Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) kom í eftirlitsheimsókn til íslands 14. – 23. október 2019. Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert eftirlit með framleiðslu mjólkur og kjöts sé í samræmi við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Þrír eftirlitsmenn komu til landsins og heimsóttu framleiðendur á Norður-, Suður- og Suðvesturlandi í fylgd starfsmanna Matvælastofnunar. Heimsóknin var yfirgripsmikil og náði allt frá frumframleiðslu bænda til lokaafurðar í mjólkur- og kjötvinnslum, allflestra búfjártegunda. 

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu. Þar koma fram athugasemdir um að áhættuflokkun Matvælastofnunar á framleiðendum þurfi að vera ítarlegri og að eftirlitsaðilar sem sinna eftirliti með þessum málaflokkum, tímabundið í hlutastörfum, þarfnist aukinnar þjálfunar.  Einnig koma fram efasemdir um örugga notkun eyrnamerkja í nautgripum og sauðfé og um nægjanlegt eftirlit með fjarlægingu á sérstökum áhættuvef nautgripa.  

Bent er á að skerpa þurfi á örverufræðilegum athugunum í mjólkurvinnslum og sláturhúsum og gerð er athugasemd við samræmingarhæfni opinberra rannsóknarstofa.

Með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá eftirlitsaðilum hérlendis, ásamt athugasemdum og leiðréttingum. Vinna við úrbætur er nú þegar hafin.