Stutt yfirlit

3.3.2020

Febrúar
var fremur kaldur
um land allt. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur
riðluðust margoft vegna óveðurs. Versta veðrið var þ. 14.
þegar mikið austanveður
gekk yfir landið og
bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið
tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á
Faxaflóasvæðinu
þar sem veðrið var einna verst. Loftþrýstingur var
óvenju lágur yfir landinu í febrúar.

Hiti

Meðalhiti
í Reykjavík í febrúar var 0,3 stig og er það -0,1 undir
meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,2 stigum undir meðallagi
síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,5 stig, -0,1
stigi undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,6 stigum undir
meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn
-0,2 stig og 1,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita
og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2010-2019 °C
Reykjavík 0,3 -0,1 60 150 -1,2
Stykkishólmur -0,1 0,6 56 175 -0,9
Bolungarvík -0,6 0,4 49 123 -1,1
Grímsey -0,3 0,7 50 147 -1,2
Akureyri -1,5 -0,1 72 140 -1,6
Egilsstaðir -1,8 0,1 35 66 -1,8
Dalatangi 1,1 0,5 34 82 -1,1
Teigarhorn 0,7 0,4 58 til 59 148 -1,1
Höfn í Hornaf. 1,1 -0,9
Stórhöfði 1,8 -0,2 62 144 -1,0
Hveravellir -6,0 -0,1 31 56 -1,6
Árnes -1,1 -0,1 58 141 -1,3

Meðalhiti
og vik (°C) í febrúar 2020

Febrúar
var kaldur og hiti
var undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Neikvætt
hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,5 stig á
Breiðadalsheiði en mest -2,0 stig í Möðrudal.

Hitavik
sjálfvirkra stöðva í febrúar miðað við síðustu tíu ár
(2010-2019).

Meðalhiti
mánaðarins var hæstur 2,8 stig í Surtsey en lægstur -7,0 stig í
Sátu. Í byggð var meðalhitinn lægstur -4,9 stig í Möðrudal.

Hæsti
hiti mánaðarins mældist 17,0 stig á Kvískerjum þ. 5. Mest frost
í mánuðinum mældist -28,1 stig við Mývatn þ. 13.

Úrkoma

Úrkomusamt
var á Austur- og Norðurlandi í febrúar á meðan þurrara var á
vestari hluta landsins.

Úrkoma
í Reykjavík mældist 55,4
mm sem er um 80% af
meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist
úrkoman 82,6
mm sem er nærri tvöfalt meiri úrkoma en að meðallagi 1961 til
1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 46,8 mm og 169,4 mm á Höfn
í Hornafirði.

Dagar þegar
úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 11,
tveimur færri en
í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14
daga mánaðarins, 6
fleiri en í meðalári.

Snjór

Alhvítir
dagar í Reykjavík voru 10, tveimur færri en að meðaltali 1971
til 2000. Á Akureyri voru alhvítir dagar 25 sem er 6 dögum fleiri
en að meðaltali 1971 til 2000.

Sólskinsstundafjöldi

Í
Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 50,5 sem er 1,4 stundum færri
en í meðallagi í febrúar. Sólskinsstundir voru fáar á
Akureyri, 13,2 sem er 23 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Vindur
á landsvísu var 0,6 m/s yfir meðallagi. Austlægar áttir voru
ríkjandi. Mánuðurinn var illviðrasamur og riðluðust
samgöngur margoft vegna veðurs. Mikið austanveður gekk yfir
landið þ. 14. og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára.
Töluvert tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi,
Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna
verst.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur
var óvenju lágur í febrúar.

Meðalloftþrýstingur
í Reykjavík mældist 981,9 hPa og er það 20,7 hPa undir meðallagi
áranna 1961 til 1990. Mánaðarþrýstimeðaltalið
hefur aðeins 5
sinnum verið lægri í febrúar síðustu 200
árin. Lægsta meðaltalið er frá 1990, 976,3 hPa.

Hæsti
loftþrýstingur mánaðarins mældist
1013,8 hPa í Önundarhorni þ. 4. Lægstur mældist
loftþrýstingurinn 932,3 í Surtsey þ. 15. Það er þriðji lægsti
þrýstingur sem mælst hefur í febrúarmánuði, síðast var hann lægri
1989 þegar þrýstingur á Stórhöfða mældist 931,9 hPa.

Fyrstu
tveir mánuðir ársins

Meðalhiti
í Reykjavík var 0,3 stig sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna
1961 til 1990 en 1,0 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára.
Meðalhitinn raðast í 53. sæti á lista 150 ára. Á Akureyri var
meðalhiti mánaðanna tveggja -1,0 stig. Það er 0,9 stigum yfir
meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,9 stigum neðan meðallags
síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 46. til 47. sæti á
lista 140 ára. Úrkoma hefur verið 20% umfram meðallag í
Reykjavík, en um 65% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl
fyrir febrúar

Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2020
(textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.