Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í utanríkisráðherrafundi Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og Visegrad-ríkja. Visegrad ríkin eru Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland. Afleiðingar COVID-19 heimsfaraldursins, efnahagsmál og þróun í þeim efnum í Evrópu voru til umfjöllunar.

Í ávarpi sínu á fundinum sagði ráðherra meðal annars að heimurinn stæði nú frammi fyrir nýrri alheimskreppu sem ætti sér enga hliðstæðu á þeim 75 árum, sem nú væru liðin frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar. Þessi kreppa hefði víðtækar félags- og efnahagslegar afleiðingar. Ríki heims stæðu frammi fyrir margvíslegum áskorunum, þar sem mikilvægt væri að standa vörð um grunngildi eins mannréttindi, lýðræði, réttarríkið og frjáls viðskipti, sem og friðhelgi yfirráðasvæðis.

„Ljóst er að öryggisumhverfi Evrópu hefur tekið breytingum undanfarin ár. Kórónuveirufaraldurinn hefur bæði orðið til þess að styrkja böndin og efla samstarf þjóða, en einnig opnað augun fyrir því hvað væri hægt að gera betur. Í tengslum við faraldurinn er mikilvægt að vinna betur að því að tryggja grunngildi, eins og frið og öryggi, réttarríki og mannréttindi, þar með talið kvenna og stúlkna og hinsegin fólks (LGBT). Því miður er það svo, að jafnvel í okkar heimshluta eru ákveðin merki um rof í þeirri samstöðu, að standa vörð um þessi sameiginlegu grunngildi,“ segir Guðlaugur Þór.

Þess má geta í þessu samhengi að Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Ungverjalandi, hefur einnig tekið upp beint við fulltrúa ungverska utanríkisráðuneytisins áhyggjur íslenskra stjórnvalda vegna nýlegra lagabreytinga í landinu sem skerða réttindi trans- og intersex fólks m.a. til kynleiðréttinga.

Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin og Visegrad-ríkin hittast að jafnaði einu sinni á ári og var þetta í áttunda sinn sem fundur er haldinn í þessum ríkjahópi.