Mjög snjóþungt var um landið norðanvert í mars. Hér er mynd af sumarbústað í Unadal í Skagafirði tekin 14. mars. Einungis sést í sjónvarpsloftnet á þaki hússins. Ljósmynd: Jón Þór Jósepsson.


Stutt yfirlit

3.4.2020

Mars
var fremur kaldur og tíð óhagstæð. Vindhraði var vel yfir meðallagi, illlviðri tíð og töluverðar truflanir voru á
samgöngum. Mjög
snjóþungt var um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum.  

Hiti

Meðalhiti í
Reykjavík mældist 0,4 stig, -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1961 til 1990 en -1,5
stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig, 0,9
stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,9 stigum neðan meðallags
síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -0,3 stig og 1,3 stig á Höfn í
Hornafirði.

Meðalhita
og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti
og vik (°C) í mars 2020

Mars var kaldur og
hiti undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Að tiltölu var hlýjast við
austurströndina en að tiltölu kaldast inn til landsins suðvestanlands. Neikvætt
hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,2 stig í Seley en mest -2,3 stig
í Þúfuveri.

Hitavik
sjálfvirkra stöðva í mars miðað við síðustu tíu ár (2010–2019).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í
Surtsey, 2,9 stig. Lægstur var hann við Sátu -7,0 stig. Í byggð var meðalhitinn
lægstur í Möðrudal, -4,9 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -28,3
stig á Setri þ. 7. Mest frost í byggð mældist -23,9 stig í Svartárkoti þ. 7.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,9 stig á Höfn í Hornafirði þ. 29.Úrkoma

Úrkoma

í Reykjavík
mældist 86,7 mm sem er 6% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri
mældist úrkoman 57,9 mm sem er 33% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Úrkoma
í Stykkishómi mældist 82,8 mm og 87,7 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma
mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 14, jafnmargir og í meðalári. Á
Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14 daga, fjórum fleiri en í meðalári.

Snjór

Mjög snjóþungt var
um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum í mánuðinum.

Alhvítir dagar í
Reykjavík voru 16, fjórir fleiri en að meðaltali 1971 til 2000.  Á Akureyri var alhvítt alla daga nema þann
síðasta, þá var flekkótt. Það er 14 dögum fleiri en að meðaltali 1971 til 2000
og það mesta síðan í mars 2014. Á Akureyri var snjódýptin mest 77 cm dagana 19.
til 20.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 113,9, sem er 2,8
stundum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 102,5, sem
er 25,7 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur

Meðalvindhraði á
landsvísu var mikill, eða um 1,2 m/s yfir meðallagi. Meðalvindhraði í mars
hefur ekki verið eins hár síðan í mars árið 2000. Illviðri voru tíð og töluverðar
truflanir voru á samgöngum í mánuðinum, sérstaklega í þeim landshlutum þar sem snjór
var mikill. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fyrri hluta mánaðarins en
suðvestlægar áttir í seinni hlutanum. Hvassast var á landinu dagana 1. til 2.
(austanátt), 10. til 11. (norðaustanátt), 22. til 23. (sunnanátt) og 30. til
31. (suðvestanátt) .

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur
í Reykjavík mældist 1001,2 hPa sem er 1,9 hPa undir meðallagi áranna 1961 til
1990. Loftþrýstingur var óvenjuhár á landinu þ. 28. Hæsti loftþrýstingur
mánaðarins mældist 1050,5 hPa á Hjarðarlandi þann dag. Þetta er hæsti
þrýstingur sem mælst hefur á landinu frá 16.apríl 1991, en þá mældist hann
1050,8 hPa á Egilsstöðum. Þetta er líka næsthæsti þrýstingur sem mælst hefur í
marsmánuði hér á landi, þann 6. árið 1883 fór þrýstingur í 1051,7 hPa í
Vestmannaeyjakaupstað. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 960,0 hPa á
Gufuskálum þ. 23.

Fyrstu þrír
mánuðir ársins

Meðalhiti í
Reykjavík var 0,3 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en
-1,2 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 57. sæti á
lista 150 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja -0.8 stig. Það er 0,9
stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, -0,9 stigum neðan meðallags síðustu
tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 49. sæti á lista 140 ára. Úrkoma hefur verið 16%
umfram meðallag í Reyjavík, en um 55% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir
mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2020
(textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstakatöflu.