Connect with us

Veðurstofan

Vísindaráð Almannavarna fundaði í dag

Birt

on

Jarðskjálftamælar sem tengdir eru rauntímavöktun Veðurstofunnar eru merktir á kortinu með þríhyrningi. Nýju mælarnir þrír sem bæst hafa við eru merktir með rauðum hring. Kortið sýnir einnig jarðskjálftavirkni síðustu tvo sólarhringa.


Rýnt í þær sviðsmyndir sem liggja fyrir og reynt að
draga fram þá þætti sem þarf að kanna betur

30.1.2020

Jarðvísindamenn hittust á
vísindaráðsfundi Almannavarna í dag og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og
jarðskjálftavirkni í grennd við Þorbjörn. Fundinn sátu vísindamenn frá
Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR, ásamt fulltrúum frá
almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, HS-Orku, Umhverfisstofnun og lögreglunni
á Suðurnesjum.

Á fundi vísindaráðs kom fram að
jarðskjálftavirkni heldur áfram á svæðinu og dreifist á nokkrar sprungur norður
af Grindavík. Þrír jarðskjálftamælar hafa bæst við rauntímavöktun Veðurstofunnar og tveir í viðbót bætast við á næstu dögum, sem bætir áreiðanleika í staðsetningu skjálfta. Fjölgun jarðskjálftamæla bætir
einnig getu eftirlitskerfisins til að greina mögulegan gosóróa.

Kvikuinnskot líklegasta skýringin á landrisinu

Landið við Þorbjörn rís enn og
nemur landrisið 3-4 cm þar sem það er mest. Veðurstofan hefur sett upp þrjá
nýja GPS mæla á svæðinu. Þær niðurstöður sem fengist hafa benda til að risið
eigi upptök á um 4 km dýpi en töluverð óvissa er enn á dýpi þenslumiðjunnar.
Merkin sem sjást eru til samræmis við að kvika sé að safnast fyrir í
jarðskorpunni. Líkanreikningar benda til að rúmmál kvikunnar sé nú 1-2 milljón
rúmmetrar. Of snemmt er að útiloka aðrar skýringar, en kvikuinnskot þykir sú
líklegasta. Engin áhrif kviku hafa komið fram í jarðhitakerfi Svartsengis.

Gas- og efnamælingar í
jarðhitavökva hafa verið auknar á jarðhitasvæðinu við Svartsengi og Eldvörp í
samstarfi við HS-orku. ÍSOR vinnur að þyngdarmælingum til að kanna og fylgjast
með mögulegum breytingum í jarðskorpunni samfara landrisinu.

Á fundinum var rýnt í þær sviðsmyndir
sem liggja fyrir og reynt að draga fram þá þætti sem þarf að kanna betur.
Sviðsmyndirnar voru meðal annars bornar saman við þekkta atburði á Íslandi og
annarsstaðar.

Næsti fundur vísindaráðs Almannavarna verður eftir viku
að öllu óbreyttu.

Lesa meira

Veður

Ársskýrsla Veðurstofunnar kemur út á prenti í síðasta sinn

Birt

on

By

Náttúra Íslands er stórbrotin og fær hún að njóta sín í nokkrum ljósmyndum í ársskýrslunni eins og svo oft áður. Hér er mynd sem Ragnar Th. Sigurðsson ljósmyndari tók við Bárðarbungu í árleglegri ferð Veðurstofunnar, Jöklarannsóknafélagsins og vísindamanna á Vatnajökul.


19.11.2020

Ársskýrsla Veðurstofu Íslands er óvenju innihaldsrík þetta árið. Tilefnið er 100 ára afmæli Veðurstofunnar sem var stofnuð árið 1920. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun Veðurstofunnar og er stiklað á stóru í sögu hennar í ársskýrslunni. Að auki er í skýrslunni hefðbundið yfirlit á náttúrufari ársins 2019.

Þetta er í síðasta sinn sem ársskýrslan er gefin út á pappír. „Það er ýmislegt sem kemur til“, segir Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofunnar, en hann og Sigurlaug Gunnlaugsdóttir, útgáfustjóri Veðurstofunnar, unnu saman að ársskýrslunni þetta árið. „Við á Veðurstofunni vinnum að því að minnka pappírsnotkun stofnunarinnar og það að hætta að prenta ársskýrsluna má segja að sé táknrænt skref í átt að því markmiði“, segir Haukur.

Framvegis mun skýrslan verða gefin út rafrænt og verið er að skoða hvaða viðmót hentar best fyrir skýrslur Veðurstofunnar. „Rafrænt viðmót gerir okkur til dæmis kleift að vera með tengla í ýmislegt efni sem tengist efni skýrslunnar hverju sinni, eitthvað sem myndi ekki rúmast á fáum prentuðum síðum“, segir Haukur. „Veðurstofan vinnur að því að bæta þjónustuna á stafrænum miðlum stofnunarinnar og það að þróa útgáfu á rafrænum skýrslum er hluti af þeirri vinnu sem við erum í þessa dagana. Vefurinn okkar er auðvitað mikilvægasti glugginn og jafnframt stærsta verkefnið þegar kemur að stafrænum miðlum og vonandi sjáum við afrakstur þeirrar vinnu á næsta ári þegar við erum orðin 101 árs“, segir Haukur að lokum.

Hér er hægt að skoða Ársskýrsla Veðurstofu Íslands 2019 í mismunandi viðmóti.

Hala skýrslunni niður á PDFformi

Skoða PDF eintakið í „flettiglugga“

Tilraunaútgáfa fyrir snjalltæki og tölvur

Lesa meira

Veðurstofan

Stutt og óvenjuleg skjálftahrina í Eyjafirði

Birt

on

By

Kortið sýnir jarðskjálftana norðan við Hrísey sem urðu í lítilli hrinu 31. október til 4. nóvember.


7.11.2020

Lítil jarðskjálftahrina hófst þann 31. október um 1 km norðan við Hrísey. Veðurstofan mældi um 30 jarðskjálfta í hrinunni sem lauk 4. nóvember. Skjálftarnir voru allir litlir eða innan við M1.5 og flestir innan við M1 að stærð. Fólk verður að öllu jafna ekki vart við skjálfta að þessari stærð, en þeir hafa vakið athygli þar sem óvanalegt er að svo margir skjálftar mælist á þessum slóðum. Við nánari athuganir á upptökum skjálftanna kemur í ljós að þeir eru á mjög afmörkuð svæði og litlu dýpi, um 2-4 km. Til samanburðar eru skjálftar sem tilheyra hrinunni á Tjörnnesbrotabeltinu að mælast á 10 km dýpi.

Ekki er óhugsandi að skjálftarnir tengist óróleika vegna jarðskorpuhreyfinga úti fyrir mynni Eyjafjarðar, en líklegra þykir m.v. staðsetningu og lítið dýpi skjálftanna, að þeir tengist jarðhitavirkni sem finnst víða í Eyjafirðinum. Náttúruváreftirlit Veðurstofunnar fylgist áfram vel með svæðinu í samvinnu við félaga á Jarðvísindastofnun, ÍSOR og Almannavarnadeild Lögreglunnar.

Almannavarnir lýstu yfir óvissuástandi vegna jarðskjálftavirkni úti fyrir Norðurland þegar öflug hrina hófst í Eyjafjarðarálnum í lok júní. Síðan þá hefur sérstaklega verið fylgjst með svæðinu. Óvenju mikil jarðskjálftavirkni hefur verið fyrir norðan síðan í sumar, sér í lagi fyrir mynni Eyjarfjarðar þar sem gliðnunarbelti í Eyjafjarðarál mætir Húsavíkur- og Flateyjarmisgenginu.

Lesa meira

Veðurstofan

Tíðarfar í október 2020

Birt

on

By

Stutt yfirlit

3.11.2020

Tíðarfar í október var hagstætt. Mánuðurinn var fremur hlýr og hægviðrasamur. Austlægar áttir voru tíðar í mánuðinum. Þurrt var á vestanverðu landinu en blautara austanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,8 stig og er það 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,2 stig, 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 5,6 stig og 5,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2010-2019 °C
Reykjavík 5,8 1,4 24 150 0,5
Stykkishólmur 5,6 1,7 23 175 0,6
Bolungarvík 5,1 1,7 20 123 0,7
Grímsey 4,9 1,9 16 148 0,3
Akureyri 4,2 1,2 34 140 0,2
Egilsstaðir 4,0 1,0 20 til 21 66 -0,4
Dalatangi 5,7 1,2 20 83 0,0
Teigarhorn 5,5 1,0 34 148 -0,1
Höfn í Hornaf. 5,8 0,1
Stórhöfði 5,9 0,9 34 144 0,0
Hveravellir -0,2 1,1 15 til 16 56 -0,1
Árnes 4,2 0,7 50 141 -0,1

Meðalhiti og vik (°C) í október 2020

Að tiltölu var hlýjast um landið vestanvert en kaldast á Austurlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,2 stig í Bíldudal. Neikvætt hitavik var mest -0,4 stig á Fáskrúðsfirði.

Hitavik sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2010–2019).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,0 stig í Surtsey og á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur -1,3 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur 1,1 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,9 stig á Seyðisfirði þ. 14. Mesta frost í mánuðinum mældist -14,1 stig á Setri þ. 2. Í byggð mældist mesta frostið -10,6 stig í Möðrudal þ. 21.

Úrkoma

Það var þurrt vestantil á landinu en blautara austanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 42,1 mm sem er um helmingur af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 77,6 mm sem er um 30% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 38,6 mm sem er helmingi minna en meðallag áranna 1961 til 1990. Á Höfn mældist úrkoman 193,0 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 10, fimm færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 14 daga sem er þremur fleiri en í meðalári.

Í Reykjavík var alautt allan mánuðinn. Jörð var flekkótt einn dag á Akureyri, en alauð alla aðra daga.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 97,4 sem er 13,9 stundum fleiri en í meðallagi í október. Á Akureyri mældust 56,6 sólskinsstundir sem er 5,1 stund fleiri en í meðalári.

Vindur

Mánuðurinn var hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi. Austlægar áttir voru ríkjandi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1005,1 hPa og er það 2,8 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1040,2 hPa á Egilstaðaflugvelli þ. 17. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 971,2 hPa í Surtsey þ. 30. og á Dalatanga þ. 31.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins var 5,7 stig sem er 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 36. sæti á lista 150 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tíu 5,2 stig. Það er 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 25. sæti á lista 140 ára. Úrkoman hefur verið 13% umfram meðallag í Reykjavík, en 30% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2020 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin