Connect with us

Stjórnarráðið

Þrír norrænir fundir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í dag

Birt

on

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ræddi viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum, málefni þróunarsamvinnu og öryggis- og varnarmál á þremur norrænum ráðherrafundum sem fram fóru í dag í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Skýrsla Björns Bjarnasonar um norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála var áberandi umræðuefni á fundunum en jafnframt bar endurfjármögnun Norræna þróunarsjóðsins og loftslagsmál á góma.  

Á sameiginlegum utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var meðal annars rætt um samstarf ríkjanna í öryggismálum, málefnum norðurslóða, á sviði afvopnunar og mannréttinda en einnig varnir gegn kórónuveirunni, svo fátt eitt sé nefnt. Vitnuðu margir þátttakenda til skýrslu sem Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, gerði fyrir norrænu utanríkisráðherrana að tillögu íslenska utanríkisráðherrans um áskoranir og tækifæri sem Norðurlöndin standa frammi fyrir í utanríkis- og öryggismálum. Var hún annars vegar talin til marks um náið samband Norðurlandanna og hins vegar væri hún ákveðinn vegvísir til framtíðar. 
 
„Heimsfaraldurinn hefur sannarlega orðið til þess að samskipti og samráð Norðurlandanna hafa vaxið til muna og það er vel,“ segir Guðlaugur Þór. „Við eigum gott samstarf og samráð á öllum stigum og deilum í megindráttum sýn á heimsmálin og það styrkir okkur svo, hvert fyrir sig, sem og heildina, að geta talað einu máli á vettvangi alþjóðastofnana. Það gerum við einmitt í mjög ríkum mæli.“ 
 
Þá tók Guðlaugur Þór þátt í fjarfundi norrænna þróunarsamvinnuráðherra þar sem aukinn ójöfnuður vegna COVID-19 og samstarf Norðurlandanna um stuðning við betri og grænni uppbyggingu þróunarlanda eftir heimsfaraldurinn voru meðal annars til umræðu. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að byggja upp getu heilbrigðiskerfa til að takast á við heimsfaraldra, þróun í átt að grænum og loftslagsaðlöguðum hagkerfum, og að jafnrétti og réttindi kvenna og stúlkna verði áfram tryggð. Ísland hefur leitt sérstakan samstarfshóp Norðurlandanna um jafnrétti. 

„Það er áhyggjuefni að kynbundið ofbeldi, sérstaklega heimilisofbeldi, hefur aukist mikið í heimsfaraldrinum. Við höfum þess vegna m.a. stutt Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson. 

Ráðherrarnir lýstu yfir ánægju með samvinnuna og tiltóku að endurfjármögnun Norræna þróunarsjóðsins (NDF) væri mikilvæg fyrir Norðurlöndin til að ná markmiðum sínum að styðja þróunarríki til að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiðunum. Endurfjármögnunin hljóðar upp á 350 milljónir evra til næstu tíu ára og verður hlutur Íslands 1,5% eða um 870 milljónir króna, sem greiðist árin 2022-2031. 

Síðdegis átti Guðlaugur Þór svo fjarfund með öðrum varnarmálaráðherrum Norðurlanda ásamt forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þar var skýrsla Björns Bjarnasonar einnig til umræðu, svo og áhersluatriðin í formennsku Dana í NORDEFCO, varnarmálasamstarfi norrænu ríkjanna. Þá voru netöryggismál og svonefndar fjölþáttaógnir ofarlega á baugi.  

„Það kemur æ betur í ljós hversu mikilvægt innlegg í öryggismálasamstarf Norðurlanda skýrsla Björns Bjarnasonar er. Hún dregur fram þær miklu öryggisáskoranir sem blasa við okkur vegna fjölþáttaógna, og þar með talið netógna, falsfrétta og misvísandi upplýsinga, sem hafa aukist mikið undanfarin ár samhliða örri tækniþróun, hraðari tengingum og sjálfvirknivæðingu. Þetta kallar á bætta ástandsvitund, aukið viðnámsþol og viðbragðsgetu. Í því samhengi skiptir norrænt samstarf gríðarmiklu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Lesa meira

Innlent

Flugsamgöngur til Boston tryggðar út árið

Birt

on

By

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur framlengt samning við Icelandair um að tryggja lágmarksflug til Bandaríkjanna út árið. Samningurinn gerir ráð fyrir að flogið verði minnst tvisvar í viku til Boston á tímabilinu. 

Samningur við Icelandair um að tryggja millilandaflug til Bandaríkjanna með flugi til Boston hefur verið framlengdur í þrígang í ár. Nýr viðauki gildir til og með 31. desember. Allar tekjur Icelandair af flugi til Boston munu lækka greiðslur vegna samningsins.

Markmiðið er sem fyrr að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu vegna þess ástands sem skapast hefur vegna Covid-19 faraldursins. Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sem undirrituðu samninginn með rafrænum hætti.

Lesa meira

Innlent

Lög á deilu flugvirkja

Birt

on

By

Dómsmálaráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frumvarps sem lagt verður fyrir alþingi í dag sem bindur enda á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Landhelgisgæsla Íslands er ein af grunnstoðum öryggis- og almannavarna í landinu. Þörfin fyrir öfluga björgunarþjónustu er hvað brýnust á þessum tíma árs þegar dimmasta skammdegið fer í hönd. Hættulegar veðurfarslegar aðstæður geta skapast víða um land og þá ekki síst fyrir sjófarendur á miðunum í kringum landið. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki aðeins nauðsynlegar við leit og björgun á sjó og landi heldur sinna þær einnig sjúkraflugi og eru þannig einnig mikilvægur hlekkur í heilbrigðis- og öryggisþjónustu fyrir allan almenning. Verkfall flugvirkja hefur stefnt þessu öryggi í mikla tvísýnu. Staðan er óviðunandi og ég tel ekki rétt að ein stétt hjá Landhelgisgæslunni geti haft þessi gífurlegu áhrif á öryggismál þjóðarinnar, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að öðrum mikilvægum starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að fara í verkfall með vísan til almannahagsmuna.Samninganefnd ríkisins hefur boðið flugvirkjum Gæslunnar nýjan samning með sömu hækkunum og aðrir hafa fengið en ekki samþykkt eldra fyrirkomulag með tengingu við kjarasamning Icelandair. Þessar viðræður hafa nú siglt í strand og flugvirkjar hafa hafnað sáttatillögu ríkissáttasemjara um eins árs samning. Kjaradeilan varðar almannahagsmuni og almannaöryggi. Starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar verður einfaldlega að komast í eðlilegt horf án tafar.Ég hef því lagt það til og ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp að lögum til að stöðva verkfallið og gerðardómi verði falið að ákveða kaup og kjör flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hafi samningar ekki tekist fyrir 4. janúar nk. Einnig verður gerðardómi ætlað að taka til meðferðar útfærslu á tengingu kjarasamnings flugvirkja við aðrar sambærilegar starfsstéttir á almennum vinnumarkaði. Allt er þetta skýrt mun nánar í greinargerð með frumvarpinu sem ég mun mæla fyrir í þinginu í dag.“

Lesa meira

Innlent

Brandenburg valið úr hópi umsækjenda í hönnun og þróun einkennis Fyrirmyndaráfangastaða

Birt

on

By

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs auglýstu á dögunum eftir hönnuði eða hönnunarteymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis og kynningarefnis fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar, sem ber vinnuheitið Fyrirmyndaráfangastaðir í ferðaþjónustu.

Alls bárust 13 umsóknir um að taka verkefnið að sér en að lokum var það niðurstaða valnefndar að bjóða auglýsingastofunni Brandenburg verkefnið. 

„Ég vil þakka Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fyrir að leiða valferlið og við hlökkum til að vinna að mótun ásýndar Fyrirmyndaráfangastaða með Brandenburg, í þágu íslenskrar ferðaþjónustu”, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- ,iðnaðar – og nýsköpunarráðherra.  „Undanfarin ár hefur uppbygging innviða á áfangastöðum ferðamanna um land allt verið í fyrirrúmi, með áherslu á náttúruvernd og öryggismál. Með þessu verkefni höldum við áfram á þeirri braut en með nýrri nálgun á áfangastaðastjórnun, sem tekur aukið tillit til upplifunar gesta og sérkenna hvers staðar. Það er okkar von að Fyrirmyndaráfangastaðir efli jákvæða ímynd Íslands sem lands sjálfbærrar þróunar, í takt við framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustunnar til 2030.” 

Markmiðið með Fyrirmyndaráfangastöðum er að skapa umgjörð utan um hugmyndafræði heildstæðrar nálgunar í áfangastaðastjórnun. Hægt er lesa nánar um verkefnið hér.

Við á Brandenburg erum einstaklega ánægð með að hafa verið valin úr sterkum hópi umsækjenda og mjög spennt fyrir þessu mikilvæga verkefni. Við tökum glöð við þeirri ábyrgð sem það felur í sér. Okkar hlutverk verður að skapa bæði merki og umgjörð Fyrirmyndaráfangastaða með skírskotun í allt hið sérstæða sem gerir Ísland að spennandi áfangastað ásamt því að finna verkefninu viðeigandi heiti,“ segir Rúna Dögg Cortez, viðskiptastjóri hjá Brandenburg „Við sóttumst eftir því að taka þátt í verkefninu því það vakti áhuga okkar og sameinaði ástríðu okkar fyrir hönnun og Íslandi. Fyrirmyndaráfangastaðir er verkefni sem augljóslega hefur verið lögð mikil vinna í að undirbúa og er ánægjulegt að vera hluti af áframhaldandi vinnu við að styrkja sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar.“

Í valnefnd sátu María Reynisdóttir, sérfræðingur, fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Einar Á. E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Magnús Hreggviðsson, grafískur hönnuður, fulltrúi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin