Kynbundinn launamunur
hjá stofnuninni er óverulegur

26.2.2020

Veðurstofa Íslands hefur nú klárað innleiðingu
jafnlaunakerfis í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85. Veðurstofan bætist þar
með í hóp þeirra 162 fyrirtækja og stofnanna á landinu sem hafa farið í gegnum
jafnlaunavottun samkvæmt lista
Jafnréttisstofu
.

Í þessari fyrstu atrennu kom í ljós að kynbundinn launamunur
hjá stofnuninni er óverulegur eða 1,41% körlum í hag, en markið
stofnunarinnar var að vera undir tveimur prósentum.  Því má með sanni
segja að um frábæran árangur sé að ræða og staðfesting á því góða starfi sem
unnið er í jafnréttismálum hjá stofnuninni. Sem dæmi má nefna að karlar innan BHM sem starfa hjá ríkinu voru að meðaltali með 5,7% hærri heildarlaun en konur innan BHM sem starfa hjá ríkinu á fyrri helmingi síðasta árs samkvæmt frétt á vef BHM .

Á Veðurstofunni starfa um 140 manns, en fyrirtæki og
stofnanir þar sem 150–249 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli þurfa að
hafa öðlast vottun eigi síðar en 31. desember 2020. Lögin ná yfir fyrirtæki og
stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli og
ná lögin því yfir um 1.180 atvinnurekendur.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum
launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var
lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna
og karla. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum
ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp
stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á
málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Jafnlaunavottunin er þriðja vottunin sem Veðurstofan hlýtur,
en áður hefur stofnunin fengið vottun í samræmi við ISO 9001 og ISO 27001
staðalinn.