnast sprungur, einkum utan og ofan við upptök stóru skriðunnar. Í þriðja lagi að sambærilegar skriður og á föstudag falli úr Botnabrúninni milli meginfarveganna. Þar er um að ræða alla Botnabrúnina frá Skuldarlæk inn að Dagmálalæk. Og í fjórða lagi að minni jarðvegs- eða yfirborðsskriður falli úr hlíðinni, sambærilegar og fallið hafa á nokkrum stöðum undanfarna daga, samanber kortið hér að ofan.

Þekkt skriðuhættusvæði eru einnig undir fjallinu Bjólfi við norðanverðan Seyðisfjörð. Úrkoma í yfirstandandi skriðuhrinu hefur ekki staðið með sama hætti upp á þessa hlíð og á fjöllin sunnan fjarðarins. Mælingar á vatnsþrýstingi í borholum og vettvangsathuganir, m.a. könnun á vatnsrennsli í skurðum, benda jafnframt til þess að jarðlög á svæðinu séu ekki mjög óstöðug nú, enda hefur ekki orðið vart við skriðuföll á þessu svæði til þessa í yfirstandandi vætutíð. Skriðuupptakasvæði ofan við miðjar hlíðar Bjólfsins eru jafnframt ekki talin hættuleg nú vegna þess að þar hefur snjóað en ekki rignt eins og í sambærilegri hæð sunnan fjarðarsins. Ekki þykir því ástæða til þess að hafa áhyggjur af skriðuhættu norðan Fjarðarár.

Í gangi er vinna við mat á varnarkostum fyrir sunnanverðan Seyðisfjörð og verður þeirri vinnu flýtt. Tómas Jóhannesson, fagstjóri á Veðurstofunni segir að nú þegar sé farið að rýna í þau gögn sem safnast hafa til að endurmeta hættuna og vinna frumdrög að mögulegum varnarkostum. „Við munum gera það með kollegum okkar t.d. frá Noregi og Sviss og er tækniskýrsla um varnarkosti væntanleg á næstu vikum og frumathugun um varnarkosti í sunnanverðum Seyðisfirði verður skilað í vor“, segir Tómas. Það er svo stjórnvalda og sveitarfélagsins að leggja mat á þær hugmyndir um varnarkosti sem koma fram og taka ákvörðun um í hverskonar framkvæmdir eða aðgerðir verður ráðist í.

Alþingi samþykkti nýverið fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár, en hún gerir ráð fyrir auknum framlögum ríkisins til byggingar varnarmannvirkja vegna ofanflóða um 1,6 milljarð árlega og stendur árleg fjárheimild næstu ára í um 2,7 milljörðum króna. Þetta aukna fjármagn hefur í för með sér að uppbyggingu ofanflóðamannvirkja á hættusvæðum í byggð á Íslandi verður flýtt.

Veður

Hættustig vegna snjóflóðahættu á Siglufirði

Birt

þann

Eftir

Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá.


20.1.2021

Ákveðið hefur verið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Mörg snjóflóð hafa fallið í dag og síðustu daga á svæðinu frá Siglufirði og inn að Dalvík. Meðal annars féll stórt snjóflóð á skíðasvæðinu á Siglufirði og skemmdi skíðaskálann þar.

Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá. Rýmingin nú er varðúðarráðstöfun þar sem að við verstu aðstæður getur hluti stórra snjóflóða farið yfri varnargarða eins og sýndi sig þegar snjóflóð fóru yfir varnargarða á Flateyri fyrir rúmu ári síðan.

Stíf N-læg átt með snjókomu hefur verið síðan á mánudag og talsverð úrkoma hefur mælst á annesjum Norðanlands. Á mánudag féll snjóflóð yfir Ólafsfjarðarveg og lokaði honum en í gær sáust talsvert stór snjóflóð úr Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði og féll eitt þeirra fram í sjó.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Norðurland eystra vegna aukinnar snjókomu, mest á Tröllaskaga með líkum á samgöngutruflunum vegna færðar, einkum á fjallvegum. Búist er við stífri N- og NA átt með snjókomu og éljum fram yfir helgi.

Lesa meira

Veður

Tíðarfar ársins 2020

Birt

þann

Eftir

Yfirlit

19.1.2021

Árið 2020 var illviðrasamt. Meðalvindhraði var óvenju hár og óveðursdagar margir.

Ársmeðalhiti var yfir meðallagi 1961 til 1990 á landinu öllu en undir meðaltali síðustu tíu ára. Að tiltölu var hlýrra á austan- og norðaustanverðu landinu en kaldara suðvestan- og vestanlands.

Árið var mjög úrkomusamt norðan- og austanlands. Ársúrkoman á Akureyri er sú mesta sem mælst hefur á Akureyri frá upphafi mælinga.

Tíð var óhagstæð og illviðrasöm í byrjun árs og að mestu leyti fram að páskum. Meðalvindhraði var meiri en vant er og loftþrýstingur lægri. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis. Snjóþungt var norðan- og austanlands og á Vestfjörðum. Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri og eitt í Súgandafirði þ. 14. janúar. Mikið austanveður gekk yfir landið þ. 14. febrúar og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára.

Maí og júní voru hagstæðir. En júlí var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Framan af ágúst rigndi mjög um landið sunnan- og vestanvert en hlý og hagstæð tíð var þá norðaustanlands. September var fremur svalur en október hlýr og hægviðrasamur.

Mjög snjólétt var á landinu í nóvember og desember miðað við árstíma. Illviðri voru tíð en samgöngur röskuðust þó lítið vegna snjóleysis. Óvenjulega mikil úrkoma féll í desember á norðan- og austanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Aftakaúrkoma var á Austfjörðum dagana 14. til 18. desember. Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og er það 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 4,5 stig, 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Egilsstöðum var ársmeðalhitinn 3,9 stig, 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,4 stig, 0,5 stigum yfir meðallagi. Á landsvísu var hitinn 0,9 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti og vik ársins 2020 á nokkrum stöðum

stöð hiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2010-2019
Reykjavík 5,1 0,7 33 150 -0,4
Hvanneyri 4,3 # 16 23 -0,4
Bláfeldur 4,7 # 16 23 -0,5
Stykkishólmur 4,5 1,0 26 til 27 175 -0,4
Bolungarvík 3,8 0,9 32 123 -0,4
Litla-Ávík 3,9 # 12 25 -0,2
Blönduós 3,7 # 10 17 -0,2
Grímsey 3,8 1,4 15 147 -0,3
Akureyri 4,3 1,1 22 til 23 140 -0,1
Grímsstaðir 1,5 1,1 29 til 30 114 -0,2
Miðfjarðarnes 3,4 # 8 21 -0,1
Skjaldþingsstaðir 3,9 # 10 26 -0,2
Egilsstaðir 3,9 1,0 20 66 -0,2
Dalatangi 4,8 1,3 10 til 11 83 0,0
Teigarhorn 4,8 1,1 18 til 20 148 -0,1
Höfn í Hornaf. 5,3 # -0,2
Fagurhólsmýri 5,3 0,7 34 118 -0,4
Vatnsskarðshólar 5,8 0,7 26 81 -0,2
Stórhöfði 5,4 0,5 41 til 42 144 -0,3
Árnes 4,2 0,6 41 141 -0,5
Hjarðarland 3,9 # 21 30 -0,6
Hveravellir -0,2 0,9 25 56 -0,5
Eyrarbakki 4,8 0,8 34 128 -0,3
Keflavíkurflugvöllur 4,9 0,5 32 68 -0,5

Ársmeðalhitinn var hæstur 6,3 stig í Surtsey og á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægsti ársmeðalhitinn var á Gagnheiði -1,7 stig og lægstur í byggð í Möðrudal 1,1 stig.

Ársmeðalhitinn var yfir meðallagi 1961 til 1990 á landinu öllu en undir meðaltali síðustu tíu ára. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Að tiltölu var hlýrra á austan- og norðaustanverðu landinu en að tiltölu kaldara suðvestan- og vestanlands. Meðalhitinn í Papey var jafn meðaltali síðustu tíu ára, annars staðar voru hitavikin neikvæð. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,9 á Garðskagavita.

Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2020 miðað við síðustu tíu ár.

Hæsti hiti ársins mældist 26,3 stig á Neskaupsstað þ. 13. ágúst. Mesta frost ársins mældist -28,3 stig á Setri þ. 7. mars. Mesta frost ársins í byggð mældist -28,1 stig við Mývatn þ. 13. febrúar.

Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 21,4 stig þ. 21.júní og aftur þ. 29. júní. Mesta frost ársins í Reykjavík mældist -10,0 stig þ. 19. nóvember. Þegar allar stöðvar höfuðborgarsvæðisins eru skoðaðar þá mældist hæsti hiti ársins 22,6 stig í Geldinganesi þ. 29.júní en mesta frostið -20,5 stig í Víðidal þ. 3. janúar. Á Akureyri mældist hæsti hitinn á árinu 23,5 stig þ. 11. ágúst en mesta frostið -15,6 stig þ. 6. desember.

Í Reykjavík var hiti ofan meðallags 1961 til 1990 í öllum mánuðum ársins nema í febrúar og mars. Júlí og september voru einnig fremur svalir í Reykjavík miðað við síðustu ár þó hiti hafi verið lítillega yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var hiti ofan meðallags 1961 til 1990 í öllum mánuðum ársins nema í febrúar og júlí.

Úrkoma

Árið var mjög úrkomusamt norðan- og austanlands. Ársúrkoman á Akureyri er sú mesta sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga.

Óvenjulega mikil úrkoma féll í desember á norðan- og austanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í þeim almanaksmánuði. Aftakaúrkoma var á Austfjörðum dagana 14. til 18. desember. Mest var úrkoman á Seyðisfirði þar sem heildarúrkoma þessara 5 daga, mældist 577,5 mm. Það er mesta úrkoma sem mælst hefur á fimm dögum á Íslandi. Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18. desember.

stöð ársúr hlut f7100 % Hlutf 1019 % mest d. úrkd Úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 871,6 106 97 25,2 231 162 44 263
Stykkishólmur 771,5 109 105 30,2 220 131 38 290
Brjánslækur 1293,6 # 122 69,0 186 144 84 212
Litla-Ávík 1033,2 # 119 35,6 250 164 111 209
Litla-Hlíð 472,2 # 123 19,1 204 111 116 205
Sauðanesviti 1028,7 # 114 28,8 251 154 62 211
Akureyri 762,1 147 121 50,2 212 132 107 219
Grímsstaðir 482,4 137 111 33,7 204 105 154 162
Skjaldþingsstaðir 1522,3 # 119 83,6 196 133 49 243
Dalatangi 1470,6 98 82 66,4 238 150 73 254
Höfn í Hornafirði 1625,2 121 104 92,9 189 134 26 303
Vatnsskarðshólar 1832,6 113 101 51,6 256 185 49 277
Hjarðarland 1395,2 # 111 70,0 194 164 60 255
Keflavíkurflugvöllur 1045,2 94 99 27,8 248 162 46 264

Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1971 til 2000 (samanburður næst við fleiri stöðvar þetta tímabil heldur en 1961 til 1990). (3) Hlutfall miðað við árin 2010 til 2019 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.

Úrkoma í Reykjavík mældist 871,6 mm, 6% umfram meðallag áranna 1971 til 2000, en 97% af meðalúrkomu síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist ársúrkoman 762,1 mm, 47% umfram meðallag áranna 1971 til 2000, en 21% yfir meðallagi síðustu tíu ára. Árið er það úrkomumesta þar frá upphafi mælinga, 1928. Þar munar mest um mjög úrkomusaman desembermánuð þegar úrkoman mældist fjórfalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í einum mánuði frá upphafi mælinga.

Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri í Reykjavík voru 162, 14 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990. Á Akureyri voru slíkir dagar 132, 29 fleiri en í meðalári og hafa aðeins einu sinni verið fleiri (árið 2014).

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 178,2 mm á Seyðisfirði þ. 15. desember. Á mannaðri stöð mældist mesta sólarhringsúrkoman 159,5 mm á Kálfafelli þ. 10. ágúst.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 25,2 mm þ. 26. nóvember. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 50,2 mm þ. 3. desember. Það er mesta sólarhringsúrkoma sem hefur verið mæld á Akureyri í desember.

Í Reykjavík var úrkoma yfir meðallagi í janúar, apríl, maí, ágúst og september en þurrt var í febrúar, júlí, október og desember. Á Akureyri var úrkoma yfir meðallagi fyrstu 4 mánuði ársins. Maí var mjög þurr á Akureyri en úrkoma yfir sumarmánuðina var í meðallagi. Úrkoma var yfir meðallagi í september og október og í desember mældist úrkoman fjórfalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í einum mánuði frá upphafi mælinga.

Snjór

Veturinn 2019 til 2020 var mjög snjóþungur norðan- og austanlands og á Vestfjörðum. Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri og eitt í Súgandafirði þ. 14. janúar. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis.

Haustið var með snjóléttasta móti og desember var óvenju snjóléttur um land allt.

Myndin sýnir vik fjölda alhvítra daga frá meðallagi í Reykjavík og á Akureyri. Snjóþungt var á Akureyri í janúar til mars og fjöldi alhvítra daga var yfir meðallagi. Í mars var alhvítt alla daga á Akureyri nema þann síðasta. Mjög snjólétt hefur verið bæði á Akureyri og Reykjavík í haust og í desember.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 44 sem er 20 færri en meðaltal áranna 1971 til 2000. Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 107, einum færri en að meðaltali 1971 til 2000. Snjóþungt var á Akureyri í janúar til mars. En það var snjólétt um haustið og í desember á Akureyri og í Reykjavík.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1313,7 sem er 45 fleiri en í meðalári 1961 til 1990, en 73 færri en að meðaltali síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1278,8 eða 234 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 en 227 fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára.

Í Reykjavík var sólríkt í júlí, en sólskinsstundafjöldi var nálægt meðallagi aðra mánuði. Sólskinsstundafjöldi á Akureyri var vel yfir meðallagi frá mars til ágúst. Sólarlítið var á Akureyri í febrúar.

Loftþrýstingur

Meðalþrýstingur í Reykjavík var 1002,5 hPa og er það -3,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðalþrýstingur í janúar og febrúar var óvenjulágur. Mánaðarþrýstimeðaltalið í janúar er það lægsta í nokkrum mánuði í Reykjavík síðan í febrúar 1997.

Hæsti loftþrýstingur ársins mældist 1050,5 hPa á Hjarðarlandi þ. 28. mars. Þetta er hæsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu frá 16.apríl 1991, en þá mældist hann 1050,8 hPa á Egilsstöðum. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 932,3 hPa í Surtsey þ. 15. febrúar.

Þrýstingur var óvenju lágur í janúar og febrúar og neikvæð mánaðarvik voru lang mest í þeim mánuðum. Þrýstingur var yfir meðallagi í apríl, maí, júní og október.

Vindhraði og vindáttir

Meðalvindhraði á landinu var óvenju hár á árinu, eða 0,6 m/s yfir meðallagi.

Fyrstu þrír mánuðir ársins voru óvenju illviðrasamir. Meðalvindhraði var meiri en vant er og loftþrýstingur lægri. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis.

Illviðradagar í janúar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið.

Í febrúar gekk mikið austanveður yfir landið þ. 14. og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst.

Meðalvindhraði í mars var mikill og hefur ekki verið eins hár í marsmánuði síðan í mars árið 2000.

Í apríl gekk mikið illviðri (norðaustan) yfir landið dagana 4. til 5. og er það í flokki hinna verstu í apríl.

Desemeber var óvenju vindasamur. Meðalvindhraði í desember hefur ekki verið eins hár síðan í desember árið 1992 (en þá var hann töluvert hærri).

Vindhraði á landsvísu var yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í ágúst og október. Meðalvindhraði var óvenjumikill í janúar, mars og desember.


Allar vindathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (2000 til 2019). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Norðlægar áttir (appelsínugular súlur) voru tíðar í febrúar, júlí og óvenju tíðar í desember. Sunnanáttir voru ríkjandi í maí, júní, ágúst og nóvember. Vestanáttir voru óvenju tíðar í janúar og nóvember auk þess að vera ríkjandi í maí, júlí, ágúst og september. Austlægar áttir voru ríkjandi í febrúar, október og desember.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Janúar var mjög illviðrasamur. Meðalvindhraði var óvenju hár og sá hæsti síðan í febrúar 2015. Illviðradagar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið. Úrkoma var vel yfir meðallagi um mest allt land. Mjög snjóþungt var á Vestfjörðum og féllu tvö stór snjóflóð á Flateyri og það þriðja í Súgandafirði þ. 14. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum vegna óveðurs.

Febrúar

Febrúar var fremur kaldur um land allt. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. Versta veðrið var þ. 14. þegar mikið austanveður gekk yfir landið og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst. Loftþrýstingur var óvenju lágur yfir landinu í febrúar.

Mars

Mars var fremur kaldur og tíð óhagstæð. Vindhraði var vel yfir meðallagi, illlviðri tíð og töluverðar truflanir voru á samgöngum. Mjög snjóþungt var um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum.

Apríl

Apríl var mjög kaldur framan af en síðustu tíu dagarnir voru fremur hlýir og sólríkir. Sólskinsstundirnar voru óvenju margar á Akureyri. Mikið norðaustan illviðri gekk yfir landið dagana 4. til 5. apríl og er það í flokki hinna verstu í apríl.

Maí

Maí var óvenju þurr og sólríkur norðaustanlands. Hiti var alls staðar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en um og yfir meðaltali síðustu tíu ára. Að tiltölu var hlýjast við strendur en kaldara inn til landsins. Þó nokkur snjór var á hálendinu.

Júní

Hlýtt var á landinu í júní og tíð hagstæð. Hlýjast var á Norðausturlandi en tiltölulega svalara suðvestanlands. Vindur og úrkoma voru víðast hvar nærri meðallagi.

Júlí

Júlí var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Hiti var hins vegar nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Að tiltölu var einna hlýjast um landið suðaustanvert, en hvað kaldast um landið norðanvert og norðaustanvert þar sem mánuðurinn var allvíða kaldari en júní. Þrátt fyrir þetta var tíð í aðalatriðum hagstæð. Vindur og úrkoma voru víðast nærri meðallagi.

Ágúst

Ágúst var fremur hlýr, sérstaklega á Norðausturlandi. Meðalhitinn í ágúst var víðast hvar hærri en meðalhiti júlímánaðar. Fyrri hluti mánaðarins var mjög úrkomusamur sunnan- og vestanlands. Á meðan var hlýtt á Norður- og Austurlandi. Mjög hlýtt var á Austurlandi um miðjan mánuðinn og mældist hitinn víða vel yfir 20 stig.

September

September var fremur svalur og hiti undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Úrkoma var í meira lagi og fyrsti snjór vetrarins féll víða norðanlands.

Október

Tíðarfar í október var hagstætt. Mánuðurinn var fremur hlýr og hægviðrasamur. Austlægar áttir voru tíðar í mánuðinum. Þurrt var á vestanverðu landinu en blautara austanlands.

Nóvember

Tíð var nokkuð hagstæð í nóvember og samgöngur greiðar. Að tiltölu var hlýjast austanlands en að tiltölu kaldast sunnan- og vestanlands. Mjög kalt var á landinu dagana 18. til 19. Óveðrasamt var á landinu dagana 4. og 5. og aftur dagana 26. og 27.

Desember

Desember var óvenju úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Mikil úrkomuákefð var á Austfjörðum dagana 14. til 18. og féllu miklar aurskriður á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18. Meðalvindhraði á landsvísu var óvenju mikill í mánuðinum. Hvöss norðanátt gekk yfir landið dagana 2. til 4. með hríðarveðri norðan- og austanlands og olli þónokkrum samgöngutruflunum. Mánuðurinn var þó með snóléttasta móti miðað við árstíma. Kalt var á landinu í byrjun mánaðar en þónokkur hlýindi voru á landinu um hann miðjan.

Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2020 (textaskjal)

Lesa meira

Veður

Nýr búnaður til að vakta skriðuhættu settur upp á Seyðisfirði

Birt

þann

Eftir

Stóra skriðan á Seyðisfirði er sú stærsta sem fallið hefur í þéttbýli á Íslandi


Hlíðin ofan við byggðina haldist nokkuð stöðug

7.1.2021

Ekki hefur orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni ofan Seyðisfjarðar frá því fyrir jól. Óveruleg hreyfing hefur mælst síðan 23. desember í daglegum mælingum. Vatnsþrýstingur í hlíðinni hefur lækkað niður undir fyrra horf og breytist ekki mikið þó nokkuð hafi rignt eða snjóa leyst. Hlíðin hefur fengið á sig nokkra hlýindakafla frá því að stóra skriðan féll þann 18. desember og talsverða rigningu þann 27. desember án þess að skriður tækju að falla. Talið er að jarðlög sem los kom á í skriðuhrinunni hafi að mestu sest í sínar fyrri skorður og að nýtt úrkomutímabil þurfi til þess að skapa hættu á skriðuföllum. Enn er þó talin hætta á að hrunið geti úr skriðusárum en ekki að slík skriðuföll nái byggðinni utan svæðisins þar sem stóra skriðan féll. Almannavarnir hafa aflétt að mestu rýmingu húsnæðis nema fyrir hús næst skriðusvæðinu. Umferð hefur verið heimiluð um svæðin þar sem varað hafði verið við skriðuhættu nema að sérstök aðgæsla er viðhöfð í sambandi við umferð um skriðusvæðin og starfsemi þar. Einnig hefur fólk verið varað við að fara um þau svæði hlíðarinnar þar sem skriður áttu upptök og sprungur mynduðust í skriðuhrinunni. 

Hluti af nýjum vöktunarbúnaði sem flytja þarf til landsins þegar kominn upp

Vöktun hlíðanna ofan bæjarins hefur þegar verið efld umtalsvert frá því sem var áður en skriðurnar féllu. Fylgst er með hreyfingu jarðlaga sem og vatnshæð í borholum í hlíðinni, en hvort tveggja gefur vísbendingar um skriðuhættu. Unnið er að því að auka tíðni og nákvæmni mælinga enn frekar með sjálfvirkum búnaði og hafa sérfræðingar Veðurstofunnar og samstarfsaðilar unnið hörðum höndum að undirbúningi frekari vöktunar ásamt  uppsetningu á nýjum vöktunarbúnaði. Mikið af þessum nýja búnaði þarf að kaupa erlendis frá. Búnaður til mælingar á hreyfingu jarðlaga kom til landsins á mánudag 4. janúar og verður uppsetningu þess búnaðar lokið í vikunni.

Meðal þess búnaðar sem fest hafa verið kaup á er sjálfvirk alstöð sem sett hefur verið upp norðan fjarðar, en slíkur búnaður skýtur geisla í spegla sem komið var fyrir í Neðri-Botnum og Botnabrún og nemur hreyfingu á þeim. Helstu gallar við mælingar á speglum eru að þær eru háðar skyggni og snjóalögum og því er erfitt að mæla í þoku, mikilli úrkomu eða þegar mælisvæðið er hulið snjó. Mælingarnar eru punktmælingar þar sem hreyfing er einungis mæld á stöðum þar settir hafa verið speglar. (Ljósmynd: Veðurstofan / Bjarki Borgþórsson)

Aðstæður til vöktunar á Seyðisfirði mjög krefjandi

Veðurskilyrði geta haft áhrif á virkni vöktunarbúnaðar og því mikilvægt að sú tækni sem notuð er sé sem mest óháð aðstæðum s.s. lélegu skyggni eða snjóalögum. Meðal þess búnaðar sem veður hefur lítil áhrif á eru síritandi GPS-stöðvar. Slíkur búnaður gefur tíðari og nokkuð nákvæmar mælingar nánast óháð veðri. Unnið að því að koma fyrir samfelldum og síritandi GPS-stöðvum á helstu hugsanlegum upptakasvæðum stórra skriðna. Að auki verður sjálfvirkur úrkomumælir settur upp í hlíðinni í Neðri-Botnum.  Sjálfvirkur úrkomumælir er þegar rekinn í bænum á Seyðisfirði og annar aðeins utan við þéttbýlið á Vestdalseyri. Það getur verið mikill munur á úrkomu milli staða innan fjarðarins og því er talið mikilvægt að mæla úrkomu uppi á stallinum til að fá sem besta mynd af aðstæðum hverju sinni.

Stóra skriðan sem féll 18. desember var um 190 m breið þar sem hún féll niður í gegnum byggðina og út í sjó. Hún var um 435 m löng frá efsta brotsári út í ysta hluta tungunnar. Flekinn sem fór af stað úr meginupptakasvæðinu var 15−17 m að þykkt þar sem hann var þykkastur. Á myndinni er afmarkaður fleki sem gæti mögulega hlaupið fram og er þessi hluti hlíðarinnar vaktaður sérstaklega. (Ljósmynd: Sérsveit ríkislögreglustjóra)

Hraða uppsetningu á nýjum vöktunarbúnaði eftir bestu getu

Gengið verður frá mælikerfinu þannig að vöktunartæki sendi sjálfvirkar aðvaranir á vakt Veðurstofunnar þegar ákveðnum þröskuldsgildum í uppsafnaðri úrkomu og hreyfingu jarðlaga er náð. Stefnt er að því að ljúka uppsetningu á GPS búnaðinum og úrkomumælinum í janúar. „Við höfum reynt að hraða uppsetningu á nýjum og öflugri búnaði eins mikið og kostur er“, segir Magni Hreinn Jónsson ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni. „Það er mikilvægt að við reynum að draga úr óvissu fyrir íbúana og þá jafnframt þeirri óvissu sem sérfræðingar standa frammi fyrir við að meta hættu á skriðum. Með fleiri mælitækjum og aukinni sjálfvirkni getum við minnkað þessa óvissu, en jafnframt verðum við að horfast í augu við það að við getum aldrei eytt henni. Því má búast við því að grípa þurfi til rýminga oftar en áður. Markmiðið er auka öryggi íbúa eftir bestu getu en í því samhengi þarf hinsvegar að fara saman vöktun, rannsóknir, uppsetning varnarmannvirkja en kannski ekki síst langtímastefnumörkun í skipulagi þannig að skriðuhætta og önnur ofanflóðahætta fari minnkandi þegar til lengri tíma er litið“, segir Magni.

Auk þess búnaðar sem nefndur er hér að ofan skoða sérfræðingar Veðurstofunnar fleiri leiðir til þess að vakta hlíðina ofan bæjarins, en eins leiðir til að afla gagna til frekari rannsókna á jarðlögum svæðisins.

  • Í Botnabrún og Þófa eru nú þegar borholur til mælingar á grunnvatni. Þær voru þáttur í undirbúningi vegna frumathugunar á vörnum á svæðinu. Í fimm þeirra eru nú síritandi þrýstingsmælar og fest hafa verið kaup á síritandi mælum fyrir fimm holur til viðbótar.
  • Kannaður verður möguleiki á því að setja upp togmæla yfir einhverjar af þeim sprungum sem nú eru á svæðinu. Þeir eru síritandi og mæla gliðnun og hafa reynst vel á Svínafellsheiði, þar sem fylgst er með gliðnun á sprungum í bergi. Í þessu tilfelli er um að ræða sprungur í jarðvegi og setlögum og því þarf að kanna hvort að þessi tækni hentar við þær aðstæður. Mögulega verða þá staurar reknir niður djúpt í jörðu og togmælar settir upp á milli þeirra.
  • Líklega þarf einnig að rannsaka jarðlög svæðisins betur með því að bora holur sem ná alla leið í gegnum setlögin niður á berg.  Í holurnar er hægt að setja mælikapla sem mæla aflögun og geta verið með síritandi búnaði. Þetta er talið mikilvægt til þess að greina betur jarðlög á svæðinu og átta sig á því á hvaða dýpi hreyfing á sér stað. Vöktun með mælingum í borholum hefur þann kost að hún er óháð veðri og snjóalögum.

Veðurstofan leggur til að búnaður sem nýtist til að kortleggja óstöðugar hlíðar á Íslandi verði prófaður á Seyðisfirði

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa bent á mikilvægi þess að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar hér á landi með skipulögðum hætti. Taka þarf með í reikninginn hversu mikil hætta fólki kann að stafa af framhlaupi á viðkomandi stöðum. Þar sem óstöðugar hlíðar geta ógnað byggð, samgönguleiðum eða fjölmennum ferðamannastöðum þarf að setja upp viðeigandi vöktun. Eitt af því sem hægt er að nota til þess að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar eru bylgjuvíxlmælingar (InSAR-mælingar). Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa lagt til að slíkur búnaður yrði prófaður í vetur á Seyðisfirði. Mælingar með InSAR radar eru óháðar skyggni og skila niðurstöðum á hreyfingu fyrir heil svæði. Með slíkum mælingum er hægt að sjá aflögun lands með millimetra nákvæmni.

InSAR tæknina er bæði hægt að nota með búnaði sem komið er fyrir á jörðu niðri, líkt og gert yrði á Seyðisfirði, sem og með notkun gervitungla. Í Noregi er lokið stóru verkefni þar sem sett hefur verið upp regluleg úrvinnsla bylgjuvíxlmælinga úr gervitunglum fyrir allt landið. Slíkar mælingar gagnast ekki aðeins til þess að greina óstöðugar hlíðar, heldur er einnig hægt að sjá t.d. landhæðarbreytingar við ströndina og í borgum. Bylgjuvíxlmælingar hafa verið notaðar hér á landi til þess að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum, m.a. af völdum landreks, rýrnunar jökla og í tengslum við eldgos. Í þeim rannsóknum hafa komið fram hreyfingar sem tengjast framhlaupum og aðdraganda þeirra.

Bylgjuvíxlmælingar sýna að fjallshlíðin á Osmundsnesi við Hyefjörð í Sogn- og Firðafylki í Vestur-Noregi er að hreyfast á um 1 km löngum kafla skammt undir fjallsbrúninni þar sem hlíðin er sprungin af völdum hreyfingarinnar. Svæði þar sem hreyfing er lítil sem engin eru litið blá en gulur og rauður litur auðkennir svæði sem hreyfast um u.þ.b. 0,5 cm á ári.

Unnið að frumathugun á því hvaða varnavirki henta best

Veðurstofan kynnti nýtt ofanflóðahættumat fyrir Seyðisfjarðarbæ í ágúst 2019 en þar kom fram að nýja matið kallaði meðal annars á varnaraðgerðir fyrir íbúðabyggðina í suðurbænum vegna hættu á stórum skriðum úr Neðri-Botnum. Í sumar hófu starfsmenn verkfræðistofunnar Eflu í samráði við svissneska sérfræðinga að meta hvaða kostir komi helst til greina og hefur þeirri vinnu nú verið flýtt. Næsta vor er miðað við að fyrir liggir fyrstu upplýsingar úr frumathugun á því hverskonar varnarmannvirki henta best.

Upptök stóru skriðunnar þann 18. desember 2020 unnin með landlíkani og ljósmyndum sem teknar voru úr flygildi sérsveitar ríkislögreglustjóra þann 26. desember. Rúmmál geilarinnar sem myndaðist í brúnina þar sem skriðan fór af stað er um 65 þúsund m³ samkvæmt mælingum á landhæðarbreytingum með flygildi. Það magn samsvarar um 5000 vörubílsförmum og er þetta stærsta skriða sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin