Vegna frétta í fjölmiðlum um transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) vill spítalinn árétta að þjónusta fyrir þennan hóp er ennþá til staðar á deildinni en unnið er að því að finna bót á erfiðri stöðu þar sem skapast af skorti á fagmenntuðu starfsfólki til að manna teymið.

Þekkingin er afskaplega sérhæfð og það getur verið tímafrekt að finna nýja sérfræðinga í stað þeirra sem hætta. Breytingin á þjónustunni er ekki önnur en sú að umræddur sjúklingahópur er nú þjónustaður tímabundið á hefðbundinni göngudeild BUGL en ekki af sérstöku transteymi eins og áður var. Bráðaþjónusta er líka alltaf til staðar. Landspítali vinnur nú að umbótum í góðu og nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið vegna þess.