Connect with us

Samtök Atvinnulífsins

Verður ekkert að frétta?

Birt

on

Verður ekkert að frétta?

Einkareknir fjölmiðlar á Íslandi eru í talsverðum vanda. Annars vegar hafa þeir þurft að keppa á auglýsingamarkaði við RÚV sem nýtur líka ríkisstuðnings. Hins vegar eru erlend stórfyrirtæki, eins og Facebook og Google, sífellt að taka til sín stærri sneið af auglýsingamarkaðnum. Þessi fyrirtæki greiða ekki skatta hér á landi og búa auk þess við mun hagstæðara skattaumhverfi í sínum heimalöndum.

Við þetta bætist svo kórónaveirukreppan sem hefur haft slæm áhrif á flestar atvinnugreinar. Það er því ljóst að þessi slæma staða er að miklu leyti á ábyrgð hins opinbera. Það er því eðlileg krafa að ríkið grípi til aðgerða til að bregðast við þessari stöðu. Í því felst enginn pilsfaldakapítalismi. Mennta- og menningarmálaráðherra lagði í fyrra fram frumvarp, til laga um stuðning við miðlana, sem náði ekki fram að ganga. Síðan þá hefur lítið spurst til langtímaaðgerða.

Stjórnvöld hafa víða vaxandi áhyggjur af falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Eftir því sem almenningur aflar sér frekar upplýsinga með samfélagsmiðlum og leitarvélum, og minna í hefðbundnum fjölmiðlum, blasir við að hætta vex á því að fólk fái ekki bestu mögulegu upplýsingar.

Við þurfum að gera það upp við okkur hvort við viljum að almenningur hafi greiðan aðgang að öflugum og áreiðanlegum einkareknum fréttamiðlum. Fyrir mér er svarið augljóslega já. Ef stjórnvöld eru því sammála þurfa þau að grípa fljótt til aðgerða til að bregðast við þessari stöðu. Ef þau gera það ekki er hætt við því að það verði ekkert að frétta á Íslandi.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Samtök Atvinnulífsins

Raunveruleikinn

Birt

on

By

Raunveruleikinn

Heimsfaraldurinn og sóttvarnaraðgerðir leggjast þyngst á ferðaþjónustu. Í alþjóðlegum samanburði eru fá ríki sem treysta eins mikið á ferðaþjónustu og Ísland. Nóg er að líta yfir íslenskar hagtölur til að átta sig á hversu alvarleg staðan er. Samdráttur í landsframleiðslu mælist nú meiri en í bankahruninu, atvinnuleysi hefur aldrei mælst hærra og nú stefnir í að 30 þúsund manns verði án atvinnu um áramótin.

Áhrif kreppunnar hér heima eru þung í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Því skýtur skökku við að laun á Íslandi séu ekki aðeins ein þau hæstu í heimi heldur séu launa- hækkanir mun hærri en þær sem við sjáum meðal flestra vestrænna ríkja.

Á öðrum ársfjórðungi hækkuðu laun hér á landi um 6,5% milli ára en til samanburðar hækkuðu laun að meðaltali um 1,9% á hinum Norðurlöndunum. Á sama tíma er atvinnuleysi hér eitt það hæsta í Evrópu. Ekki alls kostar ósvipað þeim atvinnuleysistölum sem við sjáum í syðri hluta álfunnar. Fyrir vinnuaflsfreka atvinnugrein eins og ferðaþjónustu kemur hár launakostnaður beint niður á áfangastaðnum Íslandi, sem er í beinni samkeppni um ferðamenn við önnur lönd.

Við vonum öll að sterkur efna- hagsbati taki við þegar faraldurinn er á enda. Við vitum hins vegar að slíkur bati gerist ekki án vaxtar ferðaþjónustu. Þó að íslensk náttúra sé sú fallegasta í heimi, þá má finna náttúruperlur víða. Samkeppnin er hörð. Fleiri ríki ætla að treysta á uppgang ferðaþjónustu þegar faraldurinn líður undir lok.

Þegar rætt er um mikilvægi þess að standa vörð um störf, er það ekki úr lausu lofti gripið. Aðgerðir í þá veru munu skila okkur betri lífskjörum og tryggja fleirum vinnu, fyrr en ella. Það er ekki eftirsóknarverð staða að vera hálaunaríki með eitt hæsta stig atvinnuleysis meðal vestrænna ríkja.

Hvernig sjáum við fyrir okkur að snúa þeirri stöðu við?

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Faraldur, skattar og dauði

Birt

on

By

Faraldur, skattar og dauði

Í dag taka nýjar sóttvarnaráðstafanir gildi með litlum fyrirvara. Þannig hefur þetta gengið frá upphafi faraldursins. Samtök atvinnulífsins kölluðu í síðustu viku eftir meiri fyrirsjáanleika í þessum aðgerðum. Spurt var hvort ekki væri hægt að setja langtímaáætlun um afléttingu takmarkana. Sum benda á að það sé ekki hægt því að það sé óvíst hvernig faraldurinn muni þróast. Það lýsir ákveðnum grundvallvarmisskilningi um eðli og tilgang áætlana.

Tilgangur áætlana er ekki að segja hvernig eitthvað verði, heldur frekar að segja að svona teljum við líklegast að þetta verði eða svona vonum við að þetta verði. Ef aðstæður breytast þá breytir fólk áætlunum. Þegar óvissa er sérstaklega mikil þá setur fólk upp sviðsmyndir.

Það er stundum sagt að það eina sem sé öruggt í tilverunni séu skattar og dauðinn. Vissan er þó ekki meiri en svo að við vitum að við deyjum og munum þurfa að borga skatta þangað til. En, það er fullkomin óvissa um það hvenær við deyjum og hversu háa skatta við munum þurfa að borga. Allt sem gerist í framtíðinni er því háð óvissu, meira að segja skattar og dauðinn.

Nú er meira en ár síðan fyrsta smitið í heiminum varð og tíu mánuðir síðan veiran barst til Íslands. Ríki heims, stofnanir og fyrirtæki hafa gert fjölda rannsókna og birt vísindagreinar. Á Íslandi hefur verið gert spálíkan um hvernig líklegast sé að faraldurinn þróist. Er óvissan enn svo mikil að ekki sé hægt að gera áætlanir lengur en nokkra daga fram í tímann?

Davíð Þorláksson er forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Lesa meira

Samtök Atvinnulífsins

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna atvinnulífsins

Birt

on

By

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu fimmtudaginn 4. febrúar 2020. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á [email protected], eigi síðar en mánudaginn 21. desember.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
  •  að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja,
  •  samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. 

Verðlaunin verða veitt á Menntadegi atvinnulífsins 4. febrúar 2021 en þetta er í áttunda sinn sem dagurinn er haldinn. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða fyrirtæki bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa hlotið verðlaunin til þessa. Orkuveita Reykjavíkur er menntafyrirtæki ársins 2020 og Samkaup menntasproti ársins 2020. Opnað verður fyrir skráningu á Menntadag atvinnulífsins á nýju ári.

Tengt efni:

Glefsur úr Menntadegi atvinnulífsins 2020 í Sjónvarpi atvinnulífsins

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin