Félag atvinnurekenda

307 milljóna niðurgreiðsla á undirverðlagningu Póstsins

22. febrúar 2021

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur úrskurðað Íslandspósti 509 milljónir króna í framlag frá skattgreiðendum vegna alþjónustubyrði ársins 2020. Inni í þeirri tölu eru m.a. 126 milljónir króna vegna taps fyrirtækisins sökum undirverðlagningar á pakkagjaldskrá Póstsins, sem hefur verið í gildi frá ársbyrjun 2020 og 181 milljón króna vegna þjónustu á „óvirkum“ markaðssvæðum þar sem engu að síður ríkir samkeppni. Félag atvinnurekenda ber brigður á ákvörðunina og telur að stjórnvöld geti ekki látið viðgangast að ríkisfyrirtækið undirverðleggi pakkaflutninga og grafi þannig undan rekstri keppinauta um allt land.

Ekki eitt orð um skyldu til að verðleggja í samræmi við raunkostnað
Pakkagjaldskrá Póstsins var breytt með vísan til ákvæðis, sem kom inn í ný póstlög í meðförum Alþingis, þess efnis að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli vera sú sama um allt land. Hún tók hins vegar ekki tillit til þess skýra ákvæðis póstlaga (3. málsgrein 17. greinar) að gjaldskrá vegna alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þetta ákvæði er lykilatriði í löggjöfinni og er ætlað að hindra undirverðlagningu og ósanngjarna samkeppnishætti alþjónustuveitanda. Athygli vekur að í umfjöllun PFS um hina undirverðlögðu gjaldskrá Póstsins er þetta lagaákvæði ekki nefnt einu orði, eins og það sé ekki til í lögunum.

Þvert á móti virðist PFS fallast á rök Póstsins um að það að láta gjaldskrána taka mið af meðalverði um allt land myndi fela í sér „arðránsmisnotkun“ á höfuðborgarsvæðinu af því að þá væri verið að láta viðskiptavini þar niðurgreiða þjónustu við notendur á landsbyggðinni. Stofnunin telur að sú staða hefði mögulega komið upp að verið væri að „okra“ á höfuðborgarsvæðinu. Þá virðist þó horft framhjá því að gjaldskrá fyrir bréfasendingar Póstsins hefur um árabil verið sú sama um allt land og jafnframt eru viðtakendur pakkasendingar frá Evrópuríkjum látnir greiða sama aukagjald og viðtakendur sendinga frá Kína til að greiða niður meint tap Póstins af síðarnefndu sendingunum.

Skotið fast á Alþingi
PFS skýtur hins vegar föstum skotum á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í ákvörðuninni og segir að nefndin hafi ekki gætt að því að með umræddri breytingu væri hún að auka greiðslur úr ríkissjóði vegna alþjónustu, sem ekki var gert ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisins. Þá virðist engin greining hafa farið fram af hálfu Alþingis um mögulegar fjárhagslegar afleiðingar lagabreytingarinnar fyrir þann aðila sem skylt væri að starfa undir kvöðinni um sama verð fyrir alþjónustu um allt land.

Niðurgreiðsla samkeppni á „óvirkum“ svæðum
Í ákvörðun PFS er jafnframt samþykkt 181 milljónar króna framlag til Póstsins vegna þjónustu á svæðum sem PFS hefur tekið sér fyrir hendur að skilgreina sem „óvirk markaðssvæði“ sem ekki falla undir landpósta. Á öllum þessum „óvirku markaðssvæðum“ starfar engu að síður fjöldi fyrirtækja í samkeppni við Póstinn. Þau fyrirtæki þurfa nú að keppa við ríkisstyrkta samkeppni. Stjórnendur Póstsins hafa tekið þá viðskiptalegu ákvörðun að halda úti fimm daga þjónustu á þessum stöðum, þrátt fyrir að alþjónustuskyldan kveði aðeins á um tveggja daga þjónustu. Sú ákvörðun er til að mæta samkeppni frá einkafyrirtækjum á viðkomandi svæðum.

Stjórnvöld verða að taka í taumana
„Við teljum þessa ákvörðun um 307 milljóna króna niðurgreiðslu skattgreiðenda á undirverðlagningu þjónustu Póstsins með miklum ólíkindum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Staðan er nú sú að stofnunin sem á að hafa eftirlit með póstmarkaðnum fellst á að undirverðlagning, sem bitnar hart á vörudreifingarfyrirtækjum um allt land, sé fjármögnuð úr sjóðum almennings. Ef þessi ákvörðun PFS stendur er stofnunin búin að skuldbinda ríkið til að greiða milljarða króna á komandi árum. Það getur ekki verið að samgönguráðherra eða Alþingi ætli að láta þetta viðgangast. Stjórnvöld verða einfaldlega að taka í taumana.“

Félag atvinnurekenda

Setur framkvæmdavaldið lögin?

6. mars 2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 6. mars 2021.

Vandræðagangur ríkisapparatsins í kringum vondan rekstur, rangar ákvarðanir og samkeppnishamlandi framferði ríkisfyrirtækisins Íslandspósts hefur verið sögulegur. Ekki átti greinarhöfundur þó endilega von á því að meðvirknikast stjórnmála- og embættismanna færi að snúast um grundvallaratriði í stjórnskipan ríkisins fyrr en hann las Morgunblaðið fyrr í vikunni.

Þar hélt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið því nefnilega fram, í skriflegu svari til blaðsins, að það skýra ákvæði póstlaganna að verðskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna væri „ekki að öllu leyti virkt“. Þetta væri vegna þess að Alþingi hefði bætt inn í lögin ákvæði um að sama verð ætti að vera á alþjónustu um allt land.

Nú er það svo að á Íslandi gildir þrískipting ríkisvaldsins eins og í öðrum vestrænum lýðræðis- og réttarríkjum. Handhafar framkvæmdavaldsins setja ekki lögin og geta ekki ákveðið að eigin geðþótta að víkja þeim til hliðar, í heild eða að hluta. Það virðist þó hafa gerzt í þessu tilviki.

Eftirlitsstofnunin hlýðir túlkun ráðuneytisins
Greinarhöfundur furðaði sig á því í grein sem birtist hér í blaðinu í síðustu viku, að Póst- og fjarskiptastofnun virtist hafa gleymt áðurnefndu lagaákvæði. Í febrúar á síðasta ári krafði PFS Íslandspóst um að sýna fram á að ný gjaldskrá fyrir pakkasendingar stæðist ákvæði laganna um raunkostnað. Ári síðar birti stofnunin rúmlega 40 blaðsíðna ákvörðun um greiðslur til Póstsins, þar sem undirverðlögð pakkagjaldskráin kemur mjög við sögu, án þess að nefna þetta grundvallaratriði löggjafarinnar einu orði!

Það er nú skýrara en áður að eftirlitsstofnun, sem á að vera sjálfstæð í störfum sínum, hefur látið ráðuneytið segja sér að búið sé að taka hluta af lögum landsins úr sambandi og hún þurfi ekki að líta til þeirra. Ráðuneytið staðfestir opinberlega að þetta sé skilningur þess. Það er vandséð hvernig ákvörðun PFS á að geta staðið óhögguð – að minnsta kosti hlýtur að vera ákaflega hæpið að Alþingi samþykki rúmlega 500 milljóna króna framlag til Póstsins af fé skattgreiðenda á grundvelli hennar. Umboðsmaður Alþingis hefur væntanlega einhvern tímann hnippt í stjórnsýsluna af minna tilefni.

Eins og Hörður Felix Harðarson lögmaður útskýrir ágætlega í viðtali í blaðinu í gær, ber að virða ákvæði í lögum, jafnvel þótt hægt sé að halda því fram að ákveðnir erfiðleikar séu á að framfylgja þeim – sem virðist þó ekki vera í þessu tilviki, enda lögin skýr. „Ef það á að vera ein og sama gjaldskráin fyrir allt land hlýtur að þurfa að horfa til meðalkostnaðar í þeirri dreifingu og horfa þá þannig á verðlagninguna,“ segir Hörður og er óhætt að taka undir þá túlkun.

Boltinn er hjá ráðherranum
Ef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og undirstofnanir þess telja að vankantar séu á póstlögunum af hálfu Alþingis hlýtur Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra að flytja frumvarp hið snarasta um breytingu á lögunum. Það er hin stjórnskipulega rétta leið, í stað þess að ráðherrann og undirmenn hans grípi fram fyrir hendurnar á löggjafanum. Það er svo sjálfstætt álitaefni að þegar ráðuneytið fór í að velja hvaða lögum ætti að fara að og hvaða lögum ekki varð fyrir valinu sú túlkun sem hefur hvað neikvæðust áhrif á samkeppni og hagsmuni neytenda.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

MS mismunar innlendum matvælaiðnaði

5. mars 2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á frettabladid.is, 5. mars 2021.

Undanrennu- og mjólkurduft er notað í ýmsar vörur innlendra matvælaframleiðenda, t.d. unnar kjötvörur, súkkulaði, kex, ís og osta. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Innlend matvælaframleiðsla nýtur almennt velvildar íslenzkra neytenda og flestir eru sammála um að búa eigi matvælafyrirtækjum þannig rekstrarumhverfi að þau séu í stakk búin að taka þátt í frjálsri samkeppni, jafnt á innlendum sem alþjóðlegum markaði. Svo eru reyndar sumir þeirrar skoðunar að innlend framleiðsla eigi að njóta verndar fyrir samkeppni, t.d. með háum tollum og undanþágum frá samkeppnislögum. Það er raunin í tilviki landbúnaðarins og tengdra framleiðslugreina. Hin óheppilega afleiðing þess er að þannig er öðrum innlendum matvælaiðnaði mismunað og torveldað að verða samkeppnisfær. Rekjum lýsandi dæmi um slíkt.

Einokun og gengistryggð tollvernd
Mjólkursamsalan (MS) og tengd fyrirtæki hafa í raun einokunarstöðu á íslenzkum mjólkurvörumarkaði, í krafti undanþágu frá samkeppnislögum sem hefur heimilað afurðastöðvum að sameinast og vinna saman, án atbeina samkeppnisyfirvalda.  Mjólkuriðnaðurinn nýtur ríkrar tollverndar; mjög háir tollar eru lagðir á innfluttar mjólkurvörur fyrir utan takmarkað magn sem má flytja inn á lægri tollum eða tollfrjálst samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Mjólkur- og undanrennuduft er ein afurð mjólkurframleiðslu. Það er notað í margs konar vörur, m.a. sælgæti, ís, kex og kökur og unnar kjötvörur. Í krafti einokunarstöðu sinnar er Mjólkursamsalan eini seljandi mjólkur- og undanrennudufts á Íslandi. Hún hefur enga innlenda samkeppni. Í skjóli tollverndarinnar eiga önnur innlend matvælafyrirtæki, sem nota mjólkurduft í framleiðslu sína, í raun ekki annan kost en að kaupa vörurnar af MS og hún hefur því enga erlenda samkeppni heldur. Í búvörusamningi stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem var undirritaður í febrúar 2016, var samið um að stjórnvöld myndu hækka tolla á innfluttu mjólkurdufti duglega og þeir tækju síðan árlegum hækkunum til samræmis við gengisþróun. Það er einsdæmi í seinni tíð að atvinnugrein hafi samið þannig við stjórnvöld um að hækka skattana á keppinautum sínum.

Verðið þrefaldast vegna tolla
Tollarnir á innflutt mjólkur- og undanrennuduft eru því ekkert smáræði, 30% verðtollur auk 649-810 króna magntolls á hvert kíló. Þetta þýðir að t.d. innflutt undanrennuduft, þar sem innflutningsverðið er 340 krónur, tekur 102 króna verðtoll og 649 króna magntoll, samtals 751 krónu, og ríflega þrefaldast í verði, endar í 1.091 krónu. Heimsmarkaðsverðið á nýmjólkurdufti er á bilinu 416-429 krónur og á undanrennudufti 326-364 krónur, miðað við tölur frá því seint á síðasta ári.

Erlend fyrirtæki fá lægra verð
Mjólkursamsalan selur hins vegar öðrum matvælafyrirtækjum nýmjólkurduft á 623 krónur kílóið og undanrennuduft á 608 krónur, miklu hærra verði en heimsmarkaðsverði. En hér kemur það áhugaverða í málinu; þetta verð á bara við ef viðskiptavinur MS er íslenzkt matvælafyrirtæki. Matvælafyrirtæki í öðrum löndum fá verð sem er nálægt heimsmarkaðsverðinu. Samkvæmt tölum Hagstofunnar seldi MS þannig yfir 500 tonn af undanrennudufti úr landi á síðasta ári á meðalverðinu 333 og 345 krónur á kíló (mismunandi eftir fituinnihaldi).

Mjólkursamsalan mun bera fyrir sig að verðlagsnefnd búvara ákveði opinbert heildsöluverð á mjólkur- og undanrennudufti og fyrirtækið geti ekki vikið frá því. Verðið á útflutta mjólkurduftinu sýnir hins vegar að MS telur sig ekki bundna af opinbera verðinu. Verðlagsnefndin hefur heldur enga lagaheimild til að ákveða verð á mjólkur- og undanrennudufti og fundargerðir hennar sýna að hún telur það sér í sjálfsvald sett hvort hún ákveður verð á mjólkurdufti eða ekki.

Skekkt samkeppnisstaða
Hér er því uppi sú staða að fyrirtæki, sem nýtur einokunarstöðu á mjólkurmarkaðnum í krafti undanþágu frá samkeppnislögum og getur rukkað það verð sem því sýnist fyrir mikilvæg aðföng til matvælaframleiðslu í skjóli tollverndar, mismunar innlendum og erlendum matvælafyrirtækjum gróflega. Innlendir viðskiptavinir greiða í raun niður það verð sem erlendir kaupendur mjólkurdufts frá MS fá.

Með þessu eru innlend matvælafyrirtæki sett í óþolandi stöðu. Hærri hráefniskostnaður hækkar að sjálfsögðu verðið sem neytendur greiða fyrir vörur þeirra. Erlendir keppinautar þeirra hafa aðgang að hráefni á heimsmarkaðsverði, sem er miklu lægra en verðið sem MS þvingar íslenzku fyrirtækin til að borga. Þetta skekkir samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda á alþjóðlegum markaði og ekki síður á íslenzkum matvælamarkaði. Innlendir matvælaframleiðendur eru í samkeppni við erlenda keppinauta sem geta keypt mjólkurduft af MS á lága verðinu og framleitt úr því vörur sem þeir selja svo til Íslands á lágum eða engum tollum. Þegar Alþingi samþykkti að hækka duglega tollana á mjólkurdufti var nýlega frágenginn tollasamningur Íslands og ESB, þar sem tollar á ýmsum vörum sem innihalda mjólkur- og undanrennuduft, eins og ís, súkkulaði og kexi, voru lækkaðir eða felldir niður.

Þannig er ljóst að verndarstefna í kringum íslenzkan landbúnað skaðar samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu. Það er raunverulega fyrirtækjum til tjóns að framleiða kex og sælgæti á Íslandi – þau væru betur sett í einhverju af löndunum sem MS selur hráefni til á heimsmarkaðsverði. Það verður að velta því upp hvort vilji sé til að fórna samkeppnishæfni iðngreina sem keppa við tollalausan innflutning til að bæta að óþörfu stöðu þeirra sem vilja okra á íslenzku mjólkurdufti.

Hvað ætla stjórnvöld að gera?

Eins og stundum áður þegar hagsmunir tengdir landbúnaðinum eiga í hlut, virðast stjórnmálamenn láta sér standa á sama um þessa stöðu. Árið 2006 hvatti Samkeppniseftirlitið stjórnvöld til að afnema innflutningshömlur á mjólkurdufti, þannig að matvælafyrirtækjum væri fært að kaupa það á samkeppnishæfu verði. Einu viðbrögðin við því voru áðurnefndur samningur ríkisstjórnarinnar og bænda tíu árum síðar um að bæta duglega í innflutningshömlurnar.

Stjórnmálamenn hljóta samt að þurfa að svara fyrir þá stöðu sem viðgengst í skjóli undanþágu frá samkeppnislögum og tollverndar, enda er hvort tveggja á þeirra ábyrgð. Ætla þeir bara að þegja við því að matvælafyrirtækjum sé mismunað með þessum ósvífna hætti, á kostnað innlendrar matvælaframleiðslu og íslenzkra neytenda?

Grein Ólafs á frettabladid.is
Umfjöllun Fréttablaðsins

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

FA vill útvíkka heimild til sölu áfengis á framleiðslustað

4. mars 2021

Félag atvinnurekenda leggur í umsögn til Alþingis til að heimild áfengisframleiðenda til að selja vörur sínar til neytenda á framleiðslustað, líkt og lagt er til í frumvarpi dómsmálaráðherra, verði útvíkkuð. Ekki verði stærðarmörk á því hvaða framleiðendur megi selja vöru sína beint og ekki heldur gert upp á milli bjórs og sterkara áfengis.

Öll brugghús fái að selja á framleiðslustað
Með frumvarpi dómsmálaráðherra er lagt til að brugghúsum, sem framleiða minna en 500.000 lítra af sterku öli á ári, verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. FA tekur undir þau rök sem fram koma í greinargerð frumvarpsins, að það skjóti skökku við að brugghús, sem mörg hver hafa byggt upp ferðaþjónustu samhliða bruggstarfseminni, geti ekki selt gestum sínum vörur sínar í lokuðum umbúðum sem þeir geti haft með sér til eigin neyslu. Félagið tekur einnig undir að ástæða sé til að auðvelda brugghúsum að selja beint til neytenda áfengistegundir sem framleiddar eru tímabundið eða í litlu magni og henta því mögulega ekki til sölu í Vínbúðum ríkisins. Af báðum þessum ástæðum sé sjálfsagt að áfengisframleiðendur geti selt vörur sínar milliliðalaust til neytenda. FA bendir hins vegar á ýmsa neikvæða hvata sem fylgi stærðartakmörkuninni og leggur til að brugghús fái heimild til sölu á framleiðslustað óháð stærð og því hvers konar áfengi þau framleiða.

FA bendir jafnframt á að Alþingi verði að huga að jafnræðisreglu EES-samningsins þegar það samþykkir frumvarpið; að innlendum framleiðendum sé ekki hyglað umfram framleiðendur sambærilegrar vöru í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Mikilvægt að breytingarnar standist EES-samninginn
FA vitnar m.a. til skýrslu sænskra stjórnvalda frá 2010 um möguleika á beinni sölu brugghúsa á áfengi til viðskiptavina en þar var það skýr niðurstaða skýrsluhöfunda að það gengi gegn jafnræðisreglu Evrópuréttarins að mismuna innlendum framleiðendum og framleiðendum sambærilegra vara í öðrum ESB-ríkjum. Með því að leyfa innlendum framleiðendum sölu á framleiðslustað hefðu þeir tækifæri til að koma vörum sínum á framfæri við neytendur bæði í sænsku ríkiseinkasölunni og í eigin sölu, en framleiðendur í öðrum aðildarríkjum ættu ekki aðra leið að neytendum en ríkiseinkasöluna. Sænsk stjórnvöld tilkynntu nýlega að gerð yrði ný úttekt á möguleikum á beinni sölu sænskra áfengisframleiðenda til neytenda. Í tilkynningu sænska félagsmálaráðuneytisins kemur fram að eitt skilyrði þess að slík sala verði heimiluð, sé að engin mismunun eigi sér stað gagnvart öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins með því að hygla sérstaklega innlendum vörum og þjónustu. Í ákvörðun sænsku ríkisstjórnarinnar kemur fram að ein forsenda niðurstöðu í málinu sé greining á þeim álitamálum sem snúa að Evrópulöggjöfinni.  Niðurstöðu úttektarinnar er að vænta í lok ársins.

Framleiðendur á EES eigi jafngreiða leið að neytendum
„Sú Evrópuréttarlega greining, sem að baki frumvarpi þessu liggur, virðist harla rýr í roðinu ef marka má greinargerðina. FA leggur til að nefndin mæli með því við dómsmálaráðuneytið að það fylgist með vinnu sænskra stjórnvalda í málinu og eftir atvikum beri málið undir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í því skyni að tryggja megi að framleiðendur sambærilegra áfengra drykkja í öðrum EES-ríkjum eigi ekki síðri möguleika á að koma vöru sinni á framfæri við íslenzka neytendur en innlendir framleiðendur. FA vekur athygli á mikilvægi þess að það fyrirkomulag sem Alþingi ákveður haldi, verði látið á það reyna fyrir EFTA-dómstólnum,“ segir í umsögn FA til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

FA leggur til ýmsar fleiri breytingar á frumvarpinu, m.a. til að skýra ákvæði þess betur. Félagið leggur til að ákvæði um bann við áfengisauglýsingum verði rýmkuð, þannig að áfengisframleiðendum verði heimilað að auglýsa starfsemi sína með skiltum á byggingum og við þjóðvegi.

Ekki búa til nýtt ójafnræði og samkeppnishömlur
„FA hefur almennt jákvæða afstöðu til markmiða frumvarpsins og telur æskilegt að það verði að lögum, en leggur um leið ríka áherzlu á að leyst verði úr þeim álitamálum og ábendingum sem félagið hefur sett hér fram. Að öðrum kosti er hætta á að samþykkt frumvarpsins búi til nýtt ójafnræði og samkeppnishömlur á áfengismarkaðnum, þvert á markmiðin. Þá þarf ekki að hafa mörg orð um þá áhættu sem í því getur falizt fyrir íslenzka ríkið ef fyrirkomulagið sem Alþingi samþykkir stenzt ekki EES-samninginn,“ segir í niðurlagi umsagnar FA.

Umsögn FA um frumvarp dómsmálaráðherra

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin