Samfélagið á vissan hátt betur undirbúið til að takast á við áföll heldur en í kjölfar efnahagshrunsins.

Þann 19. júní heimsótti Velferðarvaktin Suðurnesin heim og fundaði með heimamönnum í Hljómahöllinni. Tilgangur fundarins var að fá yfirlit yfir helstu áskoranir á svæðinu í kjölfar Covid-19 og heyra hvernig heimamenn telja að staðan verði í haust og vetur.

Tekist á við áskoranir með dýrmætri reynslu og bættri tölfræði

Á fundinum drógu heimamenn m.a. fram að nú væri samfélagið á vissan hátt betur undirbúið til að takast á við áföll heldur en í kjölfar efnahagshrunsins. Helsti munurinn er sá að nú er hægt að grípa hratt til þeirrar dýrmætu reynslu sem varð til þá um hvað virki og hvað ekki. Þá er til mun betri tölfræði um stöðuna á svæði nú. Áskoranir eru fjölmargar vegna afleiðinga Covid-19. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 19,6% í maí m.a. vegna þess hve svæðið er háð flugrekstri og ferðaþjónustu. Búast má við að atvinnuleysi aukist í september ef ekki verður viðsnúningur í flugrekstri. Þá má búast við að fleiri fái fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélaganna með haustinu. Einnig eru áhyggjur af því að tekjutap foreldra geti valdið því að þeir kaupi minni þjónustu fyrir börnin s.s. skólamáltíðir, leikskólavistun og íþrótta- og tómstundastarf. Tilkynningar vegna barnaverndarmála hafa aukist sem og biðlistar vegna ýmiskonar þjónustu s.s. sálfræðiþjónustu og úrlausn mála hjá Vinnumálastofnun.

Fjölmargar aðgerðir virkjaðar á svæðinu

Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða og samstarfsverkefna meðal lykilaðila á svæðinu til að takast á við stöðuna í kjölfar Covid-19. Meðal þeirra eru:

  • Suðurnesjahópur, samráðshópur forvarnaaðgerða í kjölfar Covid-19 (lögreglan, Reykjanesbær, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum).
  • Ævintýrasmiðjurnar fyrir fötluð börn og ungmenni.
  • Skapandi sumarnámskeið fyrir börn á Ásbrú.
  • Dregið úr sumarlokunum, s.s. í athvarfi og iðju í Björginni og Hæfingarstöðinni og félagsstarfi aldraðra.
  • Hópur um atvinnumál fólks af erlendum uppruna.
  • Hópur um nýsköpun.
  • Ýmis verkefni á vegum Vinnumálastofnunar s.s. starfstengd námskeið/fræðsla/nám, starfsþjálfunarsamningar, mentor verkefni, markþjálfun og Nám er vinnandi vegur 2.
  • Sumarátakið Vinnum saman, sem er samstarf vinnuskóla Reykjanesbæjar, fræðslusviðs og Lögreglustjórans á Suðurnesjum.
  • Eftirfylgni á vegum skólanna þar sem m.a. námsráðgjafar hafa haldið sérstaklega utanum nemendur í brotthvarfshættu til að halda sem flestum í virkni.
  • Þá hafa ýmis verkefni, sem fóru af stað fyrir Covid-19, reynst vel s.s. verkefni á sviði barnaverndar eins ogÁbyrg saman í Reykjanesbæ, í samstarfi við Lögreglustjórann á Suðurnesjum og tilraunaverkefnið Fjölskylduheimili í Reykjanesbæ.

Hugur var í heimamönnum sem sinna velferðarþjónustu á Suðurnesjum og fluttu erindi á fundinum. Sá hugur kom m.a. fram í lokaorðum eins fyrirlesarans: áskoranir eru tækifæri, brúum bilið, byggjum brýr, skiljum engan eftir.

Velferðarvaktin þakkar vandaðan undirbúning fundarins og góðar móttökur Suðurnesjamanna.